"Og þeir nota ekki bara aðra höndina til að ýta vagninum, svo þeir virðist "kúl", heldur báðar..."

Maður ætti að eiga íslenskan karlmann. Stelpur, farið út að leita! ...Nei, stopp. Þetta eru ekki mín orð. Ég er að vitna í sænsku blaðakonuna Lindu Skugge, sem skrifaði fyrir ekki svo löngu pistil um íslenska karlmenn í blaðið Expressen. Eftir fyrrgreind inngangsorð skrifaði hún: "Þeir (íslensku karlmennirnir) eru flottir, heita fallegum nöfnum og virðast kúl." Hvorki meira né minna!

Hún beinir síðan sjónum að íslensku fæðingarorlofslögunum, sem kveða m.a. á um að karlar hafi þriggja mánaða sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs, en þann rétt má ekki, eins og kunnugt er, framselja til móðurinnar. "Milli áttatíu og níutíu prósent af íslenskum feðrum taka út sína þrjá pabbamánuði," segir sænska blaðakonan, að því er virðist nokkuð uppnumin. Hún mælist að minnsta kosti til þess að konur eignist börn með íslenskum mönnum; þeir séu mjúkir menn sem flykkjast í fæðingarorlof!

Ég dreg þessa grein hér fram til að sýna að íslenskar konur fá ekki bara umfjöllun - neikvæða og/eða jákvæða, eftir því hvernig á það er litið - í erlendum fjölmiðlum, heldur einnig íslenskir karlmenn. (Ég tek fram að umfjöllun sænsku blaðakonunnar er mjög jákvæð, að mínu mati, fyrir íslenska karlmenn - svo það fari ekki á milli mála.)

Það er sennilega löngu kominn tími til að erlendir blaðamenn veiti körlunum íslensku verðskuldaða athygli. Upphefðin kemur jú að utan. Eða hvað?

Kunningi minn kvartaði yfir því á dögunum hve slæma einkunn íslenskir karlmenn hefðu fengið hjá erlendum viðmælendum í heimildamyndinni How do you like Iceland, eftir Kristínu Ólafsdóttur, sem nýlega var sýnd í Ríkissjónvarpinu. (Sjálf hef ég ekki séð myndina og get því ekki dæmt um það.) Íslenskum konum hefði í hnotskurn verið lýst sem "fallegum og gáfuðum heimskonum" en íslenskum körlum sem "púkalegum, óframfærnum sveitalubbum". Einhver viðmælendanna hefði síðan sagt (eða gefið í skyn) að íslenskir karlmenn ættu varla svona flottar konur skilið!

Kunningi minn var að vonum ekki par ánægður með þetta sjónarmið og benti á að það þyrfti jú tvo, þ.e. "meintan íslenskan sveitalubba" og "meinta íslenska fegurðardís" til að búa til svona "fallegar og gáfaðar heimskonur". (Hann telur fegurð íslenskra kvenna, umfram aðrar konur, vera goðsögn eina. En það er annað mál.)

Já, sennilega hafa ekki bara íslenskir karlmenn, heldur allir hvítir karlmenn, átt undir högg að sækja, á vissum sviðum, síðasta áratuginn og ef til vill lengur.

Þeir hafa að vísu komið ár sinni vel fyrir borð. Þeir eru í öllum helstu sjáanlegu valdastöðum þjóðfélagsins. En með völdum sínum hafa þeir kannski gefið ákveðið skotleyfi á sig.

Fyrir rúmum tveimur árum skrifaði ég viðhorfspistil um norræna karlmennsku. Í pistlinum gerði ég smávægilegt grín að karlmennskunni og hvernig hún birtist mér. Stuttu síðar átti ég hins vegar samtal við karlkyns lesanda sem var ekki skemmt. Hann taldi að "allt hefði orðið brjálað" ef gert hefði verið grín að konum með sama hætti og ég gerði grín að körlunum. Femínistar hefðu risið upp og mótmælt kröftuglega. Ég andmælti þessum fullyrðingum ekki enda taldi ég að hann hefði hitt naglann á höfuðið.

Það er með öðrum orðum "heimilt" að tala um karlmenn á ákveðinn hátt, en ekki "heimilt" að tala um konur með sama hætti. Hinn svokallaði pólitíski rétttrúnaður, sem er alltumlykjandi, gefur út þessa "heimild". Ég er til dæmis viss um að ég hefði heyrt meira en "eitt kvabb úti í horni" ef íslenskum konum hefði í fyrrgreindum sjónvarpsþætti verið lýst sem "óframfærnum og hallærislegum sveitakerlingum". Hvað þá ef því hefði verið lýst yfir að þær ættu varla skilið hina "fallegu og vel gefnu íslensku karlmenn"!

En hvaðan kemur þessi heimild? Eða öllu heldur: hvernig verður hún til? Að hluta til gæti hún verið sprottin af þeirri hugmynd eða ómeðvituðu "samþykkt" samfélagsins að það megi gera grín og hlæja að þeim sem eru sterkir, þ.e. þeim sem hafa völdin í sínum höndum. Það megi að sama skapi ekki gera grín að þeim sem ekki hafa völdin (lesist sem: hin sjáanlegu völd) og tilheyra þar með minnihlutahópum í ákveðnum skilningi, eins og til dæmis konum.

Ekki má þó gleyma í þessari umræðu að ýmislegt er sagt og gert við konur sem sjaldan eða aldrei er gert við við karlmenn. Hæfileikar kvenna eru t.d. ekki fullnýttir á vinnumarkaðnum og þær eru að meðaltali með lægri laun, skv. könnunum, en karlar. En ekki er ætlunin að fara út í þá sálma hér.

Ég ætla að halda mig við karlana, íslensku karlana. Sænska blaðakonan dáðist að þátttöku þeirra í fæðingarorlofinu. Sagði þá komna lengra en sænsku karlana. Ég get tekið undir það. Íslenskir karlar eru að þróast frá sveitalubbanum yfir í nútímann. Með þátttöku þeirra í fæðingarorlofinu er til dæmis orðið æ algengara að sjá þá ýta á undan sér barnavagninum. Og þeir nota ekki bara aðra höndina til að ýta vagninum, eins og áður fyrr, heldur báðar. Þeir ýta ekki með hálfum huga, nei, þeir ýta af einbeitingu og af ákveðni - já með báðum höndum. (Hvenær ætli síðast hafi verið skrifað svona fallega um íslenska karlmenn?) Já, þeir eru á réttri leið... Eða það ætla ég að vona!

Eftir Örnu Schram arna@mbl.is