Bergþór Halldórsson
Bergþór Halldórsson
Bergþór Halldórsson fjallar um gagnaflutninga: "Núverandi lagnir anna þörfum nútímans og munu gera það í talsvert langan tíma til viðbótar."

Brátt stefnir í óheyrilega offjárfestingu í háhraðavæðingu íslenskra heimila, ef fram heldur sem horfir. Tvö fyrirtæki, Síminn og Orkuveita Reykjavíkur, hafa nú um nokkurt skeið hvort unnið að uppbyggingu síns ljósleiðanets á höfuðborgarsvæðinu. Nú stefnir Orkuveitan að því að ljósleiðaravæða heilu bæjarfélögin og hefur meðal annars gert samning við Seltjarnarnesbæ þar að lútandi sem er framkvæmd upp á rúmar 300 milljónir króna í rúmlega 5.000 manna bæjarfélagi.

Tækniþróun undanfarinna ára hefur dregið verulega úr þörfinni fyrir ljósleiðara og nú er staðan sú að engin þörf er á því að grafa upp heilu hverfin eða bæjarfélögin til þess eins að leggja ljósleiðara. Núverandi lagnir anna þörfum nútímans og munu gera það í talsvert langan tíma til viðbótar. Þann tíma er hægt að nota til að byggja upp fullkomið ljósleiðaranet á afar hagkvæman hátt og spara þannig milljarða króna sem annars eru sóttir í vasa neytenda með einum eða öðrum hætti.

Síminn hefur í um áratug lagt ljósleiðara með öðrum lögnum sem lagðar hafa verið á vegum veitustofnana og sveitarfélaga. Þannig hefur ljósleiðara, eða rörum fyrir ljósleiðara verið komið í nánast öll hús sem byggð hafa verið hérlendis síðustu árin, auk fjölda eldri húsa sem tengst hafa ljósleiðarakerfinu þegar aðrar framkvæmdir hafa kallað á að grafa hafi þurft fyrir lögnum að húsunum. Síminn mun halda áfram að byggja ljósleiðarakerfi sitt upp með þessum hætti.

Kostar hátt í 20 milljarða

Í framtíðarsýn Símans frá árinu 1997 var litið á ljósleiðarann sem framtíðarlausn og áhersla lögð á að hraða ljósleiðaravæðingunni. Síminn hefur horfið frá því að hraða uppbyggingu ljósleiðarakerfisins því ómældur kostnaður og óþarfa rask fylgir því að grafa upp götur gagngert til þess eins að leggja ljósleiðara því engin aðkallandi þörf er fyrir þessa lausn sem áætlað er að kosti, þegar upp er staðið, allt að 20 milljarða, fyrir alla þéttbýlisstaði á landinu. Þessi gríðarlegi kostnaður mun ávallt lenda á notendunum sjálfum. Allt of margir kjörnir fulltrúar almennings halda að ljósleiðarakerfið eitt og sér leysi háhraðavæðinguna, en svo er ekki.

Þess má einnig geta að búnaðurinn sem þarf til að koma gögnum úr ljósleiðarakerfinu heim til notenda er ennþá mjög dýr og jafnvel dýrari en búnaðurinn sem þarf til að veita sambærilega þjónustu með þeim símalínum sem nú eru fyrir hendi. Stefna Símans er svipuð og hjá sambærilegum fyrirtækjum erlendis, að nýta nýjustu tækni og núverandi lagnir til gagnaflutninga. Síminn mun einnig áfram leggja ljósleiðara á sama hagkvæma hátt og áður, í samvinnu við veitustofnanir og sveitarfélög, enda kostnaðurinn við þá aðferð ekki nema lítið brot af því sem hér að ofan greinir. Það er mun hagkvæmari leið sem sparar um leið útgjöld neytenda um allt land.

Sjónvarpsefni um hefðbundnar símalínur

Á liðnum árum hefur áherslan í fjarskiptamálum beinst að því að þjappa gögnum og minnka þar með þá bandbreidd sem áður þurfti til gagnaflutninga. Nú er svo komið að auðveldlega er unnt að senda sjónvarpsefni á mjög hagkvæman hátt í gegnum hefðbundnar símalínur. Þessi þjónusta hefur þegar verið tekin upp á 10 þéttbýlisstöðum á landinu og skilar hún mjög góðri sjónvarpsmynd án nokkurra vandkvæða þar sem notast er við ljósleiðarakerfi Símans að símstöð viðkomandi þéttbýlisstaðar. Þaðan er sjónvarpsefnið sent til íbúanna um hefðbundna símalínu. Á mörgum þessara staða nýtir um helmingur íbúanna þessa þjónustu. Síminn mun halda áfram uppbyggingu þessa kerfis og strax nú í vor mun hún standa íbúum höfuðborgarsvæðisins til boða.

Tvö ljósleiðarakerfi óþörf

Það er skylda forráðamanna sveitarfélaga og annarra sem koma að ákvörðunum um þessi mál að þessu tagi að gæta ávallt hagsmuna sveitarfélagsins og íbúanna. Það er ekkert vit í því að byggja upp tvö ljósleiðarakerfi með tilheyrandi raski og kostnaði þegar fyllilega er unnt að mæta þörfum fólks um gagnaflutninga á annan og verulega ódýrari hátt. Sveitarstjórnarmönnum ber að fara varlega í þessum efnum.

Bergþór Halldórsson fjallar um gagnaflutninga

Höfundur er framkvæmdastjóri fjarskiptanets Símans.