SÍÐAST þegar Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, heimsótti Old Trafford í Manchester, í mars á síðasta ári, grét hann sigurtárum þegar lærisveinar hans í Porto gerðu sér lítið fyrir og slógu United úr leik í Meistaradeildinni.

SÍÐAST þegar Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, heimsótti Old Trafford í Manchester, í mars á síðasta ári, grét hann sigurtárum þegar lærisveinar hans í Porto gerðu sér lítið fyrir og slógu United úr leik í Meistaradeildinni. Í kvöld getur Mourinho, sem heldur upp á 42 ára afmæli sitt, endurtekið leikinn þegar hann mætir með sveit sína gegn Manchester í síðari undanúrslitaleik liðanna í deildabikarkeppninni. Fyrri leiknum á Stamford Bridge lauk með markalausu jafntefli svo sigurliðið í kvöld tryggir sér farseðilinn í úrslitaleikinn á Þúsaldarvellinum í Cardiff sem fram fer 27. febrúar. Það má reikna með hörkuspennandi leik á Old Trafford og líklegt er að Sir Alex breyti út af venjunni. Hann hefur notað leikina í deildabikarnum til að gefa yngri leikmönnum sínum tækifæri en á sama tíma hefur Mourinho jafnan teflt fram sínu sterkasta liði. Eins og Chelsea hefur leikið í vetur getur Ferguson varla leyft sér annað en að kalla til leiks sínu sterkustu menn og Ferguson mætir til leiks í kvöld með þann árangur á bakinu að frá því hann tók við stjórninni á Old Trafford fyrir 18 árum hefur lið hans ekki tapað undanúrslitaleik.

,,Þetta var hörkuleikur enda mætast þarna bestu lið landsins um þessar mundur. Ég hef ekki trú á að mörg mörk líti dagsins ljós enda varnir liðanna geysisterkar," segir Ferguson.

Til marks um öflugar varnir þá hafa liðin bæði aðeins fengið á sig eitt mark í síðustu níu leikjum eða í 27 klukkustundir.

"Ég held að Mourinho tefli fram sterku liði. Af hverju ættu hann ekki að gera það? Chelsea hefur tíu stiga forskot í deildinni og tekur á móti Birmingham í bikarkeppninni um helgina. Þetta horfir öðruvísi við hjá okkur. Við eigum bikarleik gegn Middlesbrough á laugardaginn og stórleik á móti Arsenal á þriðjudaginn svo ég geri tvær til þrjár breytingar á mínu liði," segir Ferguson.