Össur og Ingibjörg.
Össur og Ingibjörg.
Eftir rólega haustdaga og andvaraleysi í upphafi vetrar náði stjórnarandstaðan sér skyndilega á strik.

Eftir rólega haustdaga og andvaraleysi í upphafi vetrar náði stjórnarandstaðan sér skyndilega á strik. Einkum hefur stjórnarandstaðan gert sér mat út Íraksmálinu og undrast ugglaust meira að segja margir stjórnarandstæðingar það fum og fát, sem málið hefur valdið í Framsóknarflokknum.

Það er hins vegar eins og stjórnarandstæðingar í Samfylkingunni geti ekki unnt andstæðingum sínum þess að vera einir um vandræðaganginn. Í vor verður gengið til kosninga um formann Samfylkingarinnar og gefa þar kost á sér bæði Össur Skarphéðinsson formaður og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaformaður.

Beri upphaf kosningabaráttunnar milli þeirra því vitni sem koma skal er ljóst að mikið mun ganga á næstu mánuðina. Um helgina gekk Össur svo langt að saka andstæðinga sína um subbuleg vinnubrögð, sem skemmdu innra starf flokksins, og segja að þær árásir, sem hann hefði orðið fyrir af hendi flokkssystkina sinna, væru svo rætnar að hann hefði aldrei upplifað annað eins af hálfu andstæðinga sinna úr öðrum stjórnmálaflokkum.

Bent hefur verið á að önnur eins átök hafi ekki átt sér stað um forustu í stjórnmálaflokki hér á landi síðan kosið var á milli Davíðs Oddssonar og Þorsteins Pálssonar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 1991. Á þessum viðureignum er þó einn munur. Átökin um formannsstólinn í Samfylkingunni munu standa næstu fjóra mánuði. Átökin um forustuna innan Sjálfstæðisflokksins stóðu mun skemur. Landsfundur Samfylkingarinnar verður haldinn dagana 22. til 24. maí eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær. Þrjátíu dögum áður hefst atkvæðagreiðslan, líklegast með póstkosningu. Enn hefur ekki komið fram á hvaða málefnalegu forsendum átökin um formennsku í Samfylkingunni verða háð. Enn hefur ekki komið fram hvaða málefni skilja frambjóðendurna að.

Enginn flokkur á Íslandi hefur jafn lýðræðislega og opna aðferð við að kjósa sér formann. Á milli 14 og 15 þúsund flokksmenn hafa rétt á taka þátt í henni. En lýðræðið er ekki alltaf einfalt í framkvæmd. Það getur m.a.s. verið "subbulegt".