Elín Katrín Guðnadóttir fæddist í Stykkishólmi 15. mars 1945. Hún lést á LSH við Hringbraut 17. janúar síðastliðinn. Móðir hennar var Helga Guðnadóttir, f. 3. janúar 1928, d. 11. desember 1979, og fósturfaðir var Marteinn Jónasson fv. skipstjóri, f. 28. september 1916, d. 14. október 1987.

Systur Elínar Katrínar eru: Hafdís Magnúsdóttir, gift Magnúsi S. Magnússyni, börn þeirra eru Helga Bryndís og Ragnar Ingi, og Jóhanna H. Marteinsdóttir, gift Smára Hilmarssyni, börn þeirra eru Marteinn Ingi og Thelma.

Fyrri maður Elínar Katrínar var Hörður Heiðar Jónsson, þau slitu samvistir. Sonur þeirra er Bjarki Heiðar, maki Guðmunda Jónsdóttir, dætur þeirra eru; Guðný Svava, Heiðdís María og Elín Katrín.

Seinni maður Elínar Katrínar er Bjarni Gunnarsson skipstjóri. Börn þeirra eru Helgi Már, unnusta Linda Rut Svansdóttir, og Rúna Lísa.

Útför Elínar Katrínar fer fram frá Búðakirkju í Staðarsveit í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku Ella systir.

Stríðinu er lokið, hetjuleg barátta þín við krabbameinið tók ekki langan tíma. Við vissum að þetta yrði erfitt en ekki grunaði okkur að þetta yrði svona stutt, tók ekki nema sex mánuði.

Þú kenndir okkur svo margt á þessum mánuðum og síðustu vikuna lærði ég meira en á mörgum árum. Það hugrekki og æðruleysi sem þú sýndir var með ólíkindum og alltaf vissi ég hvert svarið yrði þegar ég spurði þig hvernig þú hefðir það. Svarið var ávallt: "Ég er stálslegin, það er ekkert að mér."

Þú kenndir okkur hvað það er nauðsynlegt að eiga fjölskyldu sem getur staðið þétt saman á svona stundum og í mínum huga er enginn efi að þú vildir gefa okkur þessa viku í lokin til að undirbúa okkur í sameiningu, undir styrkri stjórn Bemba. Hann stóð eins og klettur í brúnni og vék aldrei frá og bar líðan þína og okkar allra mjög fyrir brjósti.

Á meðan á veikindunum stóð misstir þú aldrei þitt einkenni sem var húmorinn. Alltaf svaraðir þú okkur með einhverju gríni eða glensi, alveg sama hversu þjáð þú varst, og reyndum við að halda þeim anda allan tímann sem við sátum hjá þér síðustu vikuna. Þú hefur örugglega verið hlæjandi að öllu þessu gríni okkar, allt þar til yfir lauk.

Þó 20 ára aldursmunur væri á okkur þá talaðir þú alltaf við mig eins og við værum jafnaldrar þó stundum segðir þú við mig að ég væri nú "lillan" af okkur systrunum og minntir mig á ýmis atvik úr bernsku þegar þú varst að passa mig, litla barnið.

Oft var glatt á hjalla þegar við systurnar þrjár, þú, ég og Hafdís, hittumst yfir kaffibolla. Þá flugu margar grínsögurnar og rifjuðum við iðulega upp ýmis prakkarastrik sem við höfðum framkvæmt saman eða hver við aðra. Þar varst þú yfirleitt fremst í flokki.

Þú tókst að þér að "reyna" að kenna mér réttu handtökin í fiskvinnslu þegar ég var ung að árum, þú vildir að ég lærði þetta því okkur væru þessi handbrögð í blóð borin. Þú varst óþreytandi að standa með mér dag eftir dag og sýna mér hvernig þetta væri gert. Ekki var nú bónusinn mikill hjá okkur það sumarið enda gekk mér ákaflega illa að ná þessum fimu handbrögðum sem þú kunnir svo vel. En ekki gafst þú upp á mér, litlu systur. Þú sagðist viss um að þetta tækist fyrir rest.

Það er mikil sorg og söknuður í hjörtum okkar allra en við ætlum að standa þétt saman og styðja hvert annað. Við Smári skulum eftir fremsta megni reyna að hjálpa Bemba og krökkunum þau þungu spor sem framundan eru.

Hetja er fallin frá, ættmóðirin sjálf eins og við kölluðum þig oft, og við hin tökum ofan og lútum höfði.

Mig langar að þakka öllu því yndislega hjúkrunarfólki og starfsfólki sem starfar á deildum 11E og 11G á Landspítalanum við Hringbraut fyrir þá góðu umönnun sem það veitti Ellu þann tíma sem hún dvaldi þar og ekki síður þá hlýju og hjálpsemi sem það sýndi okkur fjölskyldunni síðustu vikuna sem við vorum hjá henni.

