Helgi Kristbergur Einarsson fæddist í Halakoti í Biskupstungum 7. október 1921. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík 26. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jónasína Sveinsdóttir, f. 21. febr. 1890, d. 13. okt. 1967, og Einar Jörundur Helgason, f. 7. júní 1896, d. 20. febr. 1985, bændur í Halakoti og síðar Holtakotum í Biskupstungum. Helgi átti fimm systur. Þær eru: 1) Ragnhildur, f. 7. nóv. 1922, maki Ragnar Þórðarson. Þau eiga fimm börn. Ragnhildur átti eina dóttur fyrir. 2) Ingigerður, f. 27. febr. 1924, maki Jóhann Eyþórsson. Þau eignuðust fimm syni. Þau skildu. 3) Málfríður Heiðveig, f. í okt. 1926, d. í júlí 1928. 4) Hlíf, f. 19. nóv. 1930, maki Kjartan Jónsson. Eignuðust átta börn. Þau skildu. 5) Dórothea Sveina, f. 21. febr. 1932, maki Hörður Bergmann. Þau eignuðust fimm börn.
Á sumardaginn fyrsta, 24. apríl 1954, kvæntist Helgi Sigríði Lovísu Sigtryggsdóttur, f. 14. okt. 1918, d. 25. apríl 2002. Þeim hjónum varð ekki barna auðið en Sigrún Hákonardóttir, bróðurdóttir Sigríðar Lovísu, var þeim sem dóttir. Þau hjónin tóku auk þess að sér fjölmörg börn til sumar- og jafnvel ársdvalar.
Helgi ólst upp í Holtakotum við almenn sveitastörf. Hann gekk í barnaskóla í Reykholti í Biskupstungum og tvo vetur í íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal. Árið 1945 lauk hann prófi frá Bændaskólanum á Hólum eftir tveggja ára nám og hélt síðan til framhaldsnáms í eitt ár við Landbúnaðarháskólann í Ási í Noregi. Árið 1949 stofnar Helgi nýbýlið Hjarðarland úr landi Holtakota, þar sem hann bjó stóru búi ásamt Sigríði Lovísu sem kom til hans 1952. Þau bjuggu þar allan sinn búskap.
Helgi verður jarðsunginn frá Skálholtsdómkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Jarðsett verður í Haukadal.
Hann bróðir okkar var bóndi. Annað lífsstarf kom aldrei til greina, þótt hæfileika hefði hann haft í hvaða starf sem var, hvort heldur var til munns eða handa. Hann var náttúrubarn og hafði auga fyrir öllum tilbrigðum náttúrunnar. Það kom glöggt fram í starfi hans og tali og hefur örugglega átt sinn þátt í því að hann tók að sér veðurathugunarstöð á efri árum.
Helgi stofnaði nýbýli með konu sinni Sigríði Lovísu Sigtryggsdóttur og rak þar myndarlegan búskap, aðallega með kýr, þótt sauðféð og hestarnir hafi alltaf staðið honum næst. Hann var dýravinur og hafði einstaklega gaman af börnum og hafði gott lag á þeim. En þar kom nú til sú mikla sorg að þeim hjónum varð ekki barna auðið. Það vekur e.t.v. tilfinningu um tóm sem þarf að fylla. Í búskap sínum höfðu hjónin fjölda unglinga í sumarvinnu. Margt af því fólki hélt tryggð við heimilið upp frá því.
Þegar við sumar af okkur systrum tókum upp á því að byggja okkur sumarbústaði á landi sem pabbi hafði látið eftir sig var Helgi ekki áhyggjulaus út af uppátækjum okkar og aðstoðaði okkur með ráðum og dáð og vakti yfir því sem okkur gat komið vel. Viljum við þakka það.
Þeim hjónum hlotnaðist það mikla happ að fá til sín yndislegt fólk sem keypti af þeim jörð og bú. Og ekki nóg með það heldur veitti þeim aðstoð og umhyggju á þeirra síðustu árum. Það eru þau Kolbrún Sæmundsdóttir og Egill Jónasson og börn þeirra sem kölluðu Helga afa.
Nú er erfiðu sjúkdómsstríði lokið og gott er þeyttum að sofa.
Ragnhildur Einarsdóttir,
Ingigerður Einarsdóttir,
Hlíf Einarsdóttir,
Dórothea Sveina Einarsdóttir.
Látinn er traustur og tryggur vinur, Helgi á Hjarðarlandi. Þar sem við ólumst upp á nágrannabæjum urðu samfundir æði margir á síðastliðnum áttatíu árum, Koðralækurinn einn skilur jarðirnar að. En þá var ekki amast við því að búféð gengi á milli jarða, þvert á móti man ég eftir að slíkt skapaði vinafundi. Hjálpsemin og hlýjan geislaði í hugum þessara gömlu granna. Í þannig umhverfi ólumst við Helgi upp.
