Guðmundur Magnússon fæddist á Hjartarstöðum í Eiðaþinghá 6. desember 1922. Hann andaðist á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum 13. júlí síðastliðinn og fór útför hans fram frá Egilsstaðakirkju 20. júlí.

Við kveðjum í dag sannan Héraðshöfðingja með stórum staf og framúrskarandi ábyrgan félagsmálafrömuð sem þjónaði sínu fólki, sínum sveitungum eins hann orðaði það ævinlega í ræðu og riti, með léttri lund en af mikilli festu. Minningarbrotin hrannast fram; við Magnús heitinn Eínarsson vorum ákafir íþróttafíklar. Við vildum íþróttahús, ég var oddviti, Guðmundur sveitarstjóri, Magnús ritari hreppsnefndar.

En til að lægja ákafa okkar og jarðbinda þessa ungu sveitarstjórnarmenn sagði hann við okkur "Strákar, það er sko ekkert mál að byggja eitt íþróttarhús, en að reka það er rosalega dýrt". Þessi setning lýsir að mínu mati best þeirri fyrirhyggju og festu sem hann sýndi sem stjórnandi sveitarfélags í örum vexti allan sinn langa starfsaldur. Egilsstaðahreppur var öll þau ár lágtekjusveitarfélag á landsvísu en samt voru fjármálin í betra lagi en víðast var, líka á landsvísu. Því fengum við íþróttahús, að vísu bara hálft í byrjun og sundlaugarlaust. Uppbyggingin var gífurleg á þessum árum, íbúatala á stjórnarárum Guðmundar þrefaldaðist. Við náðum okkur líka í Menntaskóla og hitaveitu þótt ekki ætti að finnast heitt vatn á Austurlandi, já og byggðum glæsilegt kirkjuhús sem hreppurinn greiddi að fullu. Einstakt á Íslandi. Allt sem gaf mikinn grunn til framtíðar var smíðað og framreitt. Svo það var í mörg horn að líta hjá Borgarstjóra Egilsstaða eins og ég nefndi hann ævinlega á 12 ára samferð í hreppsnefnd. Í svokallaðri pólutík komum við að máli úr tveim áttum en gleymdum því strax. Helgi heitinn Gíslason, oddviti Fellamanna, kom úr þriðju átt.

Í síðbúnum minningarorðum um Helga vin minn kemur fram að frændi hans Gísli fréttamaður segi í minningargreininni sem ég las eftir hann að Helgi hafi verið mestur sósíalista á Héraði þótt sjálfstæðismaður væri. Þetta er rétt sagði ég í minni, en ég hélt að ég ætti einn þetta leyndarmál þeirra vina Helga og Sveins stórbónda Egilsstaða. Ég verð hinsvegar að segja frá því að ég sósíalistinn er stoltur af að hafa kynnst og unnið með þessum tveim héraðshöfðingjum sem áttu sínar rætur á hinu fagra Fljótsdalshéraði og unnu því meir en nokkrum "ismum". En nú þegar ég kveð þriðja héraðshöfðingjann, verð ég að kveða upp sama dóm og setja Guðmund á stall þeirra félaga.

Framþróun atvinnu og félagslegra mála til hagsbóta fyrir íbúa Fljótsdalshéraðs til allrar framtíðar var sameiginlegur "ismi" þeirra. Stórframkvæmdir dagsins í dag eru eðli málsins samkvæmt rökrétt framhald af festu og hugrekki þessara manna.

Já, stundum koma inn á leiksvið lífs sérhvers manns menn, sem breyta stundinni í gimstein minninganna. Takk.

Eiginkonu Guðmundar, börnum þeirra og öllum aðstandendum sendi ég hugheilar samúðarkveðjur og bið góðan Guð að blessa minningu Guðmundar Magnússonar.

Erling Garðar Jónasson.

Guðmundur Magnússon, fyrrverandi sveitarstjóri á Egilsstöðum, hefur kvatt. Með honum er genginn mætur og góður maður sem lætur eftir sig góðar minningar.

Við vorum sveitungar í Eiðaþinghá og síðar á Egilsstöðum. Kynni okkar spanna rúma hálfa öld. Sem nemandi á Eiðum var hann heimilisvinur á heimili foreldra minna eins og reyndar öll systkinin frá Hjartarstöðum.

Guðmundur var næstyngstur sex systkina, sem misstu föður sinn þegar hann var á fjórða ári.

