Sigríður Ellertsdóttir fæddist á Sólmundarhöfða í Innri-Akraneshreppi 26. september 1927. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 28. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Ólafía Guðrún Björnsdóttir frá Rein í Innri-Akraneshreppi, f. 16.6. 1899, d. 1981 og Ellert Jónsson frá Vatnshömrum í Andakíl, f. 18.5. 1903, d. 1985. Sigríður ólst upp hjá foreldrum sínum í Akrakoti í Innri-Akraneshreppi. Systkin hennar, sem upp komust, voru Guðbjörg, f. 1925, d. 1991, búsett á Akranesi og Björn, f. 1929, d. 1984, bóndi í Akrakoti. Uppeldissystir þeirra er Erla Hansdóttir, f. 1938, búsett á Akranesi. Eftir að skólagöngu í heimasveit lauk, stundaði Sigríður nám í Reykholti. Að námi loknu starfaði hún við Garðyrkjuskólann að Reykjum, Ölfusi. Þar kynntist hún mannsefni sínu, Baldri Gunnarssyni, f. 19.9. 1917, d. 11.2. 1985, frá Þverárdal í Bólstaðarhlíðarhreppi. Þau settust að í Hveragerði byggðu upp og ráku í áratugi stóra garðyrkjustöð.
Börn þeirra hjóna eru: 1) Gunnar Ellert, f. 1947, kvæntur Hugrúnu Valdimarsdóttur, f. 1947, börn þeirra eru Aðalheiður, f. 1966, Sigríður Hrönn, f. 1974 og Sif, f. 1979. 2) Árni Rúnar, f. 1949. Börn hans og Jónu Sigríðar Gestsdóttur, f. 1951, eru Gestur, f. 1969, Baldur, f. 1973, Maríanna, f. 1979 og Árni, f. 1987. 3) Gerður, f. 1953. Börn hennar og Jóhannesar Georgssonar, f. 1953, eru Hörður, f. 1976, Lárus, f. 1978 og Baldur, f. 1991. 4) Haukur Steinar, f. 1956. Börn hans og Þórunnar Árnadóttur, f. 1957, eru Ísgeir Aron, f. 1975, Anna Sigríður, f. 1977, og Ellert Þór, f. 1980. Börn hans og Rafnhildar Ívarsdóttur, f. 1958, eru Baldur Ævar, f. 1988 og Haukur Ægir, f. 1989. Dóttir hans og Jóhönnu Bjarkar Benediktsdóttur, f. 1975, er Birta Björt, f. 2000. 5) Óttar Ægir, f. 1960, kvæntur Ingibjörgu Sverrisdóttur, f. 1963, dætur þeirra eru Adda María, f. 1994 og Vilborg, f. 1999. Uppeldisbörn Óttars, börn Ingibjargar, eru Nanna Harðardóttir, f. 1980 og Gunnar Þórbergur Harðarson, f. 1985. 6) Arnviður Ævar, f. 1962, d. 1988.
Árið 1978 brugðu þau búi í Hveragerði og fluttust í Kópavog, þar starfaði Sigríður í allmörg ár hjá prentsmiðjunni Eddu en Baldur hjá Reykjavíkurborg. Þau hjón festu kaup á smábýlinu Hvoli II í Ölfusi, þar dvöldu þau í sumarleyfum og um helgar og undu sér við trjárækt. Eftir að heilsu Sigríðar fór að hraka fluttist hún að Ási í Hveragerði.
Útför Sigríðar fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
Það er orðið langt síðan ég kynntist tengdamóður minni eða um 40 ár. Þá var hún hávaxin, dökkhærð myndarleg kona, sem mér stóð dálítil ógn af, enda var ég ung að árum.
Sigríður var ekki allra en við nánari kynni fann ég fljótt að hún var afskaplega hlý og traust kona. Hagur og velferð fjölskyldunnar og nánustu ættmenna var henni ávallt mikið hjartans mál.
Sigríður var einhver duglegasta og skipulagðasta kona sem ég hef kynnst. Hún stýrði stóru og fjölmennu heimili af miklum skörungsskap og eitthvert lag hafði hún á því að láta sem það væri létt verk. Alltaf hafði hún tíma aflögu til að sinna hugðarefnum sínum.