Guð geymi okkur öll.

Þín systir,

Hanna Dóra.

Ella Kata er dáin, það er komin kveðjustund, nú svo löngu áður en nokkur er tilbúinn til að kveðja.

Við hugsum til baka og þökkum þær stundir sem við áttum saman og þær góðu minningar sem við eigum eftir.

Það er mikil gæfa þegar fólk finnur ástina, og eignast um leið sinn besta vin og félaga, það hlotnaðist Ellu og Bemba. Ella var svo skemmtileg og spaugsöm, hún gat alltaf kallað fram bros, og Bembi, þessi trausti klettur í hafinu, það var eins og þau löðuðu fram það besta hvort hjá öðru. Þau komu sér upp fallegu húsi í Rifi og sést þar í verki hve samhent þau voru. Þau nutu þess að búa sér og sínum notalegt heimili, þar sem gömlu góðu gildin voru í heiðri höfð. Ella naut þess að geta verið heima og snúist í kringum Bemba og börnin sín, hún bar þau öll á höndum sér, var alltaf til staðar og hugsaði fyrir öllu. Og við sem áttum leið um gátum alltaf komið við í kaffi, gott spjall og vel útilátið af brosi og bakkelsi. Það geislaði af Ellu gleðin þegar hún sagði frá afrekum krakkanna, þótt hún reyndi að setja upp alvarlegan svip þegar prakkarastrikin bar á góma, þá átti hún mjög erfitt með að leyna brosinu, hún hafði svo gaman af uppátækjunum og axarsköftunum sem þau gátu fundið upp á, fjölskyldan hennar var henni allt. Okkur var öllum brugðið í sumar þegar það varð ljóst að "ótuktin" hafði gert sig heimakomna hjá Ellu Kötu. Enn vanmáttugri erum við nú þegar Ella hefur lotið í lægra haldi fyrir þessum vágesti, þrátt fyrir hetjulega baráttu með fjölskylduna sér við hlið.

Elsku Bembi, Ella gaf þér yndislega fjölskyldu og ómetanlegar minningar sem þú átt nú eftir þegar hún hverfur á braut. Missirinn er mikill og söknuðurinn sár, en við biðjum góðan Guð að gefa öllum ástvinum Ellu styrk til að lifa með sorginni án þess að hún skyggi á góðar minningar um yndislega eiginkonu, mömmu, ömmu, tengdamömmu, systur, mágkonu, frænku en ekki síður góðan vin og skemmtilegan félaga, konu sem stóð með sínum gegnum súrt og sætt.

Ellu Kötu kveðjum við öll með söknuði og þökkum fyrir allt og allt.

Algóður Guð þín gætir nú,

hann gefur okkur styrk

og veitir öllum von og trú

er veröldin er myrk.

Hann lýsir leið á lífsins braut

og ljósið þerrar tár.

Hann sefar sorg, hann linar þraut

hann læknar hjartasár.

Hans elsku þiggjum þúsundfalt

þá ást sem felst í trú.

Við kveðjum þig og þökkum allt

þig drottni felum nú.

(Eva Ásrún Albertsdóttir.)

Tengdafjölskyldan

frá Böðvarsholti.

Nú þegar dimmasta skammdegið er að baki og daginn farið að lengja kvaddi þennan heim frænka mín og vinkona, hún Elín Katrín, eða Ella Kata eins og ég hef alltaf kallað hana. Við kynntumst sem litlar stúlkur í Hrísdal hjá ömmu minni og afa. Þar var hún um nokkurra ára skeið með móðurafa sínum, Guðna, en amma mín, hún Margrét í Hrísdal, var ömmusystir Ellu Kötu. Í heimsóknum mínum í Hrísdal var það tilhlökkunarefni að hitta frænku mína. Mér fannst hún svo skemmtileg og þá fékk ég að fara upp á loftið, þar sem hún hafði herbergi með afa sínum. Fyrir fermingu fór Ella Kata til Reykjavíkur til móður sinnar og þá slitnaði þráðurinn um þó nokkurn tíma. En alltaf vissi ég hvar hún var, þótt ekki hefðum við samband.

Aftur áttu leiðir okkar eftir að liggja saman, þegar hún kemur vestur í Staðarsveit í vinnu. Þar kynnist hún sínum góða lífsförunaut, honum Bjarna frá Böðvarsholti, og flytja þau vestur í Rif, þar sem Bjarni gerðist skipstjóri. Þar bjó hún honum og börnunum, þeim Helga Má og Rúnu Lísu, gott heimili.

