Málað á hurðir Meðal óvenjulegra hluta á vinnustofunni hjá Fríðu eru þessar hurðir sem hún hefur farið höndum um.
Málað á hurðir Meðal óvenjulegra hluta á vinnustofunni hjá Fríðu eru þessar hurðir sem hún hefur farið höndum um. — Morgunblaðið/Ómar Hauksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Siglufjörður | "Ég geri það sem mig langar til, til þess að hafa gaman af," segir Fríða B. Gylfadóttir á Siglufirði.

Siglufjörður | "Ég geri það sem mig langar til, til þess að hafa gaman af," segir Fríða B. Gylfadóttir á Siglufirði. Þær eru tvær vinkonur, hún og Þórunn Kristinsdóttir, með vinnustofu í gamla apótekinu og vinna að fjölbreyttri sköpun í þeim anda sem hún lýsir.

Fríða kom sér upp vinnustofu á Siglufirði fyrir um tveimur árum til að vinna að áhugamálum sínum. Það kom síðar upp að hún þurfti að losa húsnæðið og þær Þórunn ákváðu að slá saman í vinnustofu þegar þeim bauðst húsnæði í gamla apótekinu sem svo er kallað.

"Við erum með opið eftir hádegið flesta daga, alltaf þegar við getum," segir Fríða og tekur fram að allir séu velkomnir í heimsókn. Þær að vinna að áhugamálum sínum í vinnustofunni og hafa auk þess rými til að stilla upp munum til sölu. Þá standa þær stundum fyrir námskeiðum og fá kennara að, til þess að fá eitthvað ferskt eins og Fríða tekur til orða.

Eiginmennirnir fegnir

Þórunn vinnur íkonamyndir, þrívíddarmyndir og fleira sem Fríða kann ekki að segja frá. Sjálf vinnur hún einnig að fjölbreyttri listsköpun. Hún málar á hurðir, lampaskerma, boli og rekavið svo nokkuð sé nefnt. Þá klæðir hún húsgögn með dagblöðum. Segist hafa komist yfir fjölda dagblaða frá fjórða áratugnum sem voru notuð sem einangrun í hús og hafi verið að klæða þau á borð, stóla og gamla kistu og meira segja á tösku og skó. "Ég er bara að hafa gaman af hlutunum," eru einkunnarorð hennar.

Fríða segir að gaman sé að fá gesti í heimsókn og að heyra álit þeirra. Nefnir að stundum sitji fólk áfram eftir námskeið og fylgist með þeim að störfum. Þá hafi komið fyrir að þær hafi unnið úti á stétt, fyrir utan húsið, á góðviðrisdögum. Hún tekur fram að þótt einhverjir munir seljist dugi það ekki fyrir kostnaði. Þetta sé áhugamál þeirra Þórunnar og þarna fái þær útrás fyrir sköpunargleðina. "Eiginmenn okkar beggja voru fegnir að losna við okkur út af heimilunum, þetta var orðið svo plássfrekt," segir Fríða.