KB BANKI hefur höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem krafist er að Mjólkurfélag Reykjavíkur greiði bankanum samtals 443 milljónir króna vegna taps sem bankinn varð fyrir vegna kaupa á Fóðurblöndunni árið 2001.

KB BANKI hefur höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem krafist er að Mjólkurfélag Reykjavíkur greiði bankanum samtals 443 milljónir króna vegna taps sem bankinn varð fyrir vegna kaupa á Fóðurblöndunni árið 2001.

Málavextir eru þeir að Búnaðarbanki Íslands keypti árið 2001 fyrirtækið Fóðurblönduna, en fyrirtækið átti á þeim tíma Reykjagarð, annan stærsta kjúklingaframleiðanda landsins. Frumkvæði að kaupunum höfðu stjórnendur Mjólkurfélags Reykjavíkur, en hugmyndin var að MR keypti síðan Fóðurblönduna af bankanum. Kaupsamningur milli MR og bankans var gerður sumarið 2001. Fyrir lá að óvíst væri hvort samkeppnisyfirvöld myndu samþykkja kaupin og þess vegna var sett inn í kaupsamninginn svokallað skaðleysisákvæði þar sem sagði að ef MR yrði bannað að kaupa hlutafé Fóðurblöndunnar skuldbindi MR sig "til að gera bankann eins settan og ef kaupin og framsal hlutafjár hefði gengið eftir. Þannig skal MR greiða bankanum allt það tap eða tjón sem bankinn kann að verða fyrir vegna þess."

Ábyrgðin ekki borin undir stjórn

Um haustið bannaði Samkeppnisstofnun kaup MR á Fóðurblöndunni og í framhaldinu seldi Búnaðarbankinn Fóðurblönduna með umtalsverðu tapi.

Í ársbyrjun 2003 var skipt um framkvæmdastjóra hjá Fóðurblöndunni að kröfu Búnaðarbankans. Fyrrverandi stjórnendur MR töldu að með þessari ráðstöfun hefði skaðleysisábyrgð MR fallið niður. Þessu hafnaði bankinn.

MR hefur auk þess haldið því fram að skaðleysisábyrgðin, sem var undirrituð af stjórnarformanni og framkvæmdastjóra MR, hefði aldrei verið borin undir stjórn félagsins. Þar sem ábyrgðin hafi aldrei formlega verið borin undir stjórnina geti MR ekki borið ábyrgð á tjóninu sem bankinn varð fyrir vegna viðskiptanna.