Eiríkur Jónsson fæddist í Reykjavík 3. ágúst 1923. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 29. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jón Eiríksson múrarameistari, f. 6.7. 1885, d. 7.5. 1970, og Kristín Jónsdóttir húsmóðir, f. 4.9. 1879, d. 1.9. 1969. Eiríkur var yngstur fimm systkina. Systur Eiríks eru Elín (látin), Guðrún, Aðalheiður og Sigurlaug.

Eiríkur kvæntist 24.12. 1944 Sjöfn Jónsdóttur, f. 10.7. 1925. Foreldrar hennar voru Jón Guðnason, f. 6.6. 1890, d. 6.6. 1939, og Maren Jónsdóttir, f. 7.5. 1901, d. 11.12. 1996. Börn þeirra eru sex: 1) Jón, kvæntur Ragnhildi K. Sandholt. Börn þeirra eru: a) Eiríkur, maki Ásthildur Björnsdóttir, börn þeirra Ríkharður Aron og Rebekka Rut, b) Íris, maki Einar Sigurðsson, börn þeirra Elmar og Rakel, og c) Atli Már, sambýliskona Lilja Dagbjartsdóttir. 2) Yngvi, kvæntur Herdísi Guðmundsdóttur. Börn þeirra eru a) Arnór, b) Grettir, c) Sjöfn, sambýlismaður Einar Egill Halldórsson, og d) Eiríkur. 3) Auður, gift Ómari Runólfssyni. Börn þeirra eru a) Una Björk, b) Ásdís, maki Kristján Birgisson, börn þeirra Ólöf Svala og Sunna Kristín, c) Hlynur, sambýliskona Erna Sif Arnardóttir, d) Lilja, maki Svanur Þór Brandsson, börn þeirra Lóa Sjöfn og Smári Þór, og e) Kristín. 4) Garðar, kvæntur Önnu Vilhjálmsdóttur. Börn þeirra eru a) Þorsteinn Ingi, maki Hrafnhildur Sif Hrafnsdóttir, börn þeirra Ingvar Hrafn og Elfar Ingi, b) Sveinn Óli og c) Stefanía Ósk. 5) Kristinn, kvæntur Birnu Ragnarsdóttur. Börn þeirra eru a) Aðalheiður, maki Starkaður Örn Arnarson, og b) Haukur. 6) Sjöfn, gift Thor Smitt-Amundsen.

Eiríkur Jónsson var fæddur og uppalinn í Reykjavík og bjó þar alla tíð. Hann lauk námi í múrsmíði 1945 og starfaði í fyrstu hjá föður sínum Jóni Eiríkssyni múrarameistara, en 1965 fékk hann réttindi sem múrarameistari og stundaði eftir það sjálfstæða múrvinnu og byggingastarfsemi í Reykjavík og nágrannabyggðum allt þar til hann lét af störfum árið 1994. Eiríkur átti þátt í byggingu margra opinberra bygginga, skóla og kirkna, auk fjölda íbúðar- og atvinnuhúsa á starfsævi sinni.

Útför Eiríks verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Fimmtudagur 29. júlí. Stutta stund greiðast regnskýin sundur og sólin stafar geislum sínum þegar Eiríkur Jónsson múrarameistari kveður þennan heim eftir stutt en erfið veikindi. Síðan má segja að himnarnir hafi grátið. Einstakur heiðursmaður hefur horfið á braut til annarrar víddar.

Eiríkur fæddist og ólst upp hjá foreldrum sínum í Þingholtunum í Reykjavík. Í æsku dvaldist hann á sumrin í sveit hjá frændfólki sínu austur í Mjósundi í Flóa við almenn sveitastörf. Var honum alla tíð hlýtt til þeirra og veru sinnar þar.

