Ágúst Guðjónsson fæddist í Eystra-Fíflholti í V-Landeyjum í Rangárvallasýslu 2. ágúst 1923. Hann lést 28. júlí síðastliðinn og var jarðsunginn frá Kópavogskirkju 5. ágúst.

Ágúst Guðjónsson (Gústi) kom mjög ungur að Önundarstöðum í Austur-Landeyjum. Kristjana móðir hans réð sig þar í kaupavinnu og hafði hann með sér. Upp úr þeim kynnum þróuðust málin svo að Gústi var þar til frambúðar og kom alkominn að Önundarstöðum 11 ára. Ársæll Ísleifsson og Anna Þórðardóttir, sem þar bjuggu, voru um það leyti að bregða búi en Þórður Ársælsson og Helga Káradóttir að taka við. Það má því segja að afi minn og amma hafi verið fósturforeldrar Gústa er hann var í bernsku en faðir minn og móðir síðar uppeldisforeldrar hans á unglingsárum.

Lífsglaður ungur drengur kom eins og sólargeisli inn á heimilið og var strax hvers manns hugljúfi. Hjá Önnu ömmu lærði hann bænavers og reglur kristilegra lífsgilda, sama veganestið og hún gaf mér 20 árum seinna, við Gústi vorum því uppeldislega tengdir á þennan hátt. Í uppvexti mínum heyrðist nafn Gústa oft á vörum foreldra minna og Önnu ömmu, og jafnan í þeirri merkingu þegar góðs manns er getið. Ársæl afa minn man ég ekki en Gústi minntist hans jafnan með hlýju.

Þrátt fyrir að Gústi flytti úr umsjá móður sinnar var hann henni alltaf sonur. Gaf hann elstu dóttur sinni nafnið Anna Kristjana og heitir hún í höfuð þeirra tveggja kvenna sem reyndust honum best í bernsku. Kristjana giftist seinna Jóni Gunnarssyni og bjuggu þau í Skipagerði í Vestur-Landeyjum. Fyrir átti þá Kristjana auk Ágústar eldri son, Ársæl Eiríksson. Með Jóni eignaðist hún þrjú börn, Óskar, Ingunni og Friðrik. Öll systkini Gústa lifa hann nema Úlfar.

Rúmlega tvítugur hóf Gústi að læra múraraiðn hjá Óskari Kárasyni, múrarameistara í Vestmannaeyjum. Gústi var þá til heimilis hjá Guðjóni föður sínum, konu hans Ingibjörgu Úlfarsdóttir og börnum þeirra Guðlaugu og Úlfari. Að loknu námi fluttist hann aftur upp á land. Gústi var eftirsóttur vinnufélagi, dagfarsgóður dugnaðarforkur. Nokkru eftir að Gústi lauk iðnnámi var hann svo lánsamur að kynnast eftirlifandi eiginkonu sinni Svanhvíti Gissurardóttur, samhent hafa þau fylgst að í gegnum lífið og segja má með sanni að Svana hafi uppfyllt það sem segir í orðskviðum Salómons um að væn kona sé kóróna manns síns. Gústi og Svana bjuggu lengst af í Kópavogi og voru þar meðal fyrstu íbúanna. Þeim fæddust börnin: Anna Kristjana, Gróa Guðbjörg, Gissur Þór og Auður Ágústa. Ólust þau upp við kærleiksríkt og traust fjölskyldulíf sem þau ávaxta nú í fjölskyldum sínum. Barnabörnin eru nú 12 og barnabarnabörnin 8.

Þegar ég, sem skrifa þessar línur, kom í heiminn var Gústi um það bil að yfirgefa æskustöðvarnar. Ég fann fljótt hvað þessi uppkomni bróðir átti sterkar rætur í fjölskyldunni, amma mín unni honum sem kærum syni og á milli Gústa og pabba var einstök vinátta. Þeir áttu margt sameiginlegt, báðir glaðværir og kappsfullir, áhugamenn um íþróttir og hestamennsku. Það hafa því verið mikil viðbrigði fyrir pabba þegar Gústi flutti að heiman. Ég drakk það í mig með móðurmjólkinni að Gústi væri mikill íþróttamaður og ekki var það til að veikja það álit mitt þegar hann, fyrir okkur krakkana, stökk heljarstökk, gekk á höndum og jafnhattaði pabba sem þó var nokkuð þéttur á velli. Eftir þær sýningar var ég strákurinn sannfærður um að Gústi væri mesti íþróttagarpur í heimi og reyndi enginn á heimilinu að spilla þeirri ímynd minni. Það var eftir að foreldrar mínir fluttu að Borg sem Gústi kynntist Svönu en að Borg komu þau oft og tóku þá börnin sín gjarnan með. Í þeim heimsóknum var Gústi fljótur að fara í vinnufötin og hjálpa til við þau verk sem voru í gangi. Með okkur Gústa tókst góð vinátta, hann hlóð og múraði fyrir mig hús og kynntist ég þá enn frekar hvílíkur fagmaður og verkmaður öðlingurinn var.

