Magnús Jónsson fæddist á Gjögri í Strandasýslu 25. október 1920. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 30. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Benonía Bjarnveig Friðriksdóttir, f. 3.6. 1897, d. 10.4. 1976, og Jón Magnússon, f. 11.12. 1886, d. 5.6. 1946. Magnús var annar í röð tólf systkina: Fjóla, Magnús sem hér er minnst, Ingimar, Guðbjörn, Margrét, Lilja, Kristín, Guðrún, Gísli, Guðríður, Ingibjörg og Guðmundur Þ.

Hinn 1. des. 1944 kvæntist Magnús Önnu Lilju Gísladóttur frá Hóli í Ólafsfirði, f. 5.10. 1920. Foreldrar hennar voru hjónin Kristín Helga Sigurðardóttir, f. 6.6. 1897, d. 10.9. 1986, og Gísli Gíslason, f. 5.12. 1897, d. 26.3. 1981. Dætur Magnúsar og Önnu Lilju eru: 1) Ingibjörg, f. 14.3. 1947, maki Lárus Ólafur Lárusson, f. 27.5. 1947, þau eiga þrjú börn a) Anna Lilja, maki Eðvarð Þór Eðvarðsson, þau eiga þrjú börn, b) Guðni, í sambúð með Huldu Rósu Stefánsdóttur, þau eiga eina dóttur og c) Gísli, í sambúð með Jónu Hrefnu Bergsteinsdóttur. 2) Kristín Gíslína, f. 28.8. 1950, maki Eyjólfur Garðarsson, f. 22.2. 1949, þau eiga þrjú börn, a) Magnús, maki Kristín Lára Ólafsdóttir, þau eiga þrjú börn, b) Ása, c) Helena í sambúð með Karli Finnbogasyni, eiga þau eina dóttur.

Magnús ólst upp í sínum stóra systkinahópi á Gjögri. Ungur fór hann suður á vertíð, þar sem hann kynntist eiginkonu sinni, og fluttust þau síðar til Hjalteyrar þar sem þau Anna Lilja hófu búskap sinn og dætur þeirra fæddust.

Til Keflavíkur fluttu þau að hausti 1952 og byggðu sér hús á Sunnubraut 5 þar í bæ og bjuggu þar til æviloka.

Magnús stundaði sjómennsku og vann við beitningar fyrstu árin. Eftir að hann hætti til sjós vann hann hjá Axel Pálssyni fiskverkanda til fjölda ára eða fram að þeim tíma sem hann byrjaði að vinna í Dráttarbraut Keflavíkur hf. Þar vann hann meðan hún starfaði, eftir það í einhvern tíma hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur.

Síðustu tuttugu árin var frístundabúskapur Magnúsi mjög hugleikinn og þar átti hann margar góðar stundir.

Útför Magnúsar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir

þá líður sem leiftur úr skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(H.J.H.)

Ástkær afi minn, Magnús Jónsson, er látinn. Þar er genginn góður og traustur maður. Á sorgarstundu þessari eru margar góðar minningar sem leita á hugann.

Afi var ákaflega víðlesinn maður og fróður. Það var sama hvaða umræðuefni bar á góma, ávallt var afi vel inni í málum og gaman var að ræða við hann alla mögulega hluti. Ekki var verra ef við náðum að karpa aðeins um stjórnmál og skiptast á skoðunum en ávallt var hlegið í lokin og allir voru sáttir. Afa líkaði vel við fólk sem hafði ákveðnar skoðanir á hlutunum.

Þegar aðstæður urðu þannig að afi gat ekki lengur lesið bækur þá vorum við fljót að finna út aðrar leiðir svo hann gæti haldið áfram að fræðast um menn og málefni.

Menntun okkar barnabarnanna var afa hugleikin. Hann var óþreytandi í að hvetja mig áfram í því námi sem ég tók mér fyrir hendur og einnig fylgdist hann vel með framvindu námsins. Eitt sinn í miðju háskólanámi fékk ég þá hugdettu að gera hlé á náminu. Þessa hugdettu mína bar ég undir afa en fékk hún ekki góðan hljómgrunn, hann gerði mér það ljóst að þegar fólk tæki sér frí frá námi þá væru miklar líkur á því að ekki yrði aftur snúið. Úr varð að ég hélt áfram náminu, ekki síst fyrir orð hans afa míns. Vandfundinn var stoltari maður er að útskriftardegi kom og átti það einnig við er önnur barnabörn kláruðu sína námsáfanga.

