Árni Magnússon
Árni Magnússon
ÁRNI Magnússon félagsmálaráðherra kynnti nýja reglugerð um atvinnuréttindi útlendinga á fundi ríkisstjórnar í gærmorgun. Verður reglugerðin gefin út fljótlega en hún hefur verið í undirbúningi um tíma. Þar er m.a.

ÁRNI Magnússon félagsmálaráðherra kynnti nýja reglugerð um atvinnuréttindi útlendinga á fundi ríkisstjórnar í gærmorgun. Verður reglugerðin gefin út fljótlega en hún hefur verið í undirbúningi um tíma.

Þar er m.a. gerð krafa um að heilbrigðisvottorð liggi fyrir við útgáfu atvinnuleyfis, auk krafna um ýmis starfstengd réttindi erlendra starfsmanna. Þá eru til skoðunar að útgáfa dvalar- og atvinnuleyfa verði á hendi einnar stofnunar.

Að loknum ríkisstjórnarfundi kynnti félagsmálaráðherra þessi áform fyrir fulltrúum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins í gær. Koma þau í kjölfar greinargerðar sem ASÍ sendi ráðherra vegna útgáfu atvinnuleyfa til handa kínverskum starfsmönnum Impregilo.

Árni Magnússon segir í samtali við Morgunblaðið að verið sé að skerpa á framkvæmd við útgáfu atvinnuleyfanna. Breytingin geri m.a. ríkari kröfu til fyrirtækja að leita fyrst eftir starfskröftum á EES.

Árni segir að til þessa hafi erlendir starfsmenn fengið heilbrigðisvottorð eftir útgáfu atvinnuleyfis en núna verði engin leyfi gefin út nema að í umsókn um þau fylgi vottorð frá lækni. Það verði sóttvarnalæknis að skera úr um vottorðin.

Þá segir Árni að reglugerðin taki á því að erlendir starfsmenn hafi tilskilin vinnuvéla- og ökuréttindi og réttindi til starfa innan lögverndaðra iðngreina.

Fólk af EES með forgang

Ágreiningur hefur verið uppi um það hvort stjórnvöldum sé skylt að tryggja að fólk af EES hafi forgang að störfum umfram þriðja ríkis borgara, þ.e. utan EES. Í minnisblaði félagsmálaráðherra, sem lagt var fyrir ríkisstjórn í gær, segir um þetta að ekki verði annað ráðið af EES-samningnum að hann feli í sér skuldbindingar af hálfu stjórnvalda til að veita launamönnum af EES forgang að störfum hér á landi. Skuldbindingin taki einnig til hinna tíu nýju ríkja innan ESB.

Árni segir það vera í verkahring Vinnumálastofnunar að ákveða með hvaða hætti þetta sé tryggt. EES-samningurinn komi þó ekki í veg fyrir að stjórnvöld veiti atvinnuleyfi til fólks utan Evrópu.

Í minnisblaði ráðherra kemur fram að útgáfa svonefndra óbundinna atvinnuleyfa hafi aukist verulega hin síðari ár. Hafa slík leyfi gilt meðan útlendingar hafa haft lögheimili hér á landi. Vegna þessa er félagsmálaráðuneytið með til skoðunar að hafa fleiri tegundir atvinnuleyfa, einkum óendurnýjanleg leyfi sem gilda vegna ákveðins verkefnis. Horfir ráðuneytið til Norðurlandanna með reynslu af þessu.

Þá kom fram á fundi ríkisstjórnar að viðræður hefðu verið milli félagsmálaráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins um að hafa útgáfu dvalar- og atvinnuleyfa undir einni hendi og í yfirstjórn eins ráðuneytis. Árni útilokar það ekki að útgáfa leyfanna verði alfarið hjá Útlendingastofnun, líkt og Norðmenn geri.