HEILDARTEKJUR ríkissjóðs af stimpilgjöldum jukust um 2,7 milljarða króna á síðasta ári. Þá námu gjöldin alls um 6,4 milljörðum króna en voru 3,7 milljarðar árið 2003. Þetta kemur fram í svari Geirs H.

HEILDARTEKJUR ríkissjóðs af stimpilgjöldum jukust um 2,7 milljarða króna á síðasta ári. Þá námu gjöldin alls um 6,4 milljörðum króna en voru 3,7 milljarðar árið 2003. Þetta kemur fram í svari Geirs H. Haarde fjármálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur þingmanns.

Áætlað er í svarinu að stimpilgjöld vegna fasteignakaupa gætu hafa numið um 4 milljörðum á liðnu ári, en voru um 2,4 milljarðar árið 2003. Þetta eru mun meiri tekjur en reiknað hafði verið með því í lok ágúst sl. var haft eftir skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu í Morgunblaðinu að tekjur af stimpilgjöldum gætu numið 3,5 milljörðum yfir árið 2004. Var samkeppni bankanna á íbúðalánamarkaðnum rétt að byrja.

Í svari fjármálaráðherra segir að fyrirkomulag og innheimta stimpilgjalda valdi því að erfitt sé að gera sér fyllilega grein fyrir skiptingu gjaldsins, líkt og þingmaðurinn spurði um. Í upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins komi fram að stimpilgjöld af fasteignaviðskiptum á fyrri hluta ársins hafi verið um 65-70% af heildarstimpilgjöldum. Er þá átt við bæði gjöld af skuldabréfum og kaupsamningum. Samkvæmt þessu megi gera ráð fyrir að stimpilgjöld vegna fasteignakaupa árið 2003 hafi numið um 2,4 milljörðum króna. "Vegna breyttra aðstæðna á lánamarkaði vegna fasteignakaupa á seinni hluta ársins 2004 er erfiðara að áætla hve mikill hluti stimpilgjaldsins sé vegna fasteignakaupa. Gróf nálgun gæti numið tæpum 4 milljörðum króna," segir í svari ráðherra.

Fasteignamat hækkaði víðast hvar um landið um 16-20% um áramótin og segir formaður Félags fasteignasala, Björn Þorri Viktorsson, það blasa við að bara vegna þessara hækkana muni ríkið auka enn frekar tekjur sínar af stimpilgjöldum en slíkt gjald vegna kaupsamnings íbúðar er 0,4% af fasteignamati húss og lóðar.