Afi hafði lifað tímanna tvenna og var gaman að heyra hann segja sögur af því hvernig lífinu var háttað er hann var barn og ungur maður.

Unun var að ferðast um landið með afa og þá sérstaklega ef ferðinni var heitið norður í land, þar þekkti hann hverja þúfu og sagði margar skemmtilegar sögur af mönnum og stöðum. Sérstaklega voru afa kærar æskustöðvarnar að Gjögri á Ströndum.

Afi var með duglegri mönnum sem ég hef kynnst og féll aldrei verk úr hendi. Á síðari árum hóf afi sauðfjárbúskap ásamt nafna sínum. Þær stundir sem þeir eyddu í búskapinn voru afa gleðiefni og einnig sá góði vinskapur sem fylgdi með.

Það var ómetanlegt að eiga það athvarf að sem ég átti á heimili ömmu og afa. Ávallt voru dyrnar opnar og vel tekið á móti mér, það brást ekki að manni leið vel eftir að hafa litið inn. Það er skrýtið að hugsa sér lífið án afa, alla mína ævi hafa verið nánast dagleg samskipti við heiðursmanninn afa. Afi var svo yndislega hlýr og góður maður, handtakið hlýtt og faðmlagið enn hlýrra. Hans er sárt saknað.

Minn missir er mikill en missir ömmu er hvað mestur, þau hafa átt samleið um lífið í um sextíu ár. Ég bið góðan Guð að vera með elsku ömmu minni, styrkja hana og blessa. Móður minni, Ingu frænku og fjölskyldunni allri votta ég samúð mína. Ég bið Guð að styrkja ykkur og blessa á þessum erfiða tíma.

Elsku afi minn, ég þakka þér fyrir allar góðu stundirnar og allt sem þú hefur gefið mér. Ég kveð þig með söknuði og trega. Guð geymi þig.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum

lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem

gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast

þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Þín

Ása.

Elsku afi Maggi.

Þá er komið að leiðarlokum, mikið óskaplega hafa síðustu dagar verið erfiðir, það vantar svo mikið þegar þú situr ekki í stólnum þínum.

En þú fórst eins og þú einn óskaðir og þótt höggið yrði ansi mikið, og sorgin rist djúpt skilur þú eftir svo mikið af góðum minningum sem við yljum okkur við.

Ég naut þeirra forréttinda að vera elsta barnabarn þitt og fékk að hafa þig í 38 ár en maður á það til að vera eigingjarn og hefði ég viljað fá að hafa þig miklu lengur. Þú varst kletturinn í fjölskyldunni, sá sem alltaf var hægt að reiða sig á, yfirmáta skipulagður og með alla hluti á hreinu og vona ég að ég hafi erft bara lítinn hluta af þinni skipulagningu, sem kom sér vel núna undir lokin þegar sjónin fór að gefa sig.

Það væri of langt mál að fara að telja upp allar þær yndislegu stundir sem við höfum átt saman, en sumar standa uppúr, allar næturnar sem ég fékk að gista hjá ykkur og kúra í holunni hans afa, sunnudagsbíltúrarnir, ferðalögin, svo ekki sé talað um ferðirnar í kindakofann með langafabörnunum nú síðari ár. En þar varst þú svo sannarlega á heimavelli og það var spurning hvor ljómaði meira þú eða kindurnar þegar þú mættir á svæðið.

Þó standa uppúr síðustu mánuðir en þá áttum við oft góðar stundir og spjölluðum heilmikið saman í ró og næði þegar við fórum í búðina. Þær stundir eru mér gríðarlega dýrmætar núna.

Langafabörnin sakna afa mikið og Eddi Már skilur ekkert í því að það er enginn í stólnum að taka á móti honum, þar sem þú fékkst alltaf sérstakt knús frá honum.

Mikið held ég að það hafi verið tekið vel á móti þér þegar þú komst yfir og þar hefur örugglega lítil stúlka verið í fararbroddi og bið ég þig um að hugsa vel um hana fyrir mig þar til við hittumst síðar.

Ég vil þakka afa mínum samfylgdina og allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Ég bið algóðan guð að styrkja ömmu mína nú við fráfall afa svo og alla fjölskylduna.

