SÚ aðferðarfræði sem felst í hinu nýja kennsluefni er nauðsynlegt mótvægi við það kerfi sem er við lýði hér á landi, að sögn Skarphéðins Gunnarssonar, kennara við Flataskóla í Garðabæ en hann var meðal þeirra sem komu að gerð kennsluefnisins á sínum...

SÚ aðferðarfræði sem felst í hinu nýja kennsluefni er nauðsynlegt mótvægi við það kerfi sem er við lýði hér á landi, að sögn Skarphéðins Gunnarssonar, kennara við Flataskóla í Garðabæ en hann var meðal þeirra sem komu að gerð kennsluefnisins á sínum tíma.

Skarphéðinn segir að Námsgagnastofnun ráði því algerlega hvaða námsefni sé í boði hér á landi.

"Öfugt við flestallar Evrópu- og Asíuþjóðir þar sem nemendur geta valið um átta eða níu leiðir við að læra stærðfræði, þá getur Námsgagnastofnun ákveðið að eitthvert tiltekið námsefni sé ekki lengur fáanlegt. Ef það námsefni sem stofnunin leggur fram er misheppnað þá situr allt menntakerfið í súpunni næstu tuttugu til þrjátíu árin, þar til bækurnar borga sig upp."

Hann segir að ávinningur af námsefninu sé margþættur og kennarar fái t.a.m mjög góða yfirsýn yfir það hvaða námsefni þeir eigi að kenna og foreldrar sjái hvernig nemandanum gangi. Hann segir að stundum hafi vantað upp á að foreldrar séu tilbúnir að koma og ná í það aukanámsefni, sem boðið er upp á fyrir nemandann.

"Námsefnið er gífurlega snjallt og lofar mjög góðu," segir Valgerður Snæland Jónsdóttir, skólastjóri Smáraskóla í Kópavogi, en skólinn notaði próf frá Íslensku menntasamtökunum við stærðfræðikennslu í vetur og hefur samið um að nota þau aftur á næsta ári.

Valgerður segir að með prófunum hafi bæði foreldrar og kennarar fengið mjög skýra mynd af því hvernig nemendum gengi og hvað þeir þyrftu að bæta. Hún segir námsefnið kerfislega uppbyggt og ljóst að mikil vinna liggi þar að baki.

"Hins vegar gat skólinn ekki keypt allt námsefnið frá samtökunum því það hefði verið of dýrt og skólinn hefði þá farið fram úr kostnaðarmörkum sínum, þó samtökin reyni að halda verðinu í lágmarki," segir Valgerður sem kveðst gjarnan vilja eiga þess kost að kaupa kennsluefnið í heild sinni.

Bíða frekari þróunar

Ingunnarskóli notaði kennsluefnið síðasta vetur og segir Guðlaug Sturlaugsdóttir, skólastjóri, að nemendur hafi sýnt framfarir og hugmyndin sé mjög góð. "Hins vegar viljum bíða eftir því að kennsluefnið verði þróað frekar og ákváðum að taka það ekki aftur í vetur."