SVO fór hér á landi sem og víða annars staðar í Evrópu, stórmyndin um Alexander mikla vekur meiri áhuga íslenskra bíógesta en þeirra í Bandaríkjunum, þar sem myndin gekk ekki eins vel og ætla mátti.
Margar skýringar hafa verið taldar til hvers vegna myndin féll hvorki í kramið hjá gagnrýnendum né almenningi þar vestra en sú augljósasta virðist vera sú að leikstjóri hennar á hreint ekki upp á pallborðið hjá löndum sínum og sannast því hið fornkveðna að enginn er spámaður í sínu föðurlandi.
Tæplega 3.100 manns sáu myndina yfir helgina en með forsýningum er myndin nú sem stendur komin yfir 4 þúsund manns.
"Myndin er að gera það miklu betra í Evrópu en í Bandaríkjunum og Ísland er ekkert undanskilið. Myndin hefur þegar tekið inn 100 milljónir dala í löndum utan N-Ameríku," segir Christof Wehmeier hjá Sambíóunum vígreifur.
Ævintýramyndin um sögur Lemony Snickets fellur við það af toppnum niður í annað sætið en fellur þó ekki nema um 19% í aðsókn. Myndin var einmitt að fá 4 tilnefningar til Óskarsverðlauna.
Sideways , sem stekkur beint í 5. sætið bætti um betur og fékk 5 tilnefningar, þ.m.t. sem besta myndin. Tæplega 1.100 sáu hana um helgina en er hún nú komin í tæplega 2 þúsund með forsýningum.
"Sælkeramyndir eins og Sideways fá aldrei metaðsókn í byrjun en sækja í sig veðrið hægt og rólega sérstaklega þegar frábærir dómar fara að birtast eins og fimm stjörnur af fimm mögulegum í Morgunblaðinu (sem gerist ekki oft!)" segir Guðmundur Breiðfjörð hjá Skífunni. "Þess má til gamans geta að myndin hefur verið vinsæl í lúxussalnum okkar [í Smárabíói] en þar er leyfilegt að taka rauðvínsglasið inn í salinn bæði fyrir mynd og í hléi!"
Franska kvikmyndahátíðin í Háskólabíói hefur að sögn Christofs gengið vel. Hann segir að um 5 þúsund manns séu þegar búnir að sækja eina af þeim níu myndum sem boðið er uppá á hátíðinni. Einna vinsælastar þeirra eru Kórinn og Langa trúlofunin en þess má geta að þær eru báðar tilnefndar til tvennra Óskarsverðlauna, en sú síðarnefnda fékk einnig nú í vikunni 12 tilnefningar til frönsku Sesar-verðlaunanna.