ÁKVEÐIÐ hefur verið að endurtaka söguferð um slóðir Ólafíu Jóhannsdóttur á morgun, laugardag, en ferðasöguna skrifar Guðrún Ásmundsdóttir leikkona með meiru. Lagt verður af stað kl. 10 í fyrramálið, frá Sundahöfn, og farið á slóðir Ólafíu í Viðey, að Mosfelli og í Árbæ. "Þetta gekk svo vel síðast að við ákváðum að prófa þetta aftur," útskýrir Guðrún, en fyrri ferðin var farin 17. júlí sl.
Sögumenn ferðarinnar eru, auk Guðrúnar, leikararnir Edda Björgvinsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Björgvin Frans Gíslason og ung áhugaleikkona að nafni Rakel Mjöll Leifsdóttir. Rakel leikur Ólafíu á yngri árum en Edda á fullorðinsárum. Guðrún leikstýrir ferðinni.
"Það er út af fyrir sig afskaplega skemmtilegt í þessum íhaldssama leikhúsheimi að ég skuli leika hlutverk sem flokkast sem dramatískt," segir Edda, "það eru ekki margir leikstjórar sem hafa þann kjark að kasta gamanleikkonu í hlutverk þar sem líklegra er að fólk bresti í grát fremur en hlátur."
Edda segir aðspurð að hún sé þó ekki að meina að líf Ólafíu hafi verið ein harm- eða sorgarsaga. Síður en svo. "En allt sem hún gerir getur ekki annað en hrært í tilfinningum fólks. Hún snertir hjarta manns." Edda segir að Ólafía hafi verið einstök ofurkona; með eindæmum greind og mælsk. Þá hafi hún tilheyrt fyrstu kvenréttindakonunum á Íslandi. "Það er ofboðslega gaman að fá að glíma við svona konu," bætir Edda við.
Sinnti gleðikonum í Ósló
Ólafía fæddist á Mosfelli, hinn 22. október 1863. Hún átti sín æskuár í Viðey í skjóli Stephensen-hjónanna eldri. Þá bjó hún um tíma hjá móðursystur sinni Þorbjörgu Sveinsdóttur í Tobbukoti, eins og það var kallað, við Lækjargötu.Ólafía varði hins vegar stórum hluta ævi sinnar í Noregi. Þar sinnti hún m.a. gleðikonum, sem voru margar hverjar við dauðans dyr af völdum sýfilis eða annarra sjúkdóma. Vegna líknarstarfa sinna í Noregi reistu Norðmenn henni minnisvarða; brjóstmynd af Ólafíu, í miðri Óslóarborg.
Ferðin á morgun hefst með siglingu út í Viðey. Þar verða leikin stutt atriði úr lífi Ólafíu í eynni og sagðar sögur. Farið verður í gönguferð og snæddur léttur hádegisverður. Að því loknu er farið í land og keyrt upp að Mosfelli. Eftir sögur og leik þar er haldið á Árbæjarsafn þar sem skoðað er hús sem lítur út eins og Tobbukot.
Gert er ráð fyrir því að ferðinni ljúki um fjögurleytið. Kostar hún 6.500 kr. og er allt innifalið í því. Skráning og nánari upplýsingar eru í síma 551 4715 eða 898 4385.