Ég kveð þig elsku afi, þú varst einfaldlega besti afi í heimi.

Þitt barnabarn

Anna Lilja.

Í dag kveð ég afa minn Magnús Jónsson Strandamann eins og hann kallaði sig oft. Ég tel það vera mikil forréttindi að kynnast nafna mínum eins náið og ég gerði. Hann var af þeirri kynslóð sem tók þátt í að byggja upp það velmegunarþjóðfélag sem við búum við í dag. Þar var afi ekki eftirbátur annarra, vann alla tíð gríðarlega mikið bæði til lands og sjós.

Hann var smiður góður. Ég var ekki gamall þegar ég tók eftir því hve nákvæmur, duglegur og útsjónarsamur hann var. Það var sama hvað hann tók sér fyrir hendur, hann gerði það vel og án mikils tilkostnaðar. Hann afi var þolinmóður maður, stundvís með eindæmum, víðlesinn og hann umgekkst alla af stakri kurteisi. Það var alveg sama hvenær maður þurfti á aðstoð að halda, alltaf fann hann tíma og oftar en ekki mættur með verkfærin sín. Á unglingsárunum mínum unnum við saman við saltfiskverkun í Keflavík og það er mér í fersku minni þegar ég lærði af honum handbragðið að fletja fisk. Þó allt væri vélvætt þá tóku vélarnar ekki allan fisk og karlar eins og afi voru eftirsóttir til slíkra starfa.

Það var svo fyrir réttum tuttugu árum sem afi kom að máli við mig hvort ég væri ekki til í að hefja smá rollubúskap með honum. Það er í raun ein af farsælustu ákvörðunum í lífi mínu að hafa skellt mér í þetta með honum. Því næstu tuttugu árin eyddum við tveir miklum tíma saman við að hirða um rollurnar. Við þessi störf naut hann sín vel, hann var fjárglöggur og var fljótur að koma upp afbragðs stofni. Það verður ekki sama andrúmsloftið og hans verður sárt saknað við árleg haustverk rollubænda á Miðnesheiði á komandi hausti. Hans skemmtilega innlegg inn í umræðu líðandi stundar og hans hnyttnu tilsvör verða ekki til staðar ásamt framúrskarandi verkkunnáttu. Það skarð sem hann skilur eftir sig í þeim hópi verður vandfyllt.

Það er ekki hægt að segja að afi hafi ferðast víða. Hins vegar áttu ferðir norður á Strandir hug hans allann. Eftir að ég stofnaði fjölskyldu höfum við farið fjölmargar ferðir í Fögrubrekku á Gjögri, hans æskuheimili. Það var alveg sama hvað karlinn eltist, alltaf varð hann eins og unglingur við að komast norður. Ég tala sjálfsagt fyrir munn margra þegar ég segi að það var algjör unun að hlusta á afa lýsa leiðinni norður. Hann þekkti hana eins og lófann á sér, hvern einasta bóndabæ, hverja vík, öll fjöllin og miðin í kring um Gjögur auk þess sem hann sagði sögur af fólkinu og lifnaðarháttum þess er hann ólst þar upp. Sú vitneskja sem ég öðlaðist í þessum ferðum okkar er mér ómetanleg og mun fylgja mér um ókomna tíð.

Ég kveð afa minn með tregablöndnum söknuði. Það að fá að fara án þess að verða nokkrum háður var hans ósk og þannig fór hann. Fyrr í sumar missti hann sjónina og eftir það var lífið honum nokkuð erfitt. Ég veit að hann kveður sáttur eftir að hafa lokið sínu hlutverki hér á meðal okkar.

Magnús Eyjólfsson.

Jæja elsku afi minn, þá er kominn tími til að kveðja, þó að mér finnist það nú alltof snemmt. Þegar ég hugsa til baka streyma minningarnar fram í huga mér. Þau eru ófá hádegin sem maður hefur setið á móti þér og dásamað soðninguna hennar ömmu, með tólg og vænni klípu af smjöri ofan á rúgbrauðið. Helgarnar sem maður gisti á Sunnubrautinni, hafragrauturinn á morgnana og rúnturinn Garður-Sandgerði til að tína flöskur úr vegkantinum er sterkt í minningunni. Ferðirnar norður á strandir eða í Ólafsfjörðinn eru alveg ógleymanlegar, þar sem við barnabörnin skiptumst á um fara með ykkur hjónum í smáferðalag. Einnig ferðin í Ólafsfjörð þegar ég og Hulda fórum með þér, þá fórst þú alveg á kostum, þú þekktir hverja þúfu og stein alla leiðina.

