VIÐ vorum algjörir klaufar og sjálfum okkur verstir að tapa þessum leik," sagði Arnór Atlason, landsliðsmaður í handknattleik, þegar hann gekk af leikvelli í íþróttahöllinni í El Menzha í gærkvöldi eftir eins marks tap fyrir Slóvenum, 33:34, í öðrum leik íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í handknattleik. Eftir þessi úrslit má telja nokkuð víst að Íslendingar verði að vinna Rússa á föstudaginn til að eiga raunhæfa möguleika á að komast í milliriðla keppninnar.

Við fórum alveg hroðalega að ráði okkar í þessum leik og glopruðum honum niður vegna klaufaskapar. Það fóru fimm vítaköst í súginn hjá okkur og fjöldi opinna marktækifæra. Auk þess fengum við mörg aulamörk á okkur í vörninni sem auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir en tókst ekki. Það jákvæða fannst mér að vörnin var heldur skárri en gegn Tékkum á sunnudaginn en það dugði ekki. Við verðum að halda áfram að bæta hana til að eiga möguleika í keppninni," sagði Arnór, sem neitar að gefast upp þótt svo sannarlega sé útlitið ekki eins og best verður á kosið hjá landsliðinu nú þegar tveir leikir eru að baki.

"Við megum bara alls ekki missa okkur ofan í eitthvert þunglyndi þótt staðan sé eins og raunin er. Nú verðum við að hella okkur út í undirbúning fyrir næstu leiki og læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið, en vissulega er þetta grátleg niðurstaða í kvöld því við vorum með leikinn í hendi okkar lengst af og áttum svo sannarlega að nýta betur þá yfirburði sem við höfðum lengst af leik," sagði Arnór, sem var "ískaldur" í vítaköstunum, skoraði úr þremur í síðari hálfleik eftir að samherjar hans höfðu klúðrað fimm.

"Ég varð að prófa að taka vítaköst, það þýðir ekkert að vera banginn við það, en því miður nægðu mörkin mín ekki. Þegar menn klúðra fimm vítum í jöfnum leik er ekki á góðu von. Sóknarleikurinn var heldur ekki nógu góður í síðari hálfleik, gekk ekki eins vel og í þeim fyrri, mér fannst við vera að reyna of mikið upp á eigin spýtur, stungum boltanum of mikið niður. Það vantaði allt "flot" í sóknarleikinn," sagði Arnór.

"Við verðum að bæta varnarleikinn fyrir viðureignina við Rússa, það er alveg vonlaust að vinna leiki þegar við fáum vel rúmlega 30 mörk í hverjum leik. Nú mætum við Kúveitum á morgun og síðan Rússum í stórleik á föstudag. Framhaldið í keppninni er algjörlega í okkar höndum. Það er takmark okkar að komast í milliriðla og það verður allt lagt í sölurnar gegn Rússum til að það takist," sagði Arnór Atlason.

Ívar Benediktsson skrifar frá Túnis