Hann lærði ungur múrsmíði af föður sínum og aflaði sér síðan réttinda sem múrarameistari og starfaði sem slíkur fram til ársins 1994. Alla tíð var hann eftirsóttur til verka og marga nema í múrsmíði tók hann að sér á starfsævi sinni og útskrifaði þá með sveinsréttindi. Þrátt fyrir mikil umsvif leit hann aldrei svo á að hann væri yfir það hafinn að standa við hlið starfsmanna sinna og oftar en ekki var hann fyrstur manna til verka og síðastur manna út. Eiríkur var viðurkenndur sem sérstakur fagmaður og hlaut árið 1989 heiðursviðurkenningu frá Steinsteypufélagi Íslands fyrir einstaka fagmennsku í starfi. Eftir hann standa allmargar opinberar byggingar, m.a. nokkrar skólabyggingar og kirkjur auk fjölda atvinnu- og íbúðarhúsa. Má nefna Hús verslunarinnar, Breiðholtsskóla, Verslunarskóla Íslands, Verknámsskóla við Ármúla, Hótel Sögu, Neskirkju, Breiðholtskirkju, hús Íslandsbanka við Kirkjusand og frystihús Granda við Reykjavíkurhöfn, svo fátt eitt sé nefnt. Með stærri verkum hans voru nýbyggingar fyrir Áburðarverksmiðju ríkisins og Eimskipafélag Íslands, m.a. vöruhúsin Faxaskáli og Sundaskáli, auk nýrri hluta Eimskipafélagshússins við Pósthússtræti. Einnig reisti hann allar byggingar Iðngarða við Skeifuna í Reykjavík.

Í starfi sínu vann Eiríkur með mörgum valinkunnum byggingameisturum. Að öðrum ólöstuðum leyfum við okkur að nefna nafn Kristins Sveinssonar. Í rúma þrjá áratugi áttu þeir afar farsælt samstarf svo aldrei bar skugga á. Aðeins einu sinni var hann beðinn að gera tilboð í þau verk sem hann tók að sér, annars voru verkin unnin samkvæmt reikningi, sem lýsir vel því trausti sem hann naut í starfi sínu. Færri fengu notið verka hans en vildu, sem segir meira en mörg orð.

Eirikur var glaðlyndur, glettinn og góður fjölskyldumaður. Sérstakt prúðmenni sem lét fjölskyldu sína ávallt ganga fyrir. Hann var sérlega barngóður, hjálpsamur og umhyggjusamur um sitt fólk, en eltist lítt við veraldleg gæði. Veiðiferðir, útivera og ferðalög innanlands sem utan voru honum mikið ánægjuefni ef tími gafst frá önnum. Árið 1945 byggði hann fjölskyldu sinni heimili á Langholtsvegi 40 í Reykjavík og er fjölskyldan gjarnan kennd við þann stað enn í dag. Var heimilið stórt og gestkvæmt, börnin sex og barnabörnin bættust í hópinn og síðar meir barnabarnabörnin. Alltaf var pláss fyrir alla og allir velkomnir. Nú seinni árin hafa Eiríkur og Sjöfn búið í Grafarvogi, fyrst í Hverafold 140 og síðan í Rauðhömrum 12.

Fyrir um tíu árum veiktist hann alvarlega, en með nútíma læknavísindum komst hann til góðrar heilsu. Hann nýtti tímann vel með fjölskyldu sinni, jafnt vestur í Kaldalóni eða Noregi, sem í heimsóknum til barna og barnabarna, en Eiríkur hafði góða reglu á heimsóknum til sinna nánustu. "Hó, er einhver heima" mun geymast öllum í minningunni sem hann þekktu. Eiríkur starfaði um langt skeið með Oddfellow-reglunni Þórsteini nr. 5, sem veitti honum mikla ánægju og félagsskap. Jafnframt var félagsstarf eldri borgara í Grafarvogi honum hugleikið og var hann einn stofnenda "Korpúlfa", félags eldri borgara í Grafarvogi, og varaformaður þess frá stofnun. Eiríkur tók einnig virkan þátt í kirkjustarfi eldri borgara í Grafarvogskirkju nú seinni árin, svo segja má að hann hafi sjaldan haft meira að gera en eftir að hann lét af störfum. Genginn er sannur heiðursmaður, fulltrúi hinna gömlu gilda þar sem heiðarleiki og vandað verk voru aðalsmerki. Það hafa verið forréttindi okkar að hafa átt Eirík Jónsson að sem eiginmann, föður og tengdaföður.