Velferð okkar barnabarnanna var þér ofarlega í huga, ekkert var eins skemmtilegt og að koma með afrakstur vetrarins, einkunnirnar, til að sýna þeim gamla og launaði hann alltaf vel fyrir. Þú fylgdist ávallt vel með hvað við vorum að gera og hvert við stefndum og var þér ekkert óviðkomandi í þeim efnum.

Þó svo að þú hafir ekki átt mikinn tíma með yngstu langafabörnum þínum verður rauluð fyrir þau vísan sem þú raulaðir alltaf fyrir okkur:

Mamma pabbi bæjaja

ía kía æjaja

hopp og hí og bæjaja

allir í hóp og jæjaja

Takk fyrir allt afi minn.

Guðni.

Elsku afi Maggi.

Takk fyrir þennan tíma sem þú varst í lífi mínu.

Það verður skrítið að koma á Sunnubrautina og þú ekki sitjandi í stólnum þínum, taka í höndina þér, þessa stóru hönd sem maður hvarf í. Takk fyrir allan þann stuðning sem þú hefur veit mér í gegnum árin í sambandi við skólann, sem þú lagðir svo mikla áherslu á að ég kláraði.

Þessi tími sem ég er búinn að fá núna í sumar við að laga húsið fyrir þig hefur verið ómetanlegur, þótt þú sæir ekki mikið af því sem ég var að gera þá varstu alltaf jafn ánægður.

Það var alltaf svo gaman að fá að koma með þér í rollukofann að gefa kindunum eða kíkja á lömbin á vorin. Ég mun aldrei gleyma því þegar kindurnar komu hlaupandi til þín að fá sér brauð, þær þekktu alltaf rauða bílinn þinn þegar þú komst.

Þú fórst alltof snöggt frá okkur en þetta var það sem þú vildir, fá að fara svona snöggt.

Elsku afi minn ég á eftir að sakna þín mikið.

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesús, í þína hönd,

síðast þegar ég sofna fer

sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgrímur Pétursson.)

Þinn

Gísli.

Það eru rúm tíu ár síðan ég kynntist Magnúsi Jónssyni þegar ég tók saman við manninn minn sem er dóttursonur hans og nafni. Á heimili Magnúsar og Önnu var mér afskaplega vel tekið eins og öllum sem þangað koma. Ég leit fljótt á þau eins og ömmu mína og afa og fannst þau taka mér þannig. Við heimsóttum þau oft af því að okkur þótti gott og gaman að koma til þeirra og oft ferðuðumst við saman. Fyrir mér standa þó upp úr ferðirnar á Strandirnar, á æskuheimili Magnúsar. Maggi sagði okkur frá öllum staðháttum á leiðinni og hvernig þetta hefði allt verið í gamla daga. Á síðustu 2-3 árum hefur Maggi ekki ferðast með okkur og hef ég saknað þess mikið að hafa hann ekki með í för. Ég lærði margt af honum og honum var einkar lagið að miðla þekkingu sinni af sinni einstöku þolinmæði og hógværð. Hann var afar vinnusamur sem lýsir sér best í því að hann sat við að hnýta á allt þar til í lok vetrar eða á meðan sjónin leyfði. Hann var nægjusamur og nýtinn en alltaf var hann mjög gjafmildur við sína nánustu.

Hann eignaðist sitt yngsta langafabarn fyrir réttum mánuði en náði aldrei að sjá hana sökum blindu sem honum þótti mjög leitt en hélt þó á henni í hlýjum faðmi sínu. Ég kveð Magnús með söknuði en þó gleði yfir því að hann kvaddi með þeim hætti sem hann óskaði sér að loknu góðu ævistarfi.

Kristín Lára Ólafsdóttir.

Á lífsins leið hef ég orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast mörgu fólki. Magnús Jónsson tengdaafi dóttur minnar er mér sérstaklega minnisstæður. Okkar fyrstu kynni urðu þegar tilvonandi tengdafjölskylda dóttur minnar kom til okkar hjóna í kvöldmat eitt ljúft vorkvöld fyrir tíu árum. Magnús varð mér strax sérstaklega hugleikinn, okkur varð strax vel til vina, samband myndaðist sem erfitt er að lýsa. Á stórafmæli mínu fyrir ári færði fjölskyldan mér gjöf, sem hann vildi hafa áhrif á hver yrði, og var það óvenjulegt af hans hálfu.

