— Morgunblaðið/Golli
FJÖGUR tilboð bárust í kerskála og aðrar byggingar vegna stækkunar Norðuráls á Grundartanga og voru þau öll undir 4,3 milljarða króna kostnaðaráætlun sem fyrir lá.

FJÖGUR tilboð bárust í kerskála og aðrar byggingar vegna stækkunar Norðuráls á Grundartanga og voru þau öll undir 4,3 milljarða króna kostnaðaráætlun sem fyrir lá.

Miðað við umfang verksins munaði ekki svo miklu á lægstu tilboðum, eða um 47 milljónum króna. Ístak bauð lægst, eða 3.239 milljónir króna, og ÞG-verktakar komu næstir með 3.286 milljóna króna boð. Síðan komu Sveinbjörn Sigurðsson hf. með 3.484 milljónir og Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) með 3.631 milljón kr. tilboð. Þess má geta að ÍAV vinnur nú að jarðvegsframkvæmdum fyrir byggingarnar og á þeim að vera lokið næsta vetur þegar byggingaframkvæmdir geta hafist.

Útboðið nú tók til byggingar kerskála, sem verður um 31 þúsund fermetrar, spennistöðvar og aðstöðu fyrir loftpressur og blásara. Verkið felur í sér aðstöðusköpun á vinnusvæðinu, jarðvinnu, uppsteypu, forsteyptar einingar, stálvirki, klæðningar, veitukerfi og búnað, almennar lágspennulagnir og frágang innanhúss fyrir nýju byggingarnar. Verkið er áfangaskipt og á því að vera lokið að fullu eigi síðar en 1. desember árið 2005.

Tilboð í ker og rafleiðara nálægt 2,5 milljarða króna áætlun

Að sögn Ragnars Guðmundssonar, framkvæmdastjóra fjármála- og stjórnunarsviðs Norðuráls, er verið að yfirfara tilboðin og niðurstaðna að vænta á næstu vikum við hverja verði samið. Ragnar segist ekki geta verið annað en sáttur við niðurstöðu útboðsins, að öll tilboð hefðu verið þetta vel undir áætlun.

"Við höfðum vissar áhyggjur af því að full mikið væri í gangi í einu hjá verktökunum og þenslan væri orðin mikil. Það virðist ekki hafa haft veruleg áhrif í þessu útboði," segir Ragnar.

Tilboð hafa einnig verið opnuð í ker og rafleiðara fyrir stækkað álver, öll frá erlendum fyrirtækjum víða um heim. Ragnar segir lægstu tilboðin hafa verið nálægt kostnaðaráætlun, sem samanlagt hljóðaði upp á um 2,5 milljarða króna fyrir þessa verkþætti.