GÍFURLEGUR engisprettufaraldur er nú í Norður-Afríku en hann má rekja til hagstæðra aðstæðna, nægilegrar úrkomu, í nyrstu ríkjunum, Marokkó, Alsír, Líbýu og Túnis.

GÍFURLEGUR engisprettufaraldur er nú í Norður-Afríku en hann má rekja til hagstæðra aðstæðna, nægilegrar úrkomu, í nyrstu ríkjunum, Marokkó, Alsír, Líbýu og Túnis. Þaðan stefna síðan sveimarnir, sem geta verið tugmilljarðar skordýra, suður á bóginn og éta allt, sem að kjafti kemur, á leiðinni. Akrar bændanna verða eins og eyðimörk á svipstundu og nú er óttast, að upp geti komið algert neyðarástand í sumum ríkjunum í vestanverðri Afríku fyrir árslok.

Ríkin á Sahel-svæðinu eiga mest á hættu, Chad, Malí, Máritanía og Senegal, og fyrstu engisprettusveimarnir eru raunar komnir þangað og nálgast Gambíu.

Himinninn varð brúnn

"Skyndilega dró fyrir sólu og himinninn varð brúnn. Greinar trjánna og jafnvel trén sjálf svignuðu undan þunganum," sagði maður nokkur í Nouakckott, höfuðborg Máritaníu, í viðtali við fréttamann BBC, breska ríkisútvarpsins, en þangað kom engisprettuherinn í fyrradag eftir að hafa étið upp akrana á landsbyggðinni.

Eftir litla stund stóðu trén eftir eins og brúnar beinagrindur og meira að segja grasið á aðalleikvanginum í Nouakchott var horfið. Ástandið minnti mest á frásagnir Biblíunnar af slíkum hamförum og frekar en þá varð ekki við neitt ráðið.

Að vísu reyndu sumir að kveikja elda í von um, að reykurinn bægði plágunni burt en það hafði engin áhrif.

Í Gambíu hafa stjórnvöld lýst yfir neyðarástandi en engisprettuskýin virðast stefna til landsins frá nágrannaríkjunum. Bíða íbúarnir þess, sem verða vill, milli vonar og ótta en meira en 70% landsmanna lifa af landbúnaði.

Éta meira en þyngd sína daglega

Á einum degi geta engispretturnar étið upp gróður, sem annars gæti fætt tugþúsundir manna og þúsundir kvikfjár. Sem dæmi má nefna, að í einni plágu í Sómalíu átu engispretturnar upp gróður á ökrum, sem hefði getað fætt 400.000 manns. Sá sveimur þakti 1.000 ferkm. svæði. Hver einasta engispretta getur étið meira en þyngd sína daglega.

Í Gambíu eins og víðar í Norður-Afríku hefur margra ára þurrkatíð gert fólki erfitt fyrir en nú, þegar himnarnir hafa loks blessað jörðina með regni sínu, þá blasir við því ný ógæfa.

FAO, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, er með mikinn viðbúnað vegna ástandsins. Þar vonast menn til, að ástandið í Norðvestur-Afríku muni fljótt lagast en illa horfir í Vestur-Afríku ef úrkoman verður áfram góð.

"Þar stefnir í neyðarástand," sagði Clive Elliott hjá FAO.

Hafrar á 140 hekturum hurfu eins og dögg fyrir sólu

Það er raunar ekki aðeins í Afríku, sem engispretturnar herja, heldur einnig í Austur-Ástralíu. Þar eins og í Afríku hafa miklir þurrkar gert bændum lífið leitt, raunar þeir mestu í Ástralíu í eina öld, en nú er aftur farið að rigna.

Engispretturnar verpa í vota jörðina og nýgræðingurinn skýtur upp kollinum. Þetta eru kjöraðstæður fyrir engisprettuna.

"Sveimarnir nálguðust um hádegið eins og svört þoka og um nónbil höfðu engispretturnar lagst yfir allt," sagði Phil Thompson, bóndi í Nýja Suður-Wales. "Að morgni næsta dags var allur jarðargróði horfinn."

Thompson hafði sáð höfrum í 140 hektara lands.

Erfið barátta

Reynt er að halda engisprettunum í skefjum með því að úða eitri á varpstaðina en það kemur aldrei nema að takmörkuðu gagni vegna þess hve varpsvæðin eru óhemju víðáttumikil. Kvendýrið verpir um 60 til 100 eggjum í senn og er tilbúið aftur eftir viku. Ævitími engisprettna er raunar ekki nema um 30 dagar og flestar þeirra deyja að loknu ferðalaginu með sveimunum, en fyrst reyna þær þó að geta af sér nýjar kynslóðir.

Breskir vísindamenn telja sig nú vita hvers vegna engisprettan, sem annars er einfari, safnast saman í stóra sveima, sem engu eira. Á afturfótum þeirra eru hár og ef þau eru ert, þá breytist hegðunin. Þær safnast saman og allur skarinn breytist í gráðuga, fljúgandi plágu. Vonast er til, að þessi uppgötvun geti orðið grunnur að nýju eitri gegn þessum vágesti.