Eftir að ég flutti til Reykjavíkur heimsótti ég Gústa og Svönu oft og átti með þeim góðar stundir. Gústi var bókhneigður, músíkalskur og átti auðvelt með að gera vísur og ljóð. Hógværð hans kom þó í veg fyrir að listrænir hæfileikar væru áberandi í lífsmunstrinu.

Þegar Gústi hætti störfum var hann enn vel á sig kominn og hitti ég hann oft í sundlaugunum. Gerði hann það þá gjarnan að leik sínum að stilla sund sitt við hlið ungra og góðra sundmanna og fylgdi þeim eftir svo lítið bar á. Lagði hann þá oft að baki eitt til tvö þúsund metra og virtist ekki hafa mikið fyrir þó roskinn væri. Síðustu árin voru Gústa mínum erfið og var eins og hvert heilsufarslegt áfallið elti annað til að leggja þennan kraftmikla öldung að velli. Í þeim aðstæðum var Svana manni sínum ómetanlegur styrkur með umhyggjusemi og skilningi. Þegar sýnt þótti að hverju dró voru móðir og börn ávallt við sjúkrabeðinn og kvaddi hann lífið í faðmi ástríkrar fjölskyldu sinnar.

Eitt af þeim versum sem við Gústi lærðum af ömmu verða mín loka orð.

Verðu mína hagi í heimi

hjartkærasti Jesús minn,

varartekt þín góð mig geymi

greiðandi mér lífsveginn.

Í hönd þína öndu mína

eg fel herra Jesú minn.

(Höf. óþ.)

Ég og systkini mín minnumst vinar með þökk og virðingu og biðjum fjölmennum aðstandendahópi hins látna Guðs friðar.

Ársæll Þórðarson.

Elsku afi minn, mig langar að kveðja þig með nokkrum orðum.

Þú varst svo yndislegur og traustur afi. Alltaf var jafn gott að hitta þig því þú varst svo hlýr og blíður og sýndir það svo oft þegar þú tókst þétt í hendina á mér þegar við spjölluðum saman og aldrei kvaddir þú mig án þess að biðja guð um að geyma mig.

Ég gleymi því ekki þegar þú kenndir mér að synda, það var ekki bara hvað ég náði góðum tökum á sundinu þú varst svo ánægður með mig að þú sagðir í gríni að ég ætti bara að hætta í dansi og fara að æfa sund. Þetta er lýsandi dæmi hversu jákvæður og hvetjandi þú varst. Ekki var slæmt að fá hrós frá afa gamla þegar kom að fötum því hann var mikill smekkmaður og hafði gaman af því að klæðast fallegum og vönduðum fötum.

Elsku afi, mér finnst viðeigandi að kveðja þig með sálmi sem þú kenndir mér og vil ég að lokum þakka fyrir að hafa kynnst þér því þú varst svo yndislegur afi.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Guð geymi þig,

Svanhvít.

Elsku besti, fallegi afi minn.

Nú ertu farinn, laus úr viðjum líkamlegra þjáninga og kominn til ríkis Hans, sem þú trúðir svo staðfastlega á. Hjá okkur tekur við söknuður eftir þér en jafnframt gleði yfir að þú ert kominn í Paradís.

Þegar ég hugsa til baka sé ég þig fyrir mér syndandi eða hjólandi, hreystin uppmáluð.

Sem barn fórstu með mig oft og iðulega á skauta og þau voru ófá jólin sem ég fékk nýtt skautapar í jólagjöf frá þér og ömmu.

Þú kallaðir mig: "Jambinn minn" eða "Túturinn minn" og gerðir fram á síðasta dag.

Að alast upp fyrstu árin hjá ykkur hefur gefið mér það að mér hefur alla tíð fundist þið meira en afi minn og amma og hefur mér fundist ég ríkari fyrir vikið. Að sama skapi hefur mér fundist þið líta á mig sem ykkar eigin dóttur. Þau eru ófá skiptin sem þú sagðir við mig: "Hún mamma þín..." um ömmu og það sama hefur hent hjá ömmu, þegar hún hefur sagt: "Hann pabbi þinn..." um þig.

Við áttum það sameiginlegt að vera miklir dýravinir og gátum unað okkur löngum stundum við að tala saman um þau og þá sér í lagi um hestana, þar sem maður kom ekki að tómum kofunum hjá þér.

Þú varst mikið hrifinn af strákunum mínum, last fyrir Hilmi Hrafn þegar hann var yngri og þú og Lýður náðuð sambandi hvor við annan í stríðninni. Svo fæddist okkur lítil prinsessa, hún Arna, í byrjun júlí. Þið tvö náðuð að hittast áður en þú kvaddir og ég greindi stolt í augum þínum yfir þessu litla kraftaverki.

Það eru forréttindi að hafa fengið að alast upp undir þínum verndarvæng. Hefði ég ekki átt uppruna minn hjá þér ætti ég ekki börnin mín yndisleg í dag.

Ég þakka þér samfylgdina og þau gildi, sem þú kenndir mér, sem munu fylgja mér og mínum áfram.

Ég ber kveðju frá Sveini Arnari, Hilmi Hrafni, Lýð, Örnu og Þorgrími Magna og óska þér góðrar dvalar í Paradís.

Hrefna Kap.