Jónína Benediktsdóttir
Jónína Benediktsdóttir
Jónína Benediktsdóttir fjallar um viðskipti: "Það er því deginum ljósara að bændur og neytendur hafa verið blóðmjólkaðir skipulega af fyrirtækjum milliliða sem eru í eigu sömu aðila og eiga mestallan smásölumarkað á Íslandi."

Heljargreipar milliliða á grænmetis- og blómamarkaði eru ástæða okurverðlagningar hér á landi en ekki verndartollar. Í skýrslu Samkeppnisstofnunar um grænmetisverð hér á landi er verið að segja hálfsannleikann eina ferðina enn. Grænmeti og ávextir eru lúxusvara á Íslandi!

Reynsla fjölmiðlafólks af að spyrja smásalann út í verðlagningu matvæla hér á landi er slæm. Eftirminnilegast er frægt viðtal Jóhönnu Vilhjálmsdóttur í Íslandi í bítið við Jóhannes í Bónus um stjarnfæðilega álagningu á ananas í dós innfluttum frá fyrirtæki Jóns Geralds Sullenbergers í Flórída.

Álagningin á umræddum ananasdósum var 30% frá dreifingarfyrirtækinu Aðföngum og að meðaltali 50% ofan á það til verslana keðjunnar. Baugsmenn höfðu lofað ríkisstjórninni að stuðla að sameiginlegu átaki um viðnám gegn verðbólgu. Hin svokölluðu rauðu strik þeirra hafa aldrei verið annað en blekkingar við okkur neytendur.

Jóhannes brást illa við fyrirspurn Jóhönnu og var haft í hótunum um að draga auglýsingasamning Baugs við stöðina til baka. Nú sjá þeir til þess að fjölmiðlar spyrji þá réttra spurninga.

Jón Björnsson, forstjóri Baugs, nú Haga, gaf loforð um að opna bækur fyrirtækisins en enginn fjölmiðill hefur rýnt í þær bækur enda sennilega allar hjá ríkislögreglustjóra eða skattayfirvöldum.

Því virðist augljóst að þeir fáu fjölmiðlar á Íslandi sem ekki eru í eigu smásalans sjálfs þora ekki í þann ómerkilega slag að leita sannleikans um álagningu á ananas í dós! Hvað þá á grænmeti, blómum og ávöxtum!

Milljarðagróði grænmetisheildsalans

Ef rýnt er í köngurlóarvef viðskiptasamsteypunnar sem hvað mest selur og flytur inn grænmeti, ávexti og blóm þá eru tengsl Öskjuhlíðar-Pálma við Baugsmenn ekki bara í Högum, Big Food, Skeljungi, Iceland Express og fjölmiðlarisa Og Vodafone, heldur einnig og ekki minni í grænmetis-, ávaxta- og blómaheildsölum þessara manna á Íslandi.

Þeir kjósa sjálfir að kalla sig ekki heildsala en eru í raun og veru allt þrennt á blóma- og grænmetismarkaði: framleiðendur, heildsalar og smásalar.

Var ekki talað um að hið svokallaða dreifingarfyrirtæki "Aðföng" væri leið til þess að losa neytandann undan oki milliliða og heildsala? Var ekki búið að lofa okkur betra vöruverði? Ef lögð eru 80% ofan á ananas í dós hvað er þá lagt ofan á þann sem er ferskur?

Hin raunverulega álagning á grænmeti, ávöxtum og blómum er falin þar sem Pálmi Haraldsson og Baugsmenn hafa tögl og hagldir í heildsölunni sem og smásölunni.

Pálmi Haraldsson virðist hafa komið ár sinni vel fyrir borð í þessu milliliðakerfi á meðan garðyrkjubændur veslast upp og okrað er á neytendum. Hann hefur t.d. verið framkvæmdastjóri í Eignarhaldsfélaginu Feng, prókúruhafi í Banönum og grænu, stjórnarformaður í Ágæti, í Banönum og grænum markaði. Stjórnarmaður í Fasteignafélaginu Kastala, Flugfélagi Íslands (Air Iceland), Flugleiðum, AcoTæknivali, Áburðarsölunni Ísafold (Icelandic Fertilizer Inc. sem var dótturfélag Kaupfélags Árnesinga og er reyndar farið á hausinn), líka í Hollu og góðu, Vesturförum og Íslenska birgðafélaginu, sem er heildsölufyrirtæki, svo við tölum ekki um síðustu landvinningana í Skeljungi, Og Vodafone og Iceland Express.

Það er því greinilega hægt að hagnast milljarðatugi á grænmetisheildsölunni á Íslandi!

Sannleikurinn er að milliliðirnir eru að selja sjálfum sér með mikilli álagningu sem neytendur greiða svo fyrir að lokum.

Garðyrkjubændur hafa verið ofurseldir þessum smásölum um langa hríð og eru nú að flosna upp gjaldþrota í hrönnum. Þannig eru 8 af 18 garðyrkjubændum í Hveragerði að hætta eða hættir. Bændur eru oft þvingaðir til að selja vörur sínar undir framleiðsluverði.

"Grænn markaður"

Grænn markaður, fyrirtækið þar sem Pálmi Haraldsson hefur haldið um stjórnartaumana, hefur undanfarin ár verið með um eða yfir 80% af blómasölumarkaði hérlendis. Eftir nokkru er að slægjast, því samkvæmt hagtölum má áætla að heimilin í landinu eyði yfir einum og hálfum milljarði króna til blómakaupa á ári.

Blómabændur leggja inn vörur hjá Grænum markaði sem keypti húsnæði Blómasölunnar á Réttarhálsi 2 í Reykjavík síðla árs 2000. Þar með var Grænn markaður orðinn nær einráður á markaði, en hann er að stærstum hluta í eigu Pálma, Sigurðar Moritzsonar og eignarhaldsfélagsins Fengs, sem er í eigu Baugsmanna og Pálma. Fyrir þjónustuna greiða blómabændur 18,75% í þóknun, en Grænn markaður sér um pökkun, markaðsmál og dreifingu. Dreifingu í blómaverslanir sem flestar eru í eigu þeirra sjálfra. Bændur fá því ríflega hundraðkall fyrir rós sem kostar um 600 krónur út úr búð. Þar með er ekki öll sagan sögð. Blómaheildsalinn tjáði bændum að afföll hefðu verið á sölunni og henda hefði þurft hluta framleiðslunnar. Þessu tóku bændur þegjandi þótt þeim væru aldrei sýnd blómin sem átti að henda. Þannig voru 18 til 20% til viðbótar dregin af þeim. Þá vildi annar milliliður, Grænt, sem var stofnað af Baugi Group og Eignarhaldsfélaginu Feng árið 2002 og með Pálma í stjórn og sem prókúruhafa, líka fá sinn skerf af kökunni eða 13%. Það er því deginum ljósara að bændur og neytendur hafa verið blóðmjólkaðir skipulega af fyrirtækjum milliliða sem eru í eigu sömu aðila og eiga mestallan smásölumarkað á Íslandi.

Jónína Benediktsdóttir fjallar um viðskipti

Höfundur er íþróttafræðingur.