Þröngt mega...: Eru flugfarþegar að verða eins og sardínur í dós?
Þröngt mega...: Eru flugfarþegar að verða eins og sardínur í dós? — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þrengsli í flugvélum verða flugfarþegum til sífellt meiri óþæginda, en undanfarin ár hefur það sætapláss sem ætlað er hverjum farþega minnkað með aukinni samkeppni og viðleitni flugfélaga til þess að fjölga farþegasætum í hverju flugi.

Þrengsli í flugvélum verða flugfarþegum til sífellt meiri óþæginda, en undanfarin ár hefur það sætapláss sem ætlað er hverjum farþega minnkað með aukinni samkeppni og viðleitni flugfélaga til þess að fjölga farþegasætum í hverju flugi. Í nýlegri grein í Neytendablaðinu er þeim tilmælum beint til flugfélaga hér á landi að þau finni aðrar leiðir til að hagræða í rekstri en að minnka bil milli sæta, enda sé ástandið nú orðið mjög óþægilegt fyrir fullvaxna flugfarþega, sem sitji nær rígskorðaðir í sætum sínum.

Á síðustu árum hefur jafnframt skapast meðvitund fyrir þeim hættum sem fylgt geta hreyfingarleysi farþega í löngum flugferðum. Dæmi er um að fólk hafi látist eða verið hætt komið af völdum blóðtappa eftir langar flugferðir í þröngu rými. Af þeim sökum hafa heilbrigðisyfirvöld um heim allan beint þeim tilmælum til flugfélaga að þau hvetji farþega til þess að standa upp og hreyfa sig og drekka vatn meðan á flugi stendur. Þetta er þó hægara sagt en gert, þar sem erfitt getur verið um vik fyrir farþega að teygja úr sér í sætum sínum eða leggja í göngutúra um flugvélaganga, þar sem flugfreyjur og -þjónar eru á ferðinni með matar- og söluvagna.

Hávaxnir mæti snemma

Flugfélög og flugvélaframleiðendur fylgja ákveðnum alþjóðlegum stöðlum um sætabil (seat pitch) en þar er miðað við fjarlægð sem mæld er frá ákveðnum punkti í sæti að sama punkti í næsta sæti fyrir framan. Þetta sýnir hversu mikið pláss eitt sæti tekur ásamt fótarými fyrir framan það. Í þessum staðli er þó ekki að finna kröfur um lágmarks fótarými fyrir flugfarþega, þar sem sæti geta verið misfyrirferðarmikil eftir því hvernig hönnun þeirra er háttað. Aðeins eru settar ákveðnar reglur um lágmarksbil milli sæta við neyðarútganga.

Billengd 74 til 84 sm

Í umfjöllun Neytendablaðsins er rætt við forsvarsmenn flugfélaganna Iceland Express og Icelandair um stefnu félaganna varðandi sætabil og sætaskipan í flugi á þeirra vegum.

Að sögn Ólafs Haukssonar, forstöðumanns almannatengsla hjá Iceland Express, eru alls 148 sæti í vélum þeirra og sætabilið á bilinu 74 til 76 sm. Aðeins er um eitt farrými að ræða og er mesta fótrýmið í fremstu sætaröðinni og í sætaröð í miðri vélinni, við neyðarútgang. Ólafur segir að Iceland Express geri sér far um að hávaxið og leggjalangt fólk fái þessi sæti, en til þess að tryggja sér þessi sæti þurfi fólk að mæta snemma í innritun.

Jóhann Gísli Jóhannsson, deildarstjóri þjónustueftirlits Icelandair, segir að bil milli sæta í flugvélum félagsins sé 78 til 84 sm. Þetta sé algeng billengd hjá áætlunarflugfélögum en í leiguflugi sé sætabilið yfirleitt minna.Við neyðarútganga er sætabilið meira en flugfélögum er aðeins heimilt að úthluta þeim sætum við innritun á flugvellinum til þess að tryggja að þeir sem þar sitja geti aðstoðað í neyðartilfellum. Við úthlutun þessara sæta gildir því að fyrstur kemur fyrstur fær. Hjá Icelandair og Iceland Express er jafnframt reynt að setja hávaxið fólk við ganginn fáist ekki sæti við neyðarútgang, svo að fólk hafi möguleika á að rétta úr fótunum annað slagið.