Tengdaforeldrar mínir höfðu rekið stóra garðyrkjustöð í Hveragerði en 1978 seldu þau allar sínar eigur og fluttu til Kópavogs. Við þessi tímamót fór Sigríður út á vinnumarkaðinn og starfaði lengst af í prentsmiðjunni Eddu. Á síðustu árum varð hún fyrir ýmsum áföllum í lífinu. Í þessum erfiðleikum kom best í ljós hversu sterk og heilsteypt hún var. Hún tókst á við sorgina en hélt síðan óbeygð áfram með æðruleysi og ró.
Ég vil kveðja tengdamóður mína með orðum Guðrúnar Jóhannesdóttur.
Þökk fyrir störf þín, dugnað og dáð og djörfung í orði og verki, nafn þitt mun lengi hjá lýð vera skráð og lifa þitt hugsjóna merki.
Guð blessi minningu þína
Hugrún Valdimarsdóttir.
Nú er Sigga farin frá okkur, og er það mín trú að nú sé hún á góðum stað laus við verki og veikindi. Elsku Sigga var mér góð tengdamamma og börnum mínum yndisleg amma. Blessuð sé minning hennar.
Ingibjörg Sverrisdóttir.
Síðan fluttuð þið afi að Hvoli II í Ölfusi þar sem þú fékkst meiri tíma til að sinna áhugamáli þínu, garðyrkju og bókalestri. Á sumrin varstu alltaf úti í garði að sinna blómunum þínum og dytta að í garðinum. Á Hvoli II voru hesthús þar sem börn og barnabörn voru með hesta sína, því varð heimili ykkar afa eins konar bækistöð fjölskyldunnar og alltaf mikill erill. Fyrst var farið í hesthúsin og svo inn til ömmu í nýbakaðar kökur.
Elsku amma, ég mun minnast þín sem ákveðinnar og viljasterkrar konu sem mætti áföllum lífsins með reisn og áræðni. Ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér með návist þinni.
Hvíldu í friði og megi Guð varðveita þig.
Aðalheiður Gunnarsdóttir.
Það koma ótal minningar fram í hugann sem gott er að ylja sér við nú þegar þú ert farin. Þú varst ákveðin kona með þínar ákveðnu skoðanir, gast gert að gamni þínu um alvarleg málefni og séð spaugilegu hliðarnar á tilverunni. Það mátti aldrei hafa neitt fyrir þér, þó að mig hafi ekki langað neitt frekar en að aðstoða þig eftir allt sem þú hefur gefið mér. Þú varst alltaf fasti punkturinn í tilverunni, hvattir mig áfram í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Þegar ég var að fara norður núna í byrjun sumars hafði ég á tilfinningunni að ég væri að kveðja þig í síðasta sinn. Ég geymi í minni þau fallegu orð sem þú sagðir við mig þegar við vorum að kveðjast. Það sem mér finnst erfiðast er að ófædd börn mín fá aldrei að kynnast þeirri stórkostlegu manneskju sem þú hafðir að geyma. En eftir standa fallegar og góðar minningar um bestu ömmu sem hægt er að hugsa sér. Þú varst ekta amma eins og hægt er að lesa um í ævintýrunum. Takk fyrir allt. Hvíldu í friði, elsku amma, ég veit það verður tekið vel á móti þér.
Þín sonardóttir og nafna,
Sigríður Hrönn
Gunnarsdóttir.
Á kveðjustund vakna margar minningar og veita þær ró í hjarta. Ég man allar stundirnar á Hvoli II þegar við gengum um garðinn ykkar sem þið afi ræktuðuð af alúð. Ég, Maríanna og hin frændsystkinin dvöldum hjá þér löngum stundum og borðuðum gúrkur og rabarbara með sykri, á meðan fullorðna fólkið reið út.
Eins vil ég þakka þér fyrir allar stundirnar sem við áttum saman þegar þú dvaldist á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði þar sem þú talaðir alltaf við mig sem jafningja og sýndir öllum þeim flugum sem ég fékk í höfuðið hverju sinni svo mikinn áhuga. Elsku amma.
