FRÆGÐ í listum segir vart mikið um gæði, en netmiðilinn Artfacts.net, þar sem myndlistarmönnum er raðað niður eftir vinsældum, fær daglega heimsóknir þúsunda manna sem vilja forvitnast um nýjustu hreyfingar á listanum.
FRÆGÐ í listum segir vart mikið um gæði, en netmiðilinn Artfacts.net, þar sem myndlistarmönnum er raðað niður eftir vinsældum, fær daglega heimsóknir þúsunda manna sem vilja forvitnast um nýjustu hreyfingar á listanum. Vinsældirnar byggjast ekki á sölu verka eða dómum sérfræðinga, heldur fjölda sýninga og því hversu hátt sýningarstaðirnir, þar sem verk listamannanna eru sýnd, eru metnir af miðlinum. Mannanna hendur koma ekki að röðuninni á listann, heldur reiknar tölva út einskonar vinsældavísitölu útfrá þeirri athygli sem listamennirnir njóta; þeir 100 frægustu komast á úrvalslistann.
Ólafur Elíasson í 17. sæti
Á listanum eru nöfn um 16.000 samtímalistamanna og reiknað er útfrá upplýsingum á þriðja þúsund sýningarsala, listasafna og listamessa. Listamennirnir verða að starfa á alþjóðlegum vettvangi, þ.e. starfa með galleríum eða sýna reglulega í a.m.k. þremur löndum. Síðan Artnet.net byrjaði árið 1999 að gefa út upplýsingar um vinsældir listamanna, hefur Pablo Picasso einokað toppsætið og Andy Warhol fylgt honum fast eftir. En eins og sjá má á grafi um hvern einstaka listamann, sem hægt er að kalla upp á vefnum, hafa vinsældir flestra annarra verið sveiflukenndar. Ólafur Elíasson situr nú í 17. sæti listans og tveir aðrir myndlistarmenn sem hafa átt frjó tengsl við Ísland í verkum sínum, Dieter Roth og Roni Horn, eru í 38. og 66. sæti á lista yfir 100 vinsælustu myndlistarmennina. Þá má geta þess að þýska myndlistarkonan Rosemarie Trockel, sem sýnir þessa dagana í Gerðubergi, er í 39. sæti.