Geitungabú geta leynst víða.
Geitungabú geta leynst víða.
Meindýraeyðar segja ekki ástæðu til að hræðast geitunga frekar á haustin, þegar þeir yfirgefi bú sín, en á öðrum árstíma. Árásarhneigð þeirra sé ekkert meiri heldur eru fleiri á ferðinni og því auknar líkur á að verða fyrir stungu af þeirra völdum.

Meindýraeyðar segja ekki ástæðu til að hræðast geitunga frekar á haustin, þegar þeir yfirgefi bú sín, en á öðrum árstíma. Árásarhneigð þeirra sé ekkert meiri heldur eru fleiri á ferðinni og því auknar líkur á að verða fyrir stungu af þeirra völdum. Of mikið hafi verið gert úr hættunni sem stafi af þeim síðsumars þó geitungar vissulega verji bú sín sé að þeim sótt. Eftir 20. ágúst eru þeir ekki jafn viljugir að færa björg í búin, yfirgefa þau og leita að fæðu fyrir sig sjálfa. Þegar sá tími kemur verður fólk frekar vart við geitunga þar sem þeir svífa yfir sætindum, gosi, ávöxtum og ýmsum matvælum í og við híbýli fólks. Sá árstími er nú að ganga í garð.

Smári Sveinsson, meindýraeyðir hjá Vörnum og eftirliti ehf., hefur orðið var við það í sumar að tvær kynslóðir drottninga nái að koma upp búum. Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, hafi fyrst tekið eftir þessu í fyrrasumar. Þá komi drottning, sem byrjaði búskap í vor, upp nokkrum drottningum yfir sumarið sem síðan nái að gera annað bú. Enn meiri fjölgun geitunga verði þegar þessar aðstæður séu fyrir hendi.

Erling Ólafsson segir að mikið hafi borið á holugeitungi í vor. Uppsveifla hafi verið í fjölda drottninga og því mátti búast við fjölgun búa miðað við síðustu sumur. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir í ágúst og svo virðist sem drottningarnar hafi ekki getað komið upp búum.

"Það byrjaði með miklum hasar í maí. Það hefur eitthvað komið upp á," segir Erling. Þetta komi á óvart og skýringar á þessu séu ekki þekktar. Hins vegar hafi fjöldi trjágeitunga verið stöðugur og svipaður undanfarin ár.

Konráð Magnússon, meindýraeyðir hjá Firringu, segir sumarið hafa verið rólegt. Hann staðfestir það sem Erling segir, að fjölgun holugeitunga sé engin milli ára og minna sjáist af honum. Það geti hins vegar breyst þegar líður á ágústmánuð. Þegar veðrið sé frekar þungbúið verði fólk ekki vart við geitungana. Á meðan springa út nýjar flugur í búunum og það megi sjá þau stækka á degi hverjum. Svo þegar veðrið batni eða geitungarnir yfirgefi búin fari þeir meira á flakk.

Tvær rólegar vikur

Róbert Ólafsson, meindýraeyðir hjá Varandi, segir síðustu tvær vikur hafa verið rólegar. Þar áður var gott veður og fólk úti í görðum. Þá verði það vart við geitungana og kalli frekar til meindýraeyða til að eyða búum. Minna sé um geitunga á þvælingi eins og í kringum bakarí, sjoppur og þess konar staði en í fyrrasumar.

Róbert segir allt of mikið gert úr því að ágúst sé hættulegri vegna hættu á stungu geitunga en aðrir mánuðir. Það sé búið að hræða fólk of mikið. Þeir verði ekkert illskeyttari á þessum árstíma - aðeins fleiri og því líklegra að fólk verði fyrir stungu.

Varðandi fjölda holugeitunga í sumar er það tilfinning Róberts að fjöldinn sé svipaður og í fyrra. Þeir komi fram núna í ágúst og sé helst að finna undir þakskeggjum, steinum, í holum og á líkum stöðum.

Róbert segir fólk núna vera að koma heim úr löngum sumarfríum. Hann hafi sem dæmi fjarlægt bú undir stól í stofu í íbúð í Reykjavík. Íbúar hafi orðið varir við búið þegar þeir komu heim úr fríinu og sáu litla rifu á opnanlegum glugga. Á meðan hafi geitungar byggt bú við góðar aðstæður inni í íbúðinni. Þetta gerist oft í þvottahúsum þar sem gluggar eru alltaf opnir og auðvelt fyrir drottningu að komast inn og búa sér bú.

Smári Sveinsson segist hafa eytt svipuðum fjölda búa og í fyrra. Sumarið hafi samt ekki verið neitt svakalegt m.t.t. fjölda geitunga. Það segi þó ekki alla söguna því fólk sé núna að koma úr sumarfríum. Þá fjölgi útköllum vegna búa í görðum þegar allt er gert klárt fyrir veturinn. Reynist oft mikið líf í garðinum, bú hafi sprottið upp og geitungar á sveimi. Mikil sprenging hafi orðið á þessum árstíma í fyrra.

Þrjár ráðleggingar

Smári er með þrjár ráðleggingar fyrir fólk þegar það fer út í garð eftir frí. Fyrst að lemja alla runna og tré sem það hyggst klippa með priki áður og sjá hvort mikið af geitungum fer á stjá. Í annan stað að staðsetja geitungagildrur ekki þar sem fólk vill ekki hafa geitunga, eins og við grill. Gildrurnar dragi þá frekar að og því betra að hafa þær í vissri fjarlægð. Í þriðja lagi að fá fagfólk til að fjarlægja búin.

Meindýraeyðarnir Stefán Torfi Sigurðsson á Ísafirði og Boði Stefánsson á Egilsstöðum segja fjölda geitunga svipaðan og í fyrra. Stefán segir samt lítið um holugeitunga fyrir vestan en Boði segir fjöldann jafnvel meiri. Búin séu að stækka núna en útbreiðslan svipuð.

bjorgvin@mbl.is