Hin langa þraut er liðin, nú loksins hlauztu friðinn, og allt er orðið rótt, nú sæll er sigur unninn, og sólin björt upp runnin á bak við dimma dauðans nótt.
(Valdimar Briem.)
Hvíl í friði.
Sif Gunnarsdóttir.
Það fannst okkur svo gaman. Einnig fórum við í strætó niður að tjörn, að gefa fuglunum brauð. Oft var svo endað á kaffihúsi með kakóbolla og köku. Svo fórum við í eitt sinn með rútu í Þórsmörk og margt fleira gerðum við skemmtilegt, en svo varðst þú veik og sjónin minnkaði. Þá komst þú til okkar í Hveragerði og fluttir á Ás.
Þá labbaði ég oft til þín og fékk alltaf nokkra sælgætismola úr boxinu þínu, sem þú fylltir alltaf á reglulega. Mér finnst ég vera svo heppin að hafa haft þig þennan tíma hjá mér.
Ástarkveðja
Adda María.
Margir eiga sér uppáhaldsfrænku, einhvern sem þeir líta upp til og þykir einstaklega vænt um, þannig frænka varst þú mér. Fyrstu minningarnar eru heimsóknirnar í Hveragerði en þær voru alltaf jafn spennandi. Þú með þitt stóra heimili og gróðurhúsin allt í kring. Þetta var sannkallaður herragarður. Þar var sko líf og fjör hjá þinni stóru fjölskyldu. Árin liðu og alltaf varst þú mér jafn kær og ég dáðist af dugnaði þínum. Alltaf barst þú þig jafn vel, þrátt fyrir heilsuleysi og þá erfiðleika sem að þér stóðu. Þú varst af þessari kynslóð sem kann ekki að kvarta og hugsar bara um aðra. Þér var meira í mun að fá að vita hvernig við hefðum það. Þú reyndist mér og minni fjölskyldu einstaklega vel og fyrir það er ég ævinlega þakklát. Þó að þú sért farin frá okkur lifir minning þín í hjarta mínu. Þú skilur eftir þig stóran og myndarlegan afkomendahóp sem ég sendi innilegar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning þín. Þín frænka,
Ólafía (Lóa).
Brátt líður lífs á daginn,
mín lífssól dregst í æginn,
er varir mig þess minnst.
Dagsmörkin eg veit eigi.
Mun eigi halla degi
og komið nærri kvöldið hinst?
Þú, Drottinn, tíma telur
og takmörk hverjum velur,
nær lokið lífs er tíð.
Á mér þinn verði vilji,
en veit ég læri' og skilji,
hve verða má mín burtför blíð.
Æ, kom, svo frið þinn fái' eg,
minn frelsari', án þín má eg
ei líta ljósan dag.
Ó, Herra, hjá mér vertu,
í hjarta mínu sértu,
og svo lát koma sólarlag.
(Stefán Thorarensen.)
Í dag kveðjum við fyrrverandi tengdamóður mína Sigríði Ellertsdóttur og vil ég með örfáum orðum þakka henni samfylgdina í gegnum árin.
Ég man þegar ég kom inn á heimili hennar í fyrsta skiptið 17 ára gömul og var kynnt fyrir henni sem tilvonandi tengdadóttir, hvað hún tók mér vel, en hafði orð á því hversu ung ég væri.
Ég man að ég var nú ekki alveg sammála henni þá, ég sem var að mínu mati orðin fullorðin.
Sigríður var myndarleg kona og bar heimili hennar þess merki.
Það var auðséð á öllu að Sigríður mat heimili sitt, eiginmann og börn sín mikils og vildi gera það besta fyrir þau.
Hún var húsmóðir í orðsins fyllstu merkingu, þvílíkur myndarskapur alls staðar og í öllu.
Ég ætla ekki að rekja lífshlaup Sigríðar hér, ég veit að það gera aðrir betur. En vil enn og aftur þakka henni allt sem hún hefur gert fyrir mig og mína.
Elsku Sigga, guð geymi þig.
Jóna Sigríður Gestsdóttir.