Helga Sigrún Harðardóttir er þrjátíu og fjögurra ára. Hún er kennari og námsráðgjafi að mennt og hefur meistaragráðu í mannlegum samskiptum frá Oklahomaháskóla. Helga hefur aðallega unnið við fjölmiðla, kennslu og ráðgjöf og er nú verkefnastjóri á Impru, nýsköpunarmiðstöð. Helga býr með Gunnlaugi Kristjánssyni framkvæmdastjóra og eiga þau saman eina dóttur.
Helga Sigrún Harðardóttir er þrjátíu og fjögurra ára. Hún er kennari og námsráðgjafi að mennt og hefur meistaragráðu í mannlegum samskiptum frá Oklahomaháskóla. Helga hefur aðallega unnið við fjölmiðla, kennslu og ráðgjöf og er nú verkefnastjóri á Impru, nýsköpunarmiðstöð.

Helga býr með Gunnlaugi Kristjánssyni framkvæmdastjóra og eiga þau saman eina dóttur.

Norræn ráðstefna um skapandi greinar verður haldin hér á landi næsta fimmtudag, 9. september. Ráðstefnan er hluti af samstarfi Impru, nýsköpunarmiðstöðvar við Jenka-verkefnið sem styrkt er af Nordisk Innovations Center, en Jenka-verkefninu er ætlað að efla uppbyggingu og þróun á skapandi greinum, sem stundum eru nefndar upplifunar- og afþreyingariðnaður.

Fyrirlesarar úr ýmsum áttum atvinnulífs og menningarmála munu flytja erindi og fræða gesti ráðstefnunnar um stöðu skapandi greina hérlendis og í nágrannalöndunum með það að leiðarljósi að marka ákveðna stefnu auk þess að ræða möguleika á hugsanlegu styrkhæfu samstarfi við nágrannaþjóðirnar. Meðal umfjöllunarefna eru Latibær, ferðamennska, leikhús og tónlist.

Verkefnastjóri ráðstefnunnar er Helga Sigrún Harðardóttir.

Hversu margir gestir sækja þessa ráðstefnu og hvað verður í boði?

"Við eigum von á um 30-40 manns hingað til lands í tengslum við ráðstefnuna auk þess sem fjölmörgum aðilum innanlands hefur verið boðið að sækja hana. Er það von okkar að þar myndist tengsl sem verði til þess að menn kynnist því sem nágrannaþjóðirnar eru að aðhafast og hugsanlega finni sér samstarfsvettvang. Í kjölfar ráðstefnunnar fara erlendir gestir í eins og hálfs dags ferð til að kynnast sérstöðu landsins og náttúru. Þar á meðal verður farið í Bláa lónið, kajaksiglingu, hestaferð og hvalaskoðun."

Í hverju felst mikilvægi hinna skapandi greina?

"Það felst í raun og veru í því að á Vesturlöndum eru fjölskyldur og fólk farið að eyða meiri peningum í menningu, listir, upplifun og afþreyingu en í ýmsar nauðsynjavörur. Norðmenn eyða meiru í menningu en í mat og Bandaríkjamenn eyða meiru í þessar greinar en í bíla. Þetta þýðir að við þurfum að vera vel á verði með hvað er að gerast á þessum vettvangi til að geta tekið réttar ákvarðanir, t.a.m. um það hvaða greinar stjórnvöld eiga að styrkja sérstaklega, til þess að fylgjast með og dragast ekki aftur úr.

Litlar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu hérlendis og töluvert vantar upp á það, svo við vitum ekki hver hegðun Íslendinga er á þessu sviði. Það er mikilvægt að gera frekari rannsóknir til að fé sé veitt í greinar sem skila einhverju til baka."

Eru miklir útrásarmöguleikar í þessari grein?

"Tvímælalaust. Við sjáum hvað Gísli Örn Garðarsson er að gera með Vesturportleikhúsið og Rómeó og Júlíu og Magnús Scheving er að gera við Latabæ. Ef rétt er á spilunum haldið og við höfum næga þekkingu getur þetta reynst mikill vaxtarbroddur í útflutningstekjum."