ÁFRÝJUNARNEFND samkeppnismála hefur vísað frá kæru Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, og Alþjóðlegrar miðlunar vegna úrskurðar samkeppnisráðs í samráðsmáli tryggingafélaganna. Í kærunni var þess krafist að áfrýjunarnefndin ómerkti úrskurð samkeppnisráðs og vísaði málinu aftur til lögmætrar meðferðar.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir þessa niðurstöðu hafa valdið miklum vonbrigðum og félagið sé nú að íhuga hvort höfðað verði mál fyrir dómstólum gegn tryggingafélögunum vegna meints samráðs þeirra og vinnubragða sem kostað hafi neytendur háar fjárhæðir. FÍB og Alþjóðleg miðlun ehf., nú þrotabú þess sama félags, höfðu á sínum tíma með sér samvinnu um miðlun bifreiðatrygginga fyrir aðila á Lloyds-vátryggingamarkaðnum í London. Þeir töldu sig eiga hagsmuna að gæta í málsmeðferð samkeppnisyfirvalda og gagnrýndu að Samkeppnisstofnun hefði aldrei kallað eftir sjónarmiðum þeirra í þau sjö ár sem rannsókn á meintu samráði tryggingafélaganna stóð yfir. Töldu þeir m.a. að rannsókn Samkeppnisstofnunar mætti rekja upphaf sitt til sérstakrar athugunar á samskiptum Alþjóðlegar miðlunar og Skráningarstofunnar hf. og aðkomu Sambands íslenskra tryggingarfélaga að því máli.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála telur hins vegar að ekki hafi verið sýnt fram á að kærendur hafi svo mikilvægra og sérstakra hagsmuna að gæta að það réttlæti aðild þeirra að málinu. Því beri að vísa kærunni frá. Nefndin telur fyrri mál FÍB og Alþjóðlegrar miðlunar hafa hlotið afgreiðslu hjá samkeppnisyfirvöldum með ákveðnum aðgerðum, m.a. beiðni kærenda um rannsókn á starfsemi Samsteypu íslenskra fiskiskipatrygginga og rannsókn á lækkun bensínverðs.