Anna Hera Björnsdóttir og Ingvar Sigurjónsson vinna við að endurbæta kennsluefni ÍMS í stærðfræði.
Anna Hera Björnsdóttir og Ingvar Sigurjónsson vinna við að endurbæta kennsluefni ÍMS í stærðfræði. — Morgunblaðið/Sverrir
NÝTT kennsluefni í stærðfræði, sem nokkrir háskólanemar á vegum Íslensku menntasamtakanna hafa þróað, verður tekið til kennslu á Indlandi í vetur en kennsluefnið var notað í nokkrum grunnskólum hér á landi í vetur.

NÝTT kennsluefni í stærðfræði, sem nokkrir háskólanemar á vegum Íslensku menntasamtakanna hafa þróað, verður tekið til kennslu á Indlandi í vetur en kennsluefnið var notað í nokkrum grunnskólum hér á landi í vetur.

Alls munu um tólf þúsund nemendur á aldrinum 5-12 ára í einum stærsta skóla Indlands, City Montessori School, nota enska þýðingu kennsluefnisins í vetur. Að sögn Sunitu Gandhi, framkvæmdastjóra Íslensku menntasamtakanna, standa yfir viðræður við fleiri skóla á Indlandi um að nota efnið við kennslu.

Fimm grunnskólar hér á landi gerðu tilraunir með kennsluefnið í vetur og voru viðbrögðin góð. Nemendur þóttu sýna framfarir en hins vegar var talið að frekari þróunar efnisins væri þörf.

Sunita segir að um sextíu íslenskir grunnskólar hafi lýst yfir áhuga á að taka námsefnið upp þegar þróun þess er komin lengra á veg en á vetri komanda verður námsefnið notað í tíu grunnskólum.

Kennsluefnið er byggt upp með öðrum hætti en vanalegt er en notast er við marga litla bæklinga í stað einnar bókar. Í upphafi annar er próf lagt fyrir nemendur með sýnidæmum úr því námsefni sem kennt verður um önnina og sýnir einkunnin úr því prófi hvaða hluta námsefnisins nemandinn kann vel og hvaða hluta efnisins hann kann verr og getur nemandinn því einbeitt sér að þeim þáttum námsins. Í lok annarinnar taka nemendur annað próf og sjá þá hve miklum framförum þeir hafa tekið í hverjum þætti námsins.

Ingvar Sigurjónsson stærðfræðinemi hefur unnið við gerð námsefnisins undanfarin tvö sumur. Hann segir að í bæklingunum sé lögð áhersla á að setja námsefnið fram á skýran hátt og útskýra það með sem fjölbreyttustum hætti fyrir nemendur. "Það má útskýra stærðfræði með ýmsum hætti, t.d. með því að gera hana áþreifanlega og nota hluti við kennslu," segir Ingvar.

Bæta efnið frá síðasta ári

Anna Hera Björnsdóttir stærðfræðinemi vinnur einnig að gerð námsefnisins.

Hún segir að stærstur hluti vinnunnar fari í að bæta við efnið frá því í fyrra, bæði eftir ábendingum frá kennurum sem notuðu bæklingana í vetur og einnig út frá námskrá grunnskólanna og því námsefni sem prófað er úr á samræmdum prófum en ÍMS ætla sér fimm ár til að fullþróa kennsluefnið.

Sunita Ghandi segir að markmiðið með hinu nýja námsefni sé að gera námið einstaklingsbundnara, þannig að áherslan sé ekki lögð á eina kennslubók sem allur bekkurinn fari í gegnum á sama tíma, heldur veita þeim tækifæri til að læra eftir eigin áhugasviði. "Við viljum líta á hvern einstakling sérstaklega og hvetja hvern og einn til framfara."