Arnbjörg Jóhannesdóttir fæddist á Gunnarsstöðum í Þistilfirði 31. maí 1924. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Seli á Akureyri þriðjudaginn 27. júlí síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Akureyrarkirkju 4. ágúst.

Í barnæsku minni var það langt ferðalag að fara í heimsókn til Boggu frænku í Nesi. Vegakerfið á þeim tíma bauð upp á bílveiki með öllu tilheyrandi. En alltaf var gaman að koma þangað. Sveitin hennar var einhvern veginn allt öðruvísi en sveitin mín í Þistilfirði. Allur rekinn í kringum Nes, fuglalífið, gígurinn eftir sprengjuna á stríðsárunum o.s.frv.

Ég kynntist Boggu best á menntaskólaárunum þegar ég réð mig sem ráðskonu hjá Vegagerð ríkisins á sumrin. Skúrarnir voru oft staðsettir stutt frá Nesi. Gott var að koma þangað í heimsókn á kvöldin til að spjalla við frænku og annað heimilisfólk. Umræðuefnin við eldhúsborðið voru mörg og alltaf glatt á hjalla. Bogga naut þess að segja frá gamla tímanum, var víðlesin og hafði gaman af kveðskap. Hún orti líka sjálf kvæði og vísur.

Þarna var mikil dugnaðarkona sem aldrei féll verk úr hendi. Fyrir utan hefðbundin störf á bóndabýli var það æðarvarpið á vorin, hreinsa dúninn og nytja fiskinn úr vötnunum. Bogga var lagin við matargerð og ósjaldan gat hún ráðlagt okkur Ranný vinkonu minni um eldamennskuna fyrir karlana í skúrunum. Kunnátta okkar á því sviði var nú ekki upp á marga fiskana og ekki voru farsímar til staðar til að hringja eftir upplýsingum. Bogga unni náttúrunni og fylgdist vel með hverjum fugli og plöntulífinu.

Þessi sumur á Melrakkasléttu í nágrenni við Boggu hafa verið gott veganesti út í lífið. Umhverfið, sólarlagið, dýralífið og mannlífið sem maður á þessum árum tók sem sjálfsögðum hlut myndu ferðamenn nútímans vilja borga stórfé fyrir. Þegar ég heimsótti Boggu á síðasta ári sýndi hún mér stolt nýju íbúðina sína á Akureyri. Við frænkurnar dáðumst m.a. mjög að því hve flottar eldhúsinnréttingar eru í dag. Ég vil þakka fyrir samfylgdina og sendi Árna bónda og fjölskyldu samúðarkveðjur.

Sigrún Lilja.

Það sem bróðir er vel giftur.

Þessa setningu sagði faðir minn ávallt eftir eina af fjölmörgum heimsóknum okkar til þeirra mektarhjóna Bónda og Boggu í Nesi.

Ein af mínum fyrstu minningum um Boggu er þegar ég sat við eldhúsborðið í Nesi og Bogga gaf mér mjólk í glas. Mér þótti mjólkin vond og tilkynnti Boggu að ég gæti ekki drukkið svona mjólk úr beljunum, bara mjólk sem kæmi úr ísskápnum. Viðstöddum þótti þetta ansi skondið og gerðu grín að borgarbarninu. Bogga sussaði á liðið og sagði að það væri ekkert eðlilegra í þessum heimi en að þykja mjólkin úr beljunum vond. Eftir þetta var ávallt til Nesquick í Nesi og enginn gerði oftar grín að borgarbarninu.

Þessi litla saga lýsir Boggu vel. Hún var ekki að gera óþarfa mál úr hlutunum og að gera lítið úr náunganum eða hæðast að fólki var alls ekki til í orðabók Boggu.

Bogga var bóndakona af líf og sál. Hún lagði metnað sinn og stolt í að reka býlið vel og búa fjölskyldu sinni gott heimili. Tískustraumar og veraldlegir hlutir skiptu hana engu máli. Hin innri fegurð var aðalsmerki hennar. Boggu þótti fátt skemmtilegra en að taka á móti gestum. Hvort sem var í Nesi eða á Mýrarveginum á Akureyri töfraði Bogga fram hinar ótrúlegustu veislur. Að heimsækja Bónda og Boggu var hreint og beint skemmtilegt. Það var oft mikið fjör við eldhúsborðið, hlegið og gantast. Bogga var hress og glaðleg kona sem hafði gaman af að segja sögur og frétta af ættingjum og vinum. Hún var með afbrigðum fróð og vel lesin og því hægt að ræða við hana um allt milli himins og jarðar. Hún var ekki ein af þessum sem væla og skæla yfir smámunum. Ef ég hefði einhvern tíma heyrt Boggu kvarta hefði ég sjálfsagt dottið af stólnum, mér hefði brugðið svo.

Nú verða kaffibollarnir ekki fleiri með Boggu því það er komið að kveðjustund. Kæra Bogga hafðu þökk fyrir allt og allt.

Elsku Bóndi, þú hefur misst mikið en hugsaðu þér hvað við vorum öll heppin að fá að kynnast henni Boggu þinni.

Samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Jakobína Jónsdóttir.