Ég kveð þig kæri faðir

með kossi á enni þitt,

þín gæti englar glaðir,

þótt gráti hjarta mitt.

(A.E.)

Sjöfn Jónsdóttir, börn

og tengdabörn.

Elsku afi, nú er komið að kveðjustund. Það er afar sárt að kveðja en við það fæst ekki ráðið.

Frá því að við munum eftir okkur gátum við alltaf reitt okkur á þig. Þú varst gamansamur og virðulegur.

Þú varst okkur góð fyrirmynd og þín verður sárt saknað.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Þakka þér fyrir að hafa verið hluti af lífi okkar og við lofum að gæta ömmu vel fyrir þig.

Haukur og Aðalheiður.

Góður maður er fallinn í valinn, afi okkar Eiríkur Jónsson er látinn eftir stutt en erfið veikindi. Með söknuði kveðjum við systkinin elsku Eika afa. Betri afa gátum við ekki óskað okkur.

Mikið höfum við verið heppin að fá að njóta samvista við afa í allan þennan tíma. Hann var traustur, góðhjartaður, heiðvirður, hjálpsamur og gjafmildur. Hann var hornsteinninn í fjölskyldunni, sá sem alltaf var hægt að leita til þegar eitthvað bjátaði á og bar ávallt hag fjölskyldu sinnar fyrir brjósti. Við erum stolt af að hafa átt hann að sem afa og ótal góðar minningar streyma fram í huga okkar á þessari stundu.

Afi með brjóstsykurspoka eða tópas í vasanum, gaukandi að okkur mola.

Afi að koma úr jólainnkaupum með kassa af mandarínum, eplum, malti og appelsíni.

Afi í dótabúð að velja dót handa barnabörnunum eða langafabörnunum - það fannst honum skemmtilegt.

Afi í sumarbústaðnum - hann og amma óþreytandi að taka okkur barnabörnin með í þessa ævintýraveröld.

Afi á golfvellinum í Öndverðarnesinu - við máttum alveg koma með þótt við kynnum ekkert á kylfurnar.

Afi sem skammaði okkur aldrei þótt við værum óþekk.

Afi sem sagði við ömmu um leið og við komum inn úr dyrunum: "Hvernig er það Dída, ætlarðu að láta krakkana svelta? Er ekki til seríós eða kókópöffs?" Afi að koma heim í hádegismat úr vinnunni, með kaffibrúsann, íklæddur köflóttri skyrtu og lopapeysu með steypuslettum á. Dottandi í stólnum sínum eftir matinn.

Afi alltaf tilbúinn að spila við krakkana eða fara út á róló.

Langafabörnin bregðast mismunandi við. Ólöf Svala saknar langafa og finnst þetta óréttlátt allt saman. Eftir sitja minningar um rólóferðir, spilamennsku, nammi og Andrésblöð. Sunna Kristín skilur ekki alveg hvað er að gerast en hefur ekki viljað sleppa hundinum sem langafi gaf henni þegar hún var lítil. Lóa Sjöfn vill þakka elsku Eika afa fyrir að vera svona góður langafi og fyrir allar ferðirnar á róló, í Kolaportið og í kirkjuna. Hún man ennþá hvað var gaman í áttræðisafmælinu í fyrra þar sem hún fékk að fara á hestbak og það var sungið og dansaður línudans. Smári Þór bara hjalar enda kann hann ekki annað ennþá.

