Þorsteinn Björnsson fæddist á Karlsskála í Reyðarfirði 13. apríl 1907. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík 30. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Björn Eiríksson bóndi á Karlsskála, f. 1864, d. 1932, og kona hans Guðrún Þorsteinsdóttir, f. í Víðivallagerði á Fljótsdal 1872, d. 1959. Önnur börn þeirra hjóna voru Sigurbjörg húsmóðir, f. 1896, d. 1986; Eiríkur læknir, f. 1898, d. 1993; Jón, f. 1900, d. 1902; Sigríður verslunarstjóri, f. 1902, d. 1986; Jón húsgagnabólstrari, f. 1903, d. 1985; og Helga Árdal húsmóðir, f. 1909.

Þorsteinn kvæntist árið 1943 Guðrúnu Guðmundsdóttur, f. 1909, d. 1969. Foreldrar hennar voru Anna Ásmundsdóttir og Guðmundur Sigurðsson bóndi á Helgavatni í Þverárhlíð.

Þorsteinn lauk prófi í mótorvélfræði árið 1934 og vann sem vélstjóri á vélskipum til ársins 1943 er hann var ráðinn húsvörður og starfsmaður Reykjavíkurapóteks og þar vann hann allan sinn starfsferil síðan. Hlaut hann miklar þakkir og viðurkenningar frá Þorsteini Scheving Thorsteinssyni apótekara og fjölskyldu hans fyrir vel unnin störf og trúmennsku.

Þorsteinn dvaldist á Hrafnistu í Reykjavík frá árinu 1972.

Þorsteinn verður jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Það er alveg víst að himins gáttir verða galopnar þegar Þorstein Björnsson ber þar að garði. Hvorki var hann samt kirkjurækinn né trúrækinn og aldrei hafði hann guðsorð á munni svo aðrir heyrðu. En gjörðir hans í lífinu voru í fullkomnum anda þess sem kristindómur boðar: hann var æðrulaus, hann barst ekki á og var alla tíð sáttur við sitt, en samgladdist þeim sem hlutu hærri sess í tilverunni; en mestu ræður trúlega þó, að hann gerði alltaf öðrum mönnum miklu betur en hann vildi að þeir gerðu sér.

Við sem næst honum stóðum kölluðum hann Steina en konu hans Gunnu. Og það er saga að segja frá því, hvers vegna mér þykir sérlega vænt um þau hjón. Ég fæddist inn í heldur ólánsama stöðu að ætla mætti; komnir tveir synir fyrir og bæði nöfn afanna auk annars ömmunafnsins, en faðir minn harðákveðinn að hætta ekki fyrr en fæddist dóttir, sem næst kom og síðust og hlaut nafn hinnar ömmunnar. En móðir mín hafði fengið þá ágætu hugmynd við fæðingu mína að skíra mig í höfuð móðursystur sinnar og Steina hennar, sumpart af því þau höfðu alltaf verið henni svo hlý, sumpart vegna þess að þau voru barnlaus. Betri greiði hefur mér ekki verið gerður; ég eignaðist þar með auka-ömmu og auka-afa og varð þeirra eina dekurbarn. Því dekri linnti aldrei meðan bæði lifðu; og náði svo síðar frá Steina hendi til barna minna og móður þeirra. En þakklæti mitt og virðing í garð ömmu Gunnu og afa Steina verður aldrei rétt orðað í einni minningargrein; það ætla ég að tjá með því að halda á lofti minningu þeirra hjá börnum mínum og barnabörnum, en segja hér heldur í fáum orðum frá þeim hliðum Steina sem ég veit að honum er engin launung að og hann mundi sætta sig við að kæmi fram á opinberum vettvangi. Hann var nefnilega afar hlédrægur alþýðumaður og frábað sér athygli, en spaugsamur á skemmtilegasta veg; kímdi og hló í barminn þegar hann var með sínum nánustu. Hann lifði fjarri veruleik fólksins í Séð og heyrt, og hefði ekki viljað vera þar, en þegar hann frétti á dánarbeði, aðframkominn eftir aðgerð, að sjálfur forsætisráðherrann væri lagstur á sömu deild, þá hraut af vörum hans að sá góði mann vissi sjálfsagt ekki af honum þar á ganginum, ella væri hann búinn að heilsa uppá - og kímdi út frá hálfluktum augum.