Auk þess að hljóta sína fyrstu menntun í Barnaskólanum í Reykholti lá leið hans á Íþróttaskólann í Haukadal. Helgi var stæltur og sterkur, fimur í öllum hreyfingum og snöggur glímumaður. Með honum og æskulýðsleiðtoganum Sigurði Greipssyni tókust miklir kærleikar, þar taldi hann sig hafa hlotið gott veganesti, sem var uppörvun, hvatning og hollráð. Þar höfðum við tveir félagar úr Tungunum ásamt Helga sammælst um að sækja um skólavist í Bændaskólanum á Hólum sem var auðsótt. En ævintýri var það í þá daga fyrir hálfgerða heimalninga að fara norður á land. Farið var frá Reykjavík með ferjunni Skallagrími, lagt að bryggju í Brákey í Borgarnesi og síðan heim að Hólum var ferðast í hálfkassabíl Gísla á Sleitustöðum. Vistin á Hólum var náttúrlega stórkostleg við nám, störf og leik.
Það var góð tilfinning að hafa sveitungana með sér í herbergi tvo vetur. Þá getur reynt á innri mann, drenglyndið og tillitssemi var slík hjá Helga að ég fékk það aldrei fullþakkað. Snögg og hnitmiðuð tilsvör hans vöktu oft kátínu. Ég held það sé óhætt að segja að oft hafi verið mannmargt í herberginu hjá okkur. Var þá lagið tekið og flosmjúk bassaröddin hans Helga var ómissandi til að fá hinn eina sanna tón. Helgi var afburða námsmaður, hlaut einróma traust skólabræðra sinna til að sjá um innkaup og umsjón mötuneytis skólans síðari vetur okkar þar. Það var umfangsmikið ábyrgðarstarf sem leyst var af hendi með stakri prýði. Maturinn var góður og ódýr, sem ekki var lítið atriði fyrir efnalitla námsmenn. En ekki má gleyma ráðskonunni Lovísu Sigtryggsdóttur sem síðar varð eiginkona Helga í meira en hálfa öld. Húsmóðir af bestu gerð, listamaður í matargerð og hannyrðum auk þess sem henni féll ekki verk úr hendi.
Um miðja síðustu öld tóku hjónin til við að byggja nýbýlið Hjarðarland úr landi jarðarinnar Holtakota af miklum dugnaði og myndarskap, allt var byggt frá grunni, hús fyrir fólk og fénað auk þess að rækta tún sem teygðu sig um holtin ofan við bæinn, ekki var síður áhugi fyrir ræktum búfjár. Helgi og Lovísa áttu ekki börn, en áttu samt börn og unglinga, sem voru hjá þeim í sumarvinnu og reyndust þeim hjónum sterkir og ómetanlegir bakhjarlar þegar heilsan fór að bresta.
Þegar stritið og vinnan fóru að hafa áhrif seldu þau búið og síðar jörðina ungum hjónum, Kolbrúnu og Agli Jónassyni, og þau sáu allt blómstra og dafna í höndum þeirra. Lovísa lést fyrir tveimur árum.
Helgi var góður félagsmálamaður. Ungmennafélagið átti huga hans, m.a. safnaði hann örnefnum á mörgum jörðum á vegum þess. Þá var hann góður liðsmaður í bygginganefnd Aratungu. Fyrir hrossaræktinni var áhuginn vakandi. Helgi var athugull og nákvæmur veðurathugunarmaður, sjaldan vantaði veðurlýsingu frá Hjarðarlandi. Hann var náttúrubarn og sannur bóndi, hafði djúpa tilfinningu til að umgangast sköpunarverkið sem helgidóm. Moldin var honum gjöful, hamingjan og gleðin var að sjá gróskumikið grasið bylgjast um völlinn og hafa sjálfur átt hlutdeild í því. Við Mæja sendum ástvinum öllum samúðarkveðjur. Kveðjum Helga með virðingu og þökk.
Ef ég mætti yrkja
yrkja vild' eg jörð
sveit er sáðmannskirkja.
Sáning bænargjörð.
Vorsins söngvaseiður
sálmalögin hans
blómgar akur breiður
blessun skaparans.
(Bjarni Ásgeirsson.)
Björn Erlendsson.
