Líkur á stórkostlegum hamförum eins og urðu við Indlandshaf eru litlar á Norður-Atlantshafi, enda eru jarðfræðilegar aðstæður hér nokkuð aðrar.
Líkur á stórkostlegum hamförum eins og urðu við Indlandshaf eru litlar á Norður-Atlantshafi, enda eru jarðfræðilegar aðstæður hér nokkuð aðrar. — Morgunblaðið/Sverrir
HÁSKÓLI Íslands efnir í dag kl. 16 til málþings um jarðfræðilegan ramma náttúruhamfaranna í Asíu 26. desember sl. og hættu á tsunami-flóðbylgjum við Ísland, en nú er mánuður liðinn síðan atburðirnir við Indlandshaf áttu sér stað.

HÁSKÓLI Íslands efnir í dag kl. 16 til málþings um jarðfræðilegan ramma náttúruhamfaranna í Asíu 26. desember sl. og hættu á tsunami-flóðbylgjum við Ísland, en nú er mánuður liðinn síðan atburðirnir við Indlandshaf áttu sér stað.

Á málþinginu munu starfsmenn Jarðvísindastofnunar Háskólans og Veðurstofu Íslands fjalla um eðli og orsakir atburðanna, viðvaranir við náttúruvá og hættu á slíkum atburðum hér við land.

Málþingið fer fram í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ, en fundarstjóri er Ágúst Gunnar Gylfason hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Fyrirlesarar á málþinginu verða Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur, sem fjallar um eðli og orsakir skjálftans mikla, Bryndís Brandsdóttir, jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ, sem skýrir orsakir, eðli og afleiðingar tsunami-flóðbylgjunnar, og Steinunn Jakobsdóttir, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, sem fjallar um viðvaranir við slíkum flóðbylgjum og náttúruvá. Þá mun Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ, flytja yfirlit um jarðskjálfta og skriðuföll í samhengi við hættu á slíkum hamförum á N-Atlantshafi auk þess sem Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur á Norræna eldfjallasetrinu, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, fjallar um eldfjallahrun í Atlantshafi og Ármann Höskuldsson jarðfræðingur veltir fyrir sér flóðbylgjum í kjölfar Kötluhlaupa. Þá verður erindunum fylgt eftir með umræðum um stöðu mála og framtíðarhorfur.

"Málþingið verður tvískipt. Annars vegar yfirförum við atburðarásina í Indónesíu fyrir mánuði, þ.e.a.s. í fyrsta lagi jarðskjálftann sjálfan, sem er sérstakur vegna gríðarlegrar stærðar sinnar. Síðan gefum við yfirlit yfir flóðbylgjuna sjálfa og reynum að veita fólki skilning um það hvernig hún ferðast og síðan hvernig hún magnast upp þegar hún kemur að strönd," segir Freysteinn Sigmundsson. "Síðan munum við fara yfir viðvaranir við svona flóðbylgjum og almennt um viðvaranir við náttúruhamförum. Seinni hluta málþingsins mun síðan sjónum beint að Norður-Atlantshafi."

Ná hraða farþegaþota

Tsunami er japanskt orð sem þýðir í beinni þýðingu hafnarbylgja, þ.e.a.s. bylgja sem kemur í höfn. Orðið er komið af því að við strendur Japans, þar sem jarðskjálftar eru tíðir, kom það fyrir þegar sjómenn komu til baka af veiðum að þeir fyndu þorp sín í rúst eftir risaflóðbylgjur. Þeir höfðu þá verið að veiðum undan ströndinni og ekki orðið varir við neitt óeðlilegt. "Þetta er eðli þessara bylgna; þær geta verið litlar úti á rúmsjó, þar getur ölduhæðin verið aðeins hálfur metri, en síðan magnast þær upp við ströndina þegar hafdýpi minnkar," segir Freysteinn. "Þannig getur risastór flóðbylgja skollið á strönd án þess að menn verði varir við hana á hafi úti.

Það sem mér finnst áhugavert er hraðinn, hvernig þær geta ferðast yfir heilu heimshöfin á svipuðum hraða og farþega þotur, allt að 7-800 km hraða á klst. Það fer eftir vatnsdýpi, þær fara hraðar eftir því sem dýpið er meira. Síðan þegar þær koma að ströndum hægir á þeim, vatnsmassinn þjappast saman og bylgjan rís."

Freysteinn segir jarðfræðilegar aðstæður fyrir hendi til að tsunami-flóðbylgjur geti myndast á Norður-Atlantshafi, en tíðni slíkra atburða sé mjög lág. "E.t.v. má búast við einum slíkum stórum atburði á tíu til hundrað þúsund ára fresti," segir Freysteinn. "Orsakir slíkra atburða geta verið skriðuföll neðansjávar, stórir fjarlægir jarðskjálftar og hrun eldfjalla í Atlantshafi eins og t.d. á Grænhöfða-, Kanarí- og Azoreyjum. Áætlaður endurkomutími slíkra atburða er eins og áður segir tíu til hundrað þúsund ár, en í ljósi atburðanna í Indlandshafi verðum við að endurmeta hættur af slíkum atburðum.

Við fáum þó oft minni tsunami-bylgjur, sem myndast við jarðskjálfta undan ströndum Íslands og eldgos. Þannig er þekkt að í kjölfar sumra Kötluhlaupa hefur myndast flóðbylgja við suðurströnd Íslands. Tvær tilgátur eru uppi um orsök þeirra. Annars vegar sú að þegar hlaupvatnið sjálft skellur á sjónum ryðji það honum til og myndi bylgju, sökum þess hversu eðlisþungt það er. Hin tilgátan er sú að skriðuföll verði á landgrunnsbrún suður af landi þegar hlaupvatn nær þangað."