HORNAMENNIRNIR voru í aðalhlutverki hjá Dönum í gærkvöld þegar þeir unnu yfirburðasigur á slöku liði Angóla, 47:19, í A-riðlinum á heimsmeistaramótinu í Túnis. Boris Schnuchel skoraði 10 mörk og Sören Stryger 9, en margir minni spámenn í danska hópnum fengu að spreyta sig mikið í leiknum. Torben Winther, þjálfari Dana, hrósaði sínum mönnum fyrir að hafa spilað af fullum krafti nánast allan tímann. "Þar með var þetta fínn leikur, góð æfing fyrir okkur, en að öðru leyti er svona leikur ekki boðlegur í heimsmeistarakeppni," sagði Winther við Politiken, en mikið vantaði upp á að margir leikmanna Angóla væru með undirstöðuatriðin í íþróttinni á hreinu.
Svipaður leikur var á boðstólum í A-riðlinum fyrr um daginn þar sem Túnis lék sér að liði Kanada og sigraði með yfirburðum, 42:20.