Af rúmlega áttatíu ungmennum sem dvöldu sumarlangt hjá Helga og Lóu voru sum okkar þaulsætin, komum sumar eftir sumar, en önnur áttu erfiðara með að aðlagast samfélaginu í Hjarðarlandi, sveitasælan virtist stunum snúast upp í andhverfu sína þegar moka þurfti flórinn í allri sinni lengd eða stinga út úr fjárhúsinu á meðan aðrir virtust fá önnur og meira aðlaðandi verkefni. Flest lærðum við þó að sérhver þurfti að legga sitt af mörkum og að gleðin fólst í því að sjá búpeningnum farborða.
Helgi var mikill nákvæmnismaður þegar velferð búpeningsins var annars vegar og honum var lagið að skila þeirri ábyrgðartilfinningu til okkar sem vildum læra mun á réttu og röngu í þeim efnum. Mér eru minnisstæðar vorstundirnar sem við áttum saman í girðingarvinnu, tveir einir með hundinum. Á þeim stundum kynntist ég þekkingunni sem Helgi virtist hafa á umhverfi sínu. Á milli þess sem við glímdum við hornstaura og strekkjara eða kengi og gaddavír vorum við oní skurði að spá í lurkalög og Heklulög, skoða jökulsorfnar klappir eða að lesa í atferli fugla. Alls staðar voru undur og stórmerki sem Helgi kunni skil á og barnshugurinn var ekki í vandræðum með að fylla í eyðurnar. Þannig kenndi Helgi mér að líta á smátt og stórt í umhverfinu og lesa úr því örlagasögur í köngurlóavef, eða tilurð fjalla og dala.
Síðar þegar ég var farinn að geta lagt sitthvað til málanna sem numið var af bókum rann upp fyrir mér hve Helgi var athugull og vel að sér um náttúrufar og búvísindi. Við urðum því aldrei uppiskroppa með umræðuefni og voru skógræktarmálin oft viðruð síðustu árin, gjarna tyggjandi strá útí karga-þýfinu með athugasemdir stelks og spóa í báðum eyrunum.
Nú eru orðin kaflaskil í Hjarðarlandi, farinn er Helgi, holdgervingur staðfestunnar sem þurfti til að nýta gjöfult landið og skila því til nýrra ábúenda. Ég er þakklátur að eiga athvarf í gróandanum í Hjarðarlandi, þar sem ég get viðhaldið þeim neista sem Helgi kveikti þegar hann hóf að móta áhuga minn á náttúruvísindum og gróðurrækt.
Jóhannes Gíslason.
Látinn er sveitungi minn og nágranni frá fyrstu æviárum okkar beggja, Helgi Kr. Einarsson, sem fæddist í Holtakoti og ólst þar upp öll sín æskuár.
Samgangur milli æskuheimilis míns Vatnsleysu og Holtakota var mikill, og góðar minningar frá öllum þeim árum. Foreldrar Helga, Einar og Jónasína, voru ljúfar og góðar persónur sem gott var að lynda við og hafa samstarf með. Helgi byggði nýbýli úr hluta af Holtakotalandi, sem hann nefndi Hjarðarland og byrjaði að byggja það upp 1949. Árið 1952 kom eiginkonan að Holtakotum, Lovísa Sigtryggsdóttir. Um það leyti fluttu þau í íbúðarhúsið sem var þá í smíðum og bjuggu þar í hartnær hálfa öld. "En Róm var ekki byggð á einni nóttu" og auðvitað tók það allmörg ár hjá þeim hjónum að reisa sitt býli. Helgi var fremur hæglátur maður, flíkaði ekki tilfinningum sínum, en mjög traustur og ábyggilegur förunautur. Nágrenni við þau ágætu hjón Lovísu og Helga var í alla staði mjög gott og bar þar aldrei skugga á. Helgi var vel gefinn og afar traustur félagi í leik og starfi, góður söngmaður, starfaði í forystusveit Ungmennafélagsins og fleiri félagsstörfum. Hann var einn af stofnendum Félags eldri borgara í Biskupstungum og gegndi gjaldkerastarfi þar til fjölda margra ára. Þau hjón bjuggu mjög góðu búi alla tíð. Nákvæmur bóndi og ræktunarmaður bæði með skepnur og jarðrækt. Ekki varð þeim hjónum barna auðið, en mörg ungmenni dvöldu lengri og skemmri tíma hjá þeim. Helgi var ákaflega orðvar maður, heyrðist aldrei segja hnjóðsyrði um náungann. Hann naut sinnar uppskeru í búskapnum með þeirri gleði að afla hennar og njóta uppskerunnar í hógværð og ánægju.
Fjölskyldurnar á báðum bæjum á Heiði þakka þér góða samfylgd.
Far þú í friði ágæti granni.
Sigurður Þorsteinsson.