HLUTFALL 25 til 34 ára Íslendinga sem voru með allar fullorðinstennurnar, 28 eða fleiri, hækkaði marktækt frá 1990 til 2000. Árið 1990 voru 62,6% með allar fullorðinstennurnar, árið 1995 var hlutfallið 71,6% og 72,3% árið 2000. Er þetta til marks um betri tannheilsu aldurshópsins að því er fram kemur fram í fjórða áfanga könnunar á breytingum á tannheilsu Íslendinga sem tók til aldurshópsins 25 til 34 ára en í fyrri áföngum hefur tannheilsa verið könnuð hjá yngri og eldri hópum.
Könnuninni stýrði Guðjón Axelsson við Tannlækningastofnun Háskóla Íslands, og var sendur spurningalisti til 800 manna slembiúrtaks á áðurgreindum aldri. Svarhlutfall var 48,6%.
Fram kemur að meðalfjöldi hjá tenntum Íslendingum á aldrinum 25 til 34 ára hafi hækkað frá 1990 til 2000. Árið 1990 var meðalfjöldi tanna 27,3, árið 1995 var hann orðinn 27,9 og árið 2000 28,6. Rúm 46% þátttakenda hafði farið til tannlæknis áður en þeir urðu sex ára sem er 16,5 prósentustiga hækkun frá árinu 1995. Segir í samantekt aðstandenda könnunarinnar að þetta sýni að skilningur foreldra á nauðsyn þess að fara með börn til tannlæknis til eftirlits hafi farið vaxandi. Þá sögðust rúm 66% fara árlega til tannlæknis og 32% kváðust sjaldan fara. Segir að marktæk fjölgun hafi orðið frá árinu 1995 til 2000 í þeim hópi sem fer árlega til tannlæknis.