YFIRSKRIFT skýrslu Hallgríms Sigurðssonar, fyrrverandi yfirmanns alþjóðaflugvallarins í Kabúl, vegna árásarinnar sem gerð var á íslenska friðargæsluliða í borginni hinn 23. október sl., er "Trúnaðarmál.

YFIRSKRIFT skýrslu Hallgríms Sigurðssonar, fyrrverandi yfirmanns alþjóðaflugvallarins í Kabúl, vegna árásarinnar sem gerð var á íslenska friðargæsluliða í borginni hinn 23. október sl., er "Trúnaðarmál. Eingöngu til innanhússnota fyrir Friðargæslu Íslands og utanríkisráðuneyti". Sá hluti skýrslunnar sem blaðamaður Morgunblaðsins fékk afrit af heitir "Önnur atriði" og er lokakafli hennar. Þar fjallar Hallgrímur einkum um umfjöllun fjölmiðla um málið. Skýrslan er rituð 29. október 2004.

Hallgrímur gagnrýnir umfjöllun í fjölmiðlum harðlega, segir verulega mikið um "rangfærslur fjölmiðla gegn betri vitund, æsifréttamennsku, skítkast og lágkúruhátt í kjölfar þessa hörmungaratburðar".

Að því hafi verið látið liggja að hann hafi brotið reglur en hann viti ekki til þess að nokkrar reglur hafi verið brotnar. Ferðalög í einkaerindum hafi ekki verið bönnuð og hann viti ekki til þess að þau hafi verið bönnuð hjá herjunum [sem starfa á Kabúl-flugvelli]. Þá hafi enginn verið neyddur til fararinnar og það sé alrangt að íslenskir friðargæsluliðar hafi verið látnir snúast fyrir hann. Slíkt hefði aldrei gerst.

Ekki rekið á eftir

Þá segir Hallgrímur að gagnrýni á að friðargæsluliðarnir skyldu fara af vettvangi og skilja eftir slasað fólk, lýsi verulegri vanþekkingu. Skyldu hans hafi fyrst og fremst snúið að hans eigin mönnum. Ekki hefði verið ljóst hvort árásin væri yfirstaðin og ósprungnar sprengjur verið á svæðinu. Þá hafi lögregla og hermenn verið komin á staðinn til að sinna slösuðum.

Um dvölina í teppaversluninni segir Hallgrímur að því hafi verið haldið fram að kaupin hafi tekið alltof langan tíma og á eftir sér hafi verið rekið fjórum sinnum. Hann minnist ekki þess að athugasemd hafi komið fram í þessa veru meðan hann var ásamt fleirum í versluninni. Ásgeir Þór Ásgeirsson hafi stjórnað öryggisgæslunni og "hefði hann einhvern tímann lýst því yfir að ástandið væri ótryggt að sínu mati eða að ástæða væri til brottfarar þá hefði ég samstundis hlýtt því", segir í skýrslunni.

Hallgrímur tekur fram að honum finnist allir Íslendingarnir sem lentu í árásinni hafa staðið sig eins og best verði á kosið og öryggisgæslu verið sinnt fumlaust og af einstakri fagmennsku.