Sólveig Pétursdóttir
Sólveig Pétursdóttir
VIKTOR Jústsjenko, nýkjörinn forseti Úkraínu, hélt erindi á Evrópuþinginu sem nú stendur yfir í Strassborg.

VIKTOR Jústsjenko, nýkjörinn forseti Úkraínu, hélt erindi á Evrópuþinginu sem nú stendur yfir í Strassborg. Sólveig Pétursdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, er stödd í Strassborg í Frakklandi fyrir Íslands hönd ásamt þeim Siv Friðleifsdóttur og Margréti Frímannsdóttur.

Sólveig segir það hafa verið merkilegt að sjá og hlusta á Jústsjenko sem var gríðarlega vel fagnað á þinginu. Hún segir Jústsjenko hafa lýst því yfir að nýhafið lýðræðisferli í Úkraínu myndi aldrei ganga til baka. Appelsínugula byltingin hefði tekist vegna þess að evrópsk gildi um lýðræði, réttarríki og mannréttindi hefðu verið fyrir hendi. "Hann þakkaði Evrópuráðinu sérstaklega fyrir framlag sitt til lýðræðisþróunar í Úkraínu," segir Sólveig.

Hún segir ljóst að úkraínsk stjórnvöld leggi mikla áherslu á aðild að ESB en Jústsjenko hafi bent á í ræðu sinni að aðild yrði ekki fyrr en Úkraínumenn hefðu gert hreint fyrir sínum dyrum.

"Jústsjenko var óvæginn í garð fyrrum stjórnvalda og gagnrýndi framgöngu þeirra harkalega og honum var tíðrætt um gildi mannréttinda. Hann sagðist ætla að túlka sigur sinn sem sigur lýðræðisins og hann ætlaði sér að sameina þjóðina og tryggja framgang lýðræðis og mannréttinda í landinu. En hann bað líka um aðstoð Evrópuráðsins við að byggja upp samskonar löggjöf í Úkraínu og tíðkast í Vestur-Evrópu," segir Sólveig.

Evrópuþingið hófst á mánudag og stendur fram á föstudag. Viðamikil dagskrá er á þinginu og margar athyglisverðar umræður. "Það á að ræða sérstaklega bætt samskipti Evrópu og Bandaríkjanna. Síðan verður mikil umræða um ráðstefnu þar sem á að fjalla um stöðu Evrópuráðsins gagnvart ESB og ýmsum stofnunum líkt og ÖSE," segir hún.