Við erum óendanlega þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum með Eika afa. Hvíl í friði elsku afi.

Þín

Una Björk, Ásdís, Hlynur,

Lilja, Kristín og fjölskyldur.

Við hjónin vorum í sumarbústað okkar við Breiðafjörðinn; sól speglaði víkur, eyjar og voga í fegursta sumarskrúða. Þá hringir sonur okkar með þá harmafregn að frábær félagi og samstarfsmaður um áratugi, Eiríkur Jónsson múrarameistari, sé látinn.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi, 1957, að kynnast Eiríki í samstarfi við húsin nr. 14-24 í Karfavogi í Rvík. Eftir það unnum við saman af heilindum meðan við stóðum í byggingarbransanum. Húsin urðu mörg og sum æði stór. Alltaf fór jafn vel á með okkur. Ég fann að þar fór maður sem hægt var að treysta í smáu sem stóru. Það þurfti enga skriffinnsku í samskiptum okkar. Sögð orð stóðu. Hann var heilindamaður.

Ég minnist hendingar úr kvæðinu um Stjána bláa þegar ég hugsa um störf Eiríks:

Kæmist Stjáni í krappan dans

kostir birtust fullhugans.

Betri þóttu handtök hans

heldur en nokkurs annars manns.

Þegar Eiríkur var í kominn í ham við ótrúlega stórar og vandasamar steypur valdi hann ávallt að vera þar sem erfiðið var mest og gekk oft örþreyttur til náða eftir erfitt en vel heppnað dagsverk. Þegar erindrekar byggingarfulltrúa komu til úttektar á járnum og öðru sem þurfti úttekt sögðu þeir gjarna alveg óþarft að líta á þetta því alltaf væri allt hundrað prósent hjá Eiríki.

Það var álit allra sem þekktu verk hans að tæplega fyndist betri og færari fagmaður í múraraiðn, samfara einstakri ljúfmennsku og háttprýði á allan hátt. Starfsmenn Eiríks mátu hann að verðleikum og lögðu sig fram um að vanda til verka eins og meistarinn sagði fyrir um. Sama gerðu mínir starfsmenn, sem og dáðu mannkosti hans og einstaka hlýju í garð þeirra sem unnið var með.

Við hjónin og börn okkar kveðjum þig hinstu kveðju, þökkum frábær kynni og samstarf. Megir þú uppskera í fyrirheitna landinu í samræmi við það sem sáð var til góðs á lífsgöngunni. Konu þinni og börnum biðjum við styrks í sorginni. Minningin verður þeirra mesta huggun.

Kristinn Sveinsson

frá Sveinsstöðum.

Móðurbróðir minn og mikill vinur, Eiríkur Jónsson múrarameistari, er látinn eftir stutta sjúkdómslegu. Samband okkar Eika, eins og hann var alltaf kallaður, var bæði langt og farsælt. Það byrjaði eiginlega þegar ég fæddist á heimili Eika, hjá afa mínum og ömmu. Eiki var þá sjö ára gamall. Alla tíma síðan höfum við verið eins og samlokur, búsetulega, samvinnulega og félagslega. Við völdum báðir múrsmíði að ævistarfi og unnum saman alla tíð, þar til ég sneri mér að öðrum störfum 1972. Eiki var mikill verkmaður en ekki síst góður fagmaður. Hann fékk fljótt orð á sig fyrir að vera vandvirkur og fyrir það var hann mjög eftirsóttur sem byggingarmeistari. Eftir hann liggja fjölmargar vandasamar stórbyggingar.

Eiki var alltaf tilbúinn að hjálpa öðrum. Hann var hamhleypa í vinnu og hef ég aldrei kynnst öðrum eins vinnuþjarki og hann var.

