ENSKI landsliðsmaðurinn David Beckham fagnar þeim breytingum sem Vanderlei Luxemburgo, þjálfari spænska liðsins Real Madrid, hefur gert á leikskipulagi liðsins. Luxemburgo hefur sett Beckham út á hægri vænginn á ný með danska landsliðsmanninn í varnarsinnuðu hlutverki á miðsvæðinu. Frakkinn Zinedine Zidane er vinstra megin á miðjunni og Luis Figo frá Portúgal er fremstur á miðjunni fyrir aftan tvo framherja liðsins.
Real Madrid sigraði Mallorca á sunnudaginn 3:1 og segir Beckham að hann hafi aldrei leikið betur frá því hann kom til Real Madrid.
"Þetta var besti leikurinn hjá mér í vetur og kannski sá besti sem ég hef leikið fyrir Real Madrid. Ég er vanur því að spila þessa stöðu, þessa stöðu leik ég með enska landsliðinu og það segja margir að ég leiki best á þessum stað á vellinum," segir Beckham.
Thomas Gravesen var keyptur á dögunum frá Everton og er honum ætlað að stoppa í götin á miðsvæðinu.
Beckham segir að Luxemburgo hafi lagt mikla áherslu á að bæta líkamlegt ástand leikmanna liðsins og erfiðar æfingar hans séu nú að skila sér í leikjum Real Madrid.