Magnús Jónsson var gáfumaður, vel lesinn og fylgdist vel með á öllum sviðum alveg til síðasta dags, þrátt fyrir blindu á síðustu ævivikum. Hann var mikill fjölskyldumaður, kærleiksríkur og gefandi en jafnframt hógvær og lítillátur. Voru þau hjónin sérstaklega gestrisin og höfðu ríka ánægju af að fá heimsókn barnabarna og seinna barnabarnabarna og fylgjast með þroska þeirra og ferli.

Hann var alinn upp í stórum systkinahópi á Ströndum, voru þá tækifæri til menntunar lítil og hann fékk ekki notið þeirrar skólagöngu sem honum hefði hæft og hefði verið sjálfsögð í dag. Eðlilegt þótti á þeim tíma að um fermingu væri hver farinn að sjá um sig sjálfur. Í örlitlu húsi, sem hann og systkini hans eiga á æskustöðvum sínum og var þeirra heimili, spurði ég hann eitt sinn hvort ekki hefði verið þröngt um þau fimmtán, foreldra hans, ömmu og ellefu systkini, kvaðst hann ekki muna til þess. Við fjölskyldan urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að fara með honum og hans ágætu konu á þessar æskuslóðir hans fyrir nokkrum árum og njóta minninga hans, þekkingar og fróðleiks í ríkum mæli. Meira að segja fórum við á staði, sem hann þekkti en hafði aldrei komið á. Sú ferð er og verður okkur ávallt ógleymanleg.

Ég sendi Önnu Lilju konu hans, dætrum og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur um leið og ég minnist Magnúsar með virðingu og söknuði.

Hildur Guðmundsdóttir.

Elskulegur afi minn hefur kvatt þessa jarðvist.

Afi var einstakur heiðursmaður, hann var heiðarlegur, hlýr, víðlesinn og skipulagður maður. Vinnusemi var hans aðalsmerki. Afi fylgdist vel með okkur barnabörnunum í leik, starfi og námi. Við skólalok var ávallt farið með námsárangur vetrarins til afa og veitti hann viðurkenningu fyrir. Það skipti hann miklu máli að við gengum menntaveginn. Á heimili ömmu og afa á Sunnubrautinni vorum við alltaf meira en velkomin, þar fengum við hlýtt viðmót, þétt handaband og klapp á öxlina. Það voru góðar stundir sem ég átti með afa sitjandi á beddanum hans talandi við hann um allt mögulegt, þær stundir ásamt svo mörgum öðrum sem ég átti með honum veittu mér ómælda gleði. Þegar barnabarnabörnin komu í heiminn eitt af öðru fylgdist afi vel með uppvexti þeirra og framförum.

Orð eru fátækleg á stundu sem þessari þegar ógrynni minninga leita á hugann, þær minningar mun ég geyma í hjarta mínu um aldur og ævi. Ég bið góðan Guð að styrkja og varðveita elsku ömmu mína og fjölskylduna alla.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Vald. Briem.)

Elsku afi, ég kveð þig með söknuði og þakklæti.

Þín

Helena.

Núna ertu farinn til Guðs en ert alltaf í hjarta okkar. Það var alltaf svo gott að koma til ykkar ömmu. Þú varst svo góður við okkur og varst alltaf að lauma að okkur smáaur. Þú vildir líka fá að vita hvað við vorum að gera, hvernig gengi í skólanum og í sundinu. Við lofum að segja Edda Má frá þér þegar hann stækkar.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Guð geymi þig elsku langafi.

Þín langafabörn

Rúnar Ingi, Ólöf Edda

og Eðvarð Már.

Elsku pabbi og tengdapabbi, þegar hlutirnir gerast fljótt eru orðin svo lítils megnug.

Við viljum þakka þér fyrir alla þá ástúð og umhyggju sem þú sýndir okkur öllum og fjölskyldum okkar, því við vitum að við vorum þér afar kær öllsömul.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Við biðjum góðan guð að vera okkur öllum til styrks og stuðnings og vaka yfir mömmu okkar.

Dætur og tengdasynir.