Gísli Brynjólfsson fæddist á Króki í Norðurárdal 3. nóvember 1918. Hann andaðist á Landspítalanum við Hringbraut laugardaginn 15. janúar síðastliðinn og var jarðsunginn frá Fossvogskirkju 25. janúar.

Afi er dáinn. Strax í haust varð kveðjan aðeins innilegri, faðmlagið aðeins fastara. Hann vissi hvað verða vildi og var reiðubúinn. Hann var orðinn 86 ára og dó eftir stutta legu á spítala. Ævistarfinu var lokið, um það vitna sex börn, mörg barnabörn og barnabarnabörn og langt og farsælt hjónaband. Hans er sárt saknað. Hann var traustur og yfir honum einhver stóísk ró.

Gísli og Oddný voru alltaf góð við mig og ég var strax boðinn velkominn þegar við Signý fórum að draga okkur saman á fermingarárinu. Ég kveð gamlan vin með söknuði en þakka fyrir góðu stundirnar, minningarnar og allt það góða sem hann og Oddný gerðu fyrir okkur. Gísli var mikill veiðimaður og hann kom þeirri arfleifð áfram til okkar og barnanna. Hjá honum var veiðiskapurinn ekki bara dægrastytting eða sport. Uppeldið í Norðurárdal þar sem veiðiskapurinn snerist um að draga björg í bú og vinna á vargi gerði veiðimennsku að lífsnauðsyn. Alltaf þegar við komum í sælureitinn á Þingvöllum var farið niður að vatni. Þar lærðu krakkarnir mínir að veiða og miklu meira.

Mér er efst í huga göngutúrarnir sem ég átti með Gísla síðastliðin sumur um landareignina. Með miklum dugnaði hafði þeim Oddnýju tekist að rækta blómlegan garð og gott árferði skilaði ótrúlegum vexti. Líklega er það lífseigasta lífspekin að maður eigi að rækta garðinn sinn og það gerði Gísli svo sannarlega. Hugur minn er hjá Oddnýju, það er erfitt að kveðja lífsförunautinn og tómarúmið er stórt. En eftir vetur kemur vor og svo sumar og við höldum göngunni okkar áfram.

Þey, þey og ró.

Þögn breiðist yfir allt.

Hnigin er sól í sjó.

Sof þú í blíðri ró.

Við höfum vakað nóg.

Værðar þú njóta skalt.

Þey, þey og ró.

Þögn breiðist yfir allt.

(Jóhann Jónsson.)

Ingvar Á. Þórisson.