Kynni okkar hófust þegar ég var á barnsaldri. Sérstaklega man ég eftir hvað gott var að leita til hans með reiðhjólaviðgerðir. Guðmundur vann um tíma við að byggja mötuneytishúsið á Eiðum laust fyrir 1950. Þar var mikið um naglaspýtur sem ekki fóru vel með dekkin. Síðar var ég handlangari hjá honum í múrverki við barnaskólann á Eiðum og víðar. Á námsárum mínum rofnuðu tengslin um tíma.

Guðmundur og Dísa voru meðal frumbyggja hér á Egilsstöðum. Húsið þeirra við Laufásinn var eitt af fyrstu húsunum sem risu í þorpinu. Hér var hann allt í öllu í nærfellt fjóra áratugi. Hann var einn fyrsti barnakennarinn, einn af stofnendum Brúnáss hf. og fleiri fyrirtækja hér á Egilsstöðum. Í sex kjörtímabil var hann í sveitarstjórn og gegndi störfum oddvita og sveitarstjóra í tvo áratugi. Á þessum árum óx þorpið hratt og í mörg horn var að líta. Ég átti því láni að fagna að vinna með honum bæði á sviði verklegra framkvæmda og sveitarstjórnarmála. Við blönduðum hér olíumöl til þess að leggja á götur í byrjun áttunda áratugarins, unnum saman að gerð Hitaveitunnar þar sem Guðmundur var einn af forvígismönnunum ásamt þeim Erling Garðari og Helga Gíslasyni.

Í öllum sínum störfum var Guðmundur sérlega hagsýnn og úrræðagóður. Mér fannst eins og Guðmundur væri eins konar lærifaðir allra sveitarstjórnarmanna á Austurlandi og ókrýndur foringi þeirra. Hann þekkti lagaumhverfið, reglugerðafarganið og alla lykilmenn í stjórnsýslunni og var hjápsamur þeim sem til hans leituðu. Margur nýráðinn bæjarstjórinn sótti til hans fræðslu og leiðbeiningar, sem góðfúslega voru veittar af vinsemd og föðurlegri umhyggju.

Eflaust hefur föðurmissir í bernsku ráðið miklu um þá ráðdeildarsemi og ábyrgðartilfinningu sem hann sýndi í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Þrátt fyrir mikil verkefni og öran vöxt sveitarfélagsins var fjárhagurinn ávallt traustur. Sama átti við um Hitaveituna þar sem Guðmundur var stjórnarformaður. Hagkvæman rekstur og traustan fjárhag sveitarfélagsins mátti að miklu leyti þakka útsjónarsemi og ráðdeild sveitarstjórans.

Guðmundur var maður sátta á hverju sem gekk. Ég minnist þess frá sveitarstjórnarárunum að þegar kom að erfiðum málum þar sem sitt sýndist hverjum í fyrstu, þá var það svo undarlegt að eftir smástund urðu allir gjarnan sammála. Guðmundi tókst einhvern veginn án þess að nokkur tæki eftir að leiða fram rök og gagnrök á þann hátt að deilumálin gufuðu upp.

Það var þéttbýlinu á Egilsstöðum og raunar Héraðinu öllu mikil gæfa að fá að njóta starfskrafta Guðmundar á miklu uppbyggingar- og mótunarskeiði.

Að leiðarlokum sendum við hjónin Aðaldísi, börnum þeirra Guðmundar og öðrum ástvinum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Guðmundar Magnússonar.

Sveinn Þórarinsson.

Guðmundur Magnússon var einn af frumherjunum sem byggðu upp þéttbýlið á Egilsstöðum. Við lát hans hrannast minningarnar upp. Minningar um góðan nágrannna og samferðamann og farsælan forustumann fyrir byggðarlagið. Hann byrjaði sem barnakennari, en var fljótt kallaður til forustu í sveitarstjórn, og gegndi störfum sveitarstjóra í Egilsstaðahreppi um árabil.

Þau ár sem Guðmundur var sveitarstjóri voru uppgangsár á Egilsstöðum. Það fjölgaði stöðugt ár frá ári, og það þurfti að byggja upp frá grunni ýmsa þjónustu í byggðarlaginu, auk þess sem byggðarlagið styrkti stöðu sína á þessum árum sem þjónustumiðstöð á fjórðungsvísu. Það hefði verið auðvelt fyrir sveitarstjórann að misstíga sig í þessum slag, en Guðmundur var einstaklega farsæll, rólegur en fastur fyrir og hafði alls staðar traust. Sveitungarnir treystu honum, hann naut trausts stjórnkerfisins og sveitarstjórnarmennirnir sem stýrðu nágranna-sveitarfélögunum báru til hans traust. Hann hafði virðingu allra.