Hann var tólf ára gamall þegar hann var sendur á sjó, og reri með körlunum út á opið haf við mynni Reyðarfjarðar, til að skapa lifibrauð fjölmennu heimili í afskekktri sveit. Í nýhafinni heimsstyrjöld, um það leyti sem hann hitti lífsförunaut sinn rúmlega þrítugur að aldri, réð hann sig til starfa sem vélstjóri á strandferðaskipum. Og það eru fimmtán ár síðan hann bannaði mér að kaupa fyrir sig nýja skyrtu, af því honum fannst ekki taka því. Segir þetta ekki allt um æviaðstæður eins manns? Hann missti eiginkonu sína sextíuogtveggja ára gamall og bakaði jólaköku hennar heima í Pósthússtræti í níu ár eftir það, handa sjálfum sér og gestum sínum, allt þar til hann kom sér fyrir á Hrafnistu þar sem hann undi glaður við sitt drjúgan fjórðung ævi sinnar, við göngutúra og bridds. Hann hætti fullfrískur að keyra bíl af því hann lenti í smávægilegu óhappi eftir margra áratuga tjónlausan akstur; hann vildi ekki skapa öðrum vá. Hann hætti skyndilega briddsinu eftir að honum eitt sinn varð á að setja út rangt spil sökum sjóndepru. Og þrátt fyrir allt sem hann gerði fyrir mig varð ég að þvinga uppá hann hverjum smágreiða þegar með þurfti, og nú skammar hann mig sjálfsagt að ofan fyrir að eyða tímanum í þessa grein. Verður nokkuð betur lýst hjartalagi eins manns? Við leggjumst ekki í djúpa sorg, ættmenni og vandamenn Steina við fráfall hans. Við söknum hans bara. Við vitum að honum fannst komið nóg fyrir löngu; hann trúði því að fyrir handan biðu eiginkona og móðir, og fólkið hans. Þess vegna rembist maður við að fylgja honum alla leið glaður en ekki grátandi. Hann á það skilið. Og þar mæli ég ekki bara fyrir munn okkar Eddu og barnanna okkar, heldur áreiðanlega fyrir hönd allra sem þekktu hann.

En það er mikið rembst.

Gunnar Þorsteinn

Halldórsson.

Látinn er frændi minn Þorsteinn Björnsson, síðastur í fjölskyldunni af kynslóð foreldra minna. Hann var giftur Guðrúnu Guðmundsdóttur móðursystur minni en þau hjónin voru fastur hluti af tilverunni allt frá því ég man eftir mér. Samgangur var mikill milli heimilanna en segja má að hjá foreldrum mínum hafi verið miðstöð fjölskyldunnar, því þar bjuggu einnig foreldrar Guðrúnar og móður minnar, Jófríðar. Þeir svilar Þorsteinn og faðir minn, Einar Andrésson, höfðu þekkst frá æskuárum, enda voru þeir sveitungar úr Helgustaðahreppi í Reyðarfirði, Steini frá Karlsskála en faðir minn alinn upp á næsta bæ, Litlu-Breiðuvík. Mun Steini hafa kynnst Gunnu á heimili foreldra minna í Reykjavík.

Gunna og Steini bjuggu alla tíð í miðbænum, lengst af á efstu hæð í Reykjavíkurapóteki. Á þeim tíma voru ekki kaffihús á hverju horni og því ekki óeðlilegt að gestagangur hafi verið mikill á heimili þeirra, enda voru þau gestrisin mjög og höfðu gaman af að taka á móti ættingjum og vinum. Ekki síst var margt um manninn á stórhátíðum, og kepptust þá gestirnir um gluggana til að fylgjast með því sem fram fór á Austurvelli, þá var glatt á hjalla. Ógleymanlegar eru líka ferðirnar í sumarbústaðinn þeirra Gunnu og Steina við Lækjarbotna þar sem var sömuleiðis gestkvæmt, en þangað fóru þau hjónin flestar helgar yfir sumartímann.

Steini fylgdist alltaf mjög vel með mér og fjölskyldu minni og hafði einlægan áhuga á því sem við vorum að gera. Ég mun sakna stundanna með honum, sakna þess að heimsækja hann á Hrafnistu til að gefa "skýrslu", eins og við kölluðum það, og spyrja hann um ýmislegt sem tengdist fortíðinni, foreldrum mínum og fjölskyldu. Hann var mér og börnunum mínum ávallt afar hlýr og góður, og ég kveð hann með þakklæti og virðingu.

Anna Einarsdóttir.

Ættingjar allir og vinir sakna Steina, föðurbróður míns. Það er eftirsjá í manni með þá eðlislægu eiginleika, sem einkenndu hann: Hógværð, félagslyndi, glaðværð, skopskyn, nægjusemi, skýr hugsun.

Það var gaman að ræða við hann um gamla daga og fræðast af honum. Þær samverustundir okkar voru of fáar, þegar litið er til baka. Hann var ekkert síður fróður um málefni líðandi stundar. Það var ótrúlegt að hugsa sér, að hann væri kominn hátt á tíræðisaldur, svo andlega hress og líkamlega vel á sig kominn. Hann virtist við góða heilsu, enda kvartaði hann sjaldan. Dauðastríðið stóð stutt.

Þegar lokastundin nálgaðist gerði hann sér fulla grein fyrir henni. Hann lét ekki bugast, hann var æðrulaus og kveið ekki dauðanum. Hann var sáttur við heiminn, sáttur við alla. Lokaorð hans voru á þá lund, að nú væri nóg komið, og hann bað fyrir kveðju. Blessuð sé minning hans.

Bergur Jónsson.