"Sagan lifnar við hjá Hallveigu og listafólkinu sem leggur henni lið þegar Egla er sögð í þessum nýja spegli; með augum trúðsins með brúðurnar."
"Sagan lifnar við hjá Hallveigu og listafólkinu sem leggur henni lið þegar Egla er sögð í þessum nýja spegli; með augum trúðsins með brúðurnar."
Leikgerð: Hallveig Thorlacius og Þórhallur Sigurðsson. Leikstjórn: Þórhallur Sigurðsson. Leikmynd og brúður: Helga Arnalds. Leikari og brúðustjórnandi: Hallveig Thorlacius. Frumsýning 22. janúar 2005.

HALLVEIG Thorlacius hefur rekið brúðuleikhús sitt Sögusvuntuna í tuttugu ár. Hún hefur sýnt í skólum og leikskólum um land allt en einnig farið víða um heim. Í leikskrá segir Hallveig tilgang leikhússins vera að matreiða gamlar sögur sem hún gleypti í sig með hafragrautnum í eldhúsi ömmu sinnar. Til þess að segja sögurnar eru notaðar brúður og leikmyndir sýninganna eru einfaldar og þægilegar að ferðast með. Talað er til áhorfenda og þeir jafnvel látnir hjálpa til á ýmsan hátt. Brúðurnar eru í seilingarfjarlægð frá börnunum og heilla þau inn í heim sagnanna. Í þetta sinn er það hinn ódæli Egill Skallagrímsson sem lifnar á leiksviðinu.

Listin að koma hinum forna bókmennta- og menningararfi okkar í einfaldri mynd til barnanna hefur vaxið og dafnað margvíslega síðustu árin. En hvað getur verið áhrifaríkara en að segja söguna beint með hjálp hins aldagamla brúðuleikhúss sem þó er ekki svo gamalt hér á landi? Sögusvuntunni tekst mjög vel að segja Egilssögu eftir að hafa "látið hann bíða lengi í dyragættinni" eins og segir í leikskrá en það var ekki fyrr en "sögumaðurinn" setti upp rauða nefið og fór að skoða þessa blóðugu víkingasögu með hreinum huga trúðsins sem aldrei dæmir - hvorki sjálfan sig né aðra - sem sagan lifnaði. Trúðaleikur er vandasöm listgrein í leikhúsinu og ekki á allra færi. Hallveigu tekst ágætlega að búa til trúverðuga og saklausa stelpukonu sem segir söguna með sínu nefi. Hún er lífsglöð og fyndin þegar hún kynnir söguna og brúðurnar, leggur út af og spjallar við áhorfendur. Það er skýrt hvar samúðin liggur og eins kemst ágætlega til skila hvað trúðurinn er hissa á hvað Egill var ofbeldisfullur en dæmir hann þó ekki heldur vorkennir honum frekar. Ramminn í leikstjórn og leikgerð er skýr; trúðurinn kemur með töskuna sína til að segja söguna og kemur helstu og frægustu atriðum Egilssögu til skila þó að áherslan sé mest á mótun Egils í bernsku. Brúðurnar eru stórsniðugar; raunverulegar, lifandi og fjölbreytilegar að stærð og gerð. Egill sjálfur er einstaklega stór og grófur með annað augað uppi í hársverðinum en aðrar persónur fínlegri. Sniðugt er líka að nota puttabrúður til að sýna Egil lítinn í slagsmálum við jafnaldra sinn og áhrifamikið hvernig hann heggur af honum höfuðið.

Sagan lifnar við hjá Hallveigu og listafólkinu sem leggur henni lið þegar Egla er sögð í þessum nýja spegli; með augum trúðsins með brúðurnar. Í ljósi þess hvað brúðuleikhús er þakklátt og lifandi form er í rauninni einkennilegt hvað fáir hafa stundað þessa listgrein hér á landi. Þar hafa aðstandendur þessarar sýningar verið með þeim fremstu um langa hríð og er framlag þeirra þakkarvert.

Hrund Ólafsdóttir