Guðmundur var einn af forustumönnum Framsóknarflokkksins í sveitarstjórnarmálum, en lengi vel var það svo að enginn formlegur meirihluti starfaði í sveitarfélaginu, þrátt fyrir pólitískar kosningar. Slíkt var traustið á milli manna.

Það voru mörg járn í eldinum í ungu byggðarlagi á þeim árum sem Guðmundur Magnússon var sveitarstjóri. Eitt af því var að leita að heitu vatni fyrir byggðarlagið á þeim árum sem menn stóðu í þeirri trú að Austurland væri "kaldur" landshluti. Það þurfti úthald og þrjósku til þess að gefast ekki upp við þá leit. Hún endaði með þeim glæsilega hætti að heitt vatn fannst og Hitaveita Egilsstaða og Fella varð að veruleika til ómældra hagsbóta fyrir þessi byggðarlög. Sveitarstjórnir þessara byggðarlaga höfðu órofa samstöðu í þessu máli.

Það er margt að þakka þegar litið er yfir farinn veg. Við Margrét og fjölskylda okkar þökkum Guðmundi Magnússyni samfylgdina. Ég þakka honum órofa stuðning við Framsóknarflokkinn og okkur þingmenn hans á Austurlandi. Þar áttum við ætíð hauk í horni.

Með Guðmundi er horfinn forustumaður sem markaði djúp spor í sögu Egilsstaðakauptúns. Hann var maður þeirrar gerðar að þrátt fyrir uppgang byggðarlagsins lifði hann í friði og vináttu við nágranna sína. Hann gekk í verkefni dagsins af sanngirni og festu.

Hann var gæfumaður í einkalífi sínu, átti stóra fjölskyldu og samhenta og hann var mikill fjölskyldumaður. Missir þeirra er mestur og við Margrét og fjölskylda okkar vottum þeim dýpstu samúð.

Jón Kristjánsson.

Margt skapast á mannsævi. Árið 1972 flutti ég austur í Egilsstaði og gerðist þar skólastjóri um sinn. Guðmundur Magnússon tók á móti mér, hæglátur maður og hlýlegur. Hann hafði þá nýlega látið af kennarastarfi á Egilsstöðum og tekið alfarið við rekstri sveitarfélagsins sem oddviti þess og síðar sveitarstjóri.

Mér varð strax ljóst að þar fór maður sem hægt var að treysta. Hann þekkti vel til skólamála á Héraði og það átti eftir að koma í ljós að hann hafði mjög jákvæð viðhorf til skólamála almennt og góðan skilning á þeim málaflokki.

Samstarf okkar Guðmundar um rekstur skólamála á Egilsstöðum átti eftir að verða náið og farsælt eða allar götur til þess tíma að hann lét af starfi sveitarstjóra 1985. Það varð strax að ráði milli okkar Guðmundar að ég sæi alfarið um fjárhagslegan rekstur skólastarfsins, annaðist bókhald og skilaði yfirliti og frumriti reikninga mánaðarlega inn í bókhald sveitarfélagsins - en sveitarstjóri ábyrgðist aftur á móti að greiða mánaðarlega inn á rekstrarreikning skólans skv. samþykktri fjárhagsáætlun skólans sem skólastjóri legði árlega fyrir sveitarstjórn. Því nefni ég þetta hér að nú, 32 árum síðar, þykir slíkt fyrirkomulag sérstaklega merkilegt og framúrstefnulegt og kallað nöfnum eins og fjárhagslegt sjálfstæði skóla. Jafnframt þessu fór Guðmundur þess á leit við mig að ég gerðist starfsmaður skólanefndar, undirbyggi fundi í samráði við formann og framkvæmdi síðan samþykktir nefndarinnar eftir því sem við átti. Þetta sýnir jákvæð viðhorf Guðmundar til skólarekstrar og stjórnkænsku hans.

Ég þakka Guðmundi Magnússyni fyrir samfylgdina. Lífið hefði orðið öðru vísi án hans. Margt skapast á mannsævi. Við Elísabet sendum ástvinum Guðmundar samúðarkveðjur.

Ólafur Guðmundsson,

fyrrverandi skólastjóri

á Egilsstöðum.