Ég sagði áðan að við hefðum verið eins og samlokur búsetulega. Við Jóna byrjuðum okkar búskap í kjallaranum hjá Dídu og Eika á Langholtsveginum, vorum þar þangað til við fluttum í okkar eigið hús í smáíbúðahverfinu. Dída og Eiki bjuggu á Langholtsveginum í u.þ.b. fjóra áratugi. Árið 1987 fluttu þau í Grafarvoginn, og á sama tíma vorum við Jóna einnig að hugsa okkur til hreyfings. Var leitað víða þar til okkur áskotnaðist lóð við Hverafold í Grafarvogi, tilviljun ein réð því að þessi lóð var beint fyrir neðan hús Dídu og Eika. Árið 1996 fluttu þau úr Hverafoldinni og keyptu íbúð við Rauðhamra. Árið eftir seldum við Jóna okkar hús og þótt ótrúlegt sé keyptum við íbúð í sama stigagangi og Dída og Eiki.

Það má segja að margt sé skrítið í henni veröld.

Enn á ég eftir að nefna allar þær frábæru ferðir innanlands sem utan, sem við fjögur höfum farið saman. Það yrði alltof langt mál að fara að telja þær allar upp, en eitt er víst að hér var um frábæra ferðafélaga að ræða. Aldrei varð okkur Eika sundurorða, ef eitthvað kom upp á leystum við það í miklu bróðerni. Eiki var líka gull af manni, hallmælti aldrei neinum manni.

Eiki var félagi í Oddfellow-reglunni og stundaði fundi af mikilli samviskusemi. Hann var virkur í stúkustarfinu, og mat mikils og virti kenningar og markmið Oddfellow-reglunnar.

Að lokum viljum við hjónin og fjölskyldur okkar senda þér Dída mín og fjölskyldu þinni okkar innilegustu samúðarkveðjur, um leið og við þökkum allar þær yndislegu samverustundir sem við höfum átt í áratugi.

Guð blessi ykkur öll.

Jóna og Hilmar Guðlaugsson.

Sumum mönnum er það gefið, að geta sagt mikið í fáum orðum en samt svo skýrt að enginn þarf að efast um meininguna. Til þess þarf ekki áratuga skólagöngu né magisterspróf heldur skíra hugsun og góða greind. Hógvær viðurkenning sumra getur verið meira virði en hástemmt lof annarra. Þessum kostum og mörgum fleiri var Eiríkur Jónsson búinn í ríkum mæli.

Ef fleiri væru líkari honum, væri heimurinn betri.

Við Benta sendum Sjöfn og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Valgarð Briem

Það er list að stjórna án þess að þeir finni sem hlýða. Eiríkur Jónsson var fyrirliðinn okkar í Rauðhömrum 12. Framtakssamur, metnaðarfullur, vandvirkur og nærgætinn.

Eiríkur var diplómat af Guðs náð - og gull af manni. Hann var gæfumaður í einkalífi; átti frábæra eiginkonu og glæsilegan niðjahóp.

Það er gott fyrir sálina að kynnast vel gerðu fólki. Við nutum þess sem kynntumst Eiríki.

Blessuð sé minning hans. Við færum eiginkonu og öðrum ástvinum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Dagný og Ragnar.

Vinur okkar Eiríkur er látinn.

Við nágrannar hans söknum hans.

Í nánast daglegri umgengni var gott að umgangast Eirík, hann var ljúfur maður, glettinn og hafði afar fallegt bros.

Eiríkur var vinnusamur maður og úrræðagóður, sama hvort var um utanhússverk að ræða eða innanhúss, enda fagmaður mikill. Hann sinnti húsfélagsmálum þegar við fluttum að Rauðhömrum og var mikið umhugað um að allt væri í góðu lagi. Það var gaman að spjalla við hann um lífið og tilveruna.

Við þökkum honum fyrir samverustundirnar og vottum Sjöfn, börnum og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúð.

Hvíl þú í friði kæri vinur.

Kveðja

Elín, Vilhjálmur og Andrea.