Undanfarin ár hefur verið bryddað upp á samstarfi við Hestamannafélagið Trausta um Hrísholtsmótið en í þetta skiptið sigldu Logamenn einir síns liðs og buðu upp á opna töltkeppni og kappreiðar að venju auk gæðingakeppni fyrir félagsmenn. Í nokkur ár hefur einn dómari annast dóma á gæðingum félagsins og það vakið verðuga athygli en að þessu sinni voru dómararnir þrír og hverju sem það veldur þá voru einkunnir mun lægri nú en verið hafa undanfarin ár. Vera kann að gæðingarnir í Tungunum séu mun lakari nú en verið hefur en einnig er mögulegt að fjölgun dómara valdi þar einhverju.
Skráning var mun minni nú í mótinu en verið hefur. Hrísholtsmótin hafa verið mjög vaxandi í vinsældum undanfarin ár en nú virðist eitthvert lát á því, í bili að minnsta kosti.
Kjarnholtaræktunin hefur oft og tíðum sett svip sinn á mótin í Hrísholti og nú voru þrjú hross þaðan í úrslitum A-flokks og sami knapinn, Siguroddur Pétursson, með þau öll enda hlaut hann að launum Riddarabikarinn sem veittur er þeim knapa sem best þykir höndla hrossin. Efst stóð hryssan Hrafnkatla og sat Sigurður Sigurðarson hana fyrir Sigurodd í úrslitum en sjálfur sat hann Gæju sem varð önnur. Í B-flokki var það Eskimær frá Friðheimum sem hlutskörpust varð og er það ávallt skemmtilegt þegar heimamenn sjálfir hafa sigur og ekki spillir þegar um er að ræða hross úr ræktun knapans eins og var í þessu tilfelli en það var Knútur Ármann sem sat hryssu sína. Sannast þar hið fornkveðna að hollur er heimafenginn baggi. En það var annar heimaknapi sem var einna atkvæðamestur hvað fjöldann varðar því María B. Þórarinsdóttir var með tvö hross í úrslitum, Hegra frá Fellskoti í öðru sæti og Brellu frá Fellskoti í fjórða sæti en Rósa Birna Þorvaldsdóttir sat hana fyrir Maríu í úrslitum.
Af unglingum stóð sig best Hugrún Hreggviðsdóttir á Hildisif frá Torfastöðum og í flokki barna Guðmundur Davíð Óskarsson en hann var einnig í úrslitum töltsins.
Frjálslegheit hafa löngum verið eitt af aðaleinkennum Hrísholtsmóta og á það ekki hvað síst við um kappreiðar mótsins. Þar eru hrossin ræst með fljótandi starti sem kallað er en þá koma hrossin samsíða á hægagangi að rásmarki og ræsir lætur flaggið falla um það bil sem hestarnir fara yfir ráslínu. Skoða ber tímana í kappreiðum í ljósi þess en hinsvegar var flugskeiðið framkvæmt samkvæmt ströngustu reglum og hinir góðu tímar þeirrar greinar voru fullkomlega samanburðarhæfir. Þar sigraði Logi Laxdal á Feykivindi frá Svignaskarði á 7,77 sek. Í grein um Íslandsmótið í Keflavík fyrir rúmri viku sagði að Logi hefði sigrað í 150 metra skeiði á Feykivindi en hið rétta er að hann sat Stör frá Saltvík í sigursprettinum. Þessa villu má rekja til ósveigjanleika forritsins Kappa sem virðist mjög gallað og veldur víða allskyns vandræðum.
Síðasti þáttur Hrísholtsmóta er heimreiðin Fjölmargir Tungnamenn koma ríðandi til mótsins og fara ríðandi heim og þykir mörgum það hápunktur samkomunnar. Meðal þeirra sem þennan hátt hafa á er Björn bóndi í Úthlíð sem lætur sig aldrei vanta og með honum í för er gjarnan frítt föruneyti af hlíðarbæjunum og ýmsum gestum. Þar ríður Björn fremstur á sínum jarpa gæðingi sem fáir hafa við á yfirferðartölti enda ekki laust við að Björn sendi ungum oflátungum óblítt auga reyni þeir að þembast fram úr. Á leiðinni eru svo löggilt stopp þar sem Björn stjórnar fjöldasöng. Þannig enda hestamótin í Hrísholti.