Í Morgunblaðinu í gær var frá því skýrt, að sérsveitir norska hersins æfi nú reglulega viðbrögð við hugsanlegri árás alþjóðlegra hryðjuverkamanna á olíumannvirki í Norðursjó. Norskur sérfræðingur hefur unnið skýrslu um olíuiðnaðinn og hryðjuverkaógnir.

Í Morgunblaðinu í gær var frá því skýrt, að sérsveitir norska hersins æfi nú reglulega viðbrögð við hugsanlegri árás alþjóðlegra hryðjuverkamanna á olíumannvirki í Norðursjó.

Norskur sérfræðingur hefur unnið skýrslu um olíuiðnaðinn og hryðjuverkaógnir. Sérfræðingurinn telur hættu á, að hryðjuverkamenn láti til skarar skríða gegn Norðmönnum vegna tengsla þeirra við Bandaríkjamenn og vegna þess að Norðmenn eru í hópi helztu olíuútflutningsþjóða heims.

Í áratugi áttu Íslendingar og Norðmenn nána samleið í öryggismálum vegna sameiginlegra hagsmuna á Norður-Atlantshafi. Hernaðaruppbygging Sovétmanna á þeim tíma á Kólaskaga hafði áhrif á öryggi beggja þjóðanna. Fylgzt var með kafbátum og herflugvélum frá eftirlitsstöðvum í Noregi og á Íslandi.

Eftir fall Sovétríkjanna hefur sú skoðun smátt og smátt orðið almenn að ekki sé um neina hernaðarógn að ræða gagnvart þjóðunum sem búa á þessum slóðum. Í þeim efnum er vísað til breyttrar utanríkisstefnu Rússlands.

Nú er hins vegar svo komið, að Norðmenn telja, að þeir verði að vera búnir undir árásir hryðjuverkamanna á sínum heimavígstöðvum og eru bersýnilega að gera ráðstafanir til þess að geta tekizt á við slíkar aðgerðir.

Í umræðum um öryggismál okkar Íslendinga hafa bæði stjórnmálamenn og ýmsir aðrir, þ.á m. Morgunblaðið, vakið athygli á því, að Íslandi geti stafað hætta af hryðjuverkamönnum ekkert síður en Bandaríkjamönnum og ýmsum öðrum þjóðum.

Þótt við höfum ekki yfir að ráða olíulindum eða olíumannvirkjum eins og Norðmenn getur Ísland freistað hryðjuverkamanna af allt öðrum ástæðum. Hertaka varnarlauss aðildarríkis Atlantshafsbandalagsins er möguleiki, sem ekki er hægt að horfa fram hjá.

Í ljósi viðbragða Norðmanna er ástæða til fyrir þá íslenzka stjórnmálamenn, sem hafa gert lítið úr slíkum möguleikum að staldra aðeins við og hugsa sitt mál. Í þeirri veröld, sem við búum í í dag getur engin þjóð sýnt kæruleysi um öryggi sitt.