Á heimili þeirra Ellu Kötu og Bemba var gott að koma. Þar var spjallað um menn og málefni og ekki kom maður að tómum kofunum hjá Ellu Kötu, hún hafði ákveðnar skoðanir og ekki síður skemmtilegar á öllu sem um var rætt. Hún hafði einstakan hæfileika til að sjá alltaf skemmtilegu hliðarnar á öllum málum, sagði skemmtilega frá og hafði svo smitandi hlátur, að allir hrifust með. Mörg voru þau kvöldin sem við töluðumst við í síma og alltaf var maður í góðu skapi þegar símtalinu lauk. Margar ferðirnar voru einnig farnar út í Rif og alltaf var maður velkominn. Þá var yndislegt að sitja í sólskálanum hjá þeim hjónum og spjalla yfir kaffibolla með Snæfellsjökul og allan fjallahringinn í kring.

Hún Ella Kata var afskaplega vinmörg og margir komu í heimsókn til hennar. Kom það til af því að hún átti svo gott með að tala við alla og var svo mikill félagi, allir fóru glaðir af hennar fundi.

En nú er skarð fyrir skildi. Ekki eru nema sex mánuðir frá því að hún greindist með illkynja sjúkdóm. Hún var því að mestu á sjúkrahúsi frá því í endaðan ágúst. Alltaf var hún vongóð og reyndi að halda í vonina um að kraftaverkið gerðist, undir niðri veit ég að hún var meðvituð um að hverju drægi.

Elsku Ella Kata, ég er þakklát fyrir þá stund, sem við áttum saman nokkrum dögum fyrir andlát þitt, þá varst þú hress, en næsta dag varst þú orðin fársjúk.

Elsku Bjarni, Rúna Lísa, Helgi Már, Bjarki og fjölskylda, þið eigið öll góðar og skemmtilegar minningar um ykkar elskulegu eiginkonu, móður, systur, ömmu og vin, sem mildar ykkur sorgina og verður ykkur ljós á veginum framundan.

Kæra frænka, hafðu þökk fyrir allt og guð geymi þig.

Gréta.

Elsku Ella frænka.

Það er svo margt sem ég get skrifað til minningar um þig.

Ég man svo vel eftir þegar ég fór stundum til þín á sumrin þegar ég var yngri og var hjá ykkur í viku eða svo. Þá var nú margt sem við gerðum saman, þú og ég. Fórum í búðina, skoðuðum kríurnar, fórum í bíltúra, berjamó og margt fleira.

Þú sýndir mér Rif og sveitina alla og fræddir mig um alla mögulega hluti.

Þú varst alltaf svo hress og skemmtileg og hafðir gaman af öllu gríni og glensi. Alltaf þegar þú hringdir heim og ég svaraði, þá spurðir þú mig hvað væri að frétta af mér, hvað ég væri að gera og hvernig gengi. Þú hafðir áhuga á því öllu. Ég á alltaf eftir að sakna þín.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Þín systurdóttir,

Thelma.

Ég trúi varla að þú sért farin en nú ertu komin á betri stað. Seinustu mánuðir hafa verið erfiðir og lítið um gleðidaga og því þakka ég fyrir stundirnar sem við áttum saman annan í jólum. Ég man þegar ég var yngri og kom alltaf vestur á sumrin til ykkar. Mér fannst Rif vera nafli alheimsins, og þegar það kom að því að fara aftur heim vildi ég það engan veginn. Ég þakka fyrir allar samverustundirnar og ferðalögin sem ég fór með ykkur í. Mér finnst svo sárt að hugsa til þess að sjá þig ekki aftur og sakna þín gífurlega.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Ég elska þig að eilífu. Þín systurdóttir,

Helga Bryndís.

Í dag kveðjum við góða vinkonu og samstarfskonu Elínu Katrínu Guðnadóttur sem lést 17. janúar sl. eftir stutta en erfiða sjúkdómslegu.

Ella Kata hóf störf hjá Sjávariðjunni Rifi sumarið 1997 og setti hún fljótt mark sitt á andrúmsloftið með sinni einstöku glaðværð. Hún hafði góða kímnigáfu og hafði alltaf hnyttnar athugasemdir og tilsvör á reiðum höndum.

Á kaffistofunni sem og annars staðar var hún hrókur alls fagnaðar. Hún hafði brennandi áhuga á þjóðmálum, fylgdist vel með og hafði ákveðnar skoðanir. Hún vildi hag sinnar heimabyggðar sem mestan og lét sig varða það sem þar var efst á baugi hverju sinni. Deilur og þras var ekki að hennar skapi og beitti hún sér fyrir sáttum ef svo bar undir.

Sumarið 1999 dvöldu hjá okkur daglangt franskir kvikmyndagerðarmenn sem voru að gera heimildarmynd um Halldór Laxness. Beindu þeir vélum sínum oftast að Ellu Kötu og í myndinni líkja þeir henni við Sölku Völku. Þessi minnig yljar okkur nú um hjartarætur.

Síðasta samverustund okkar með henni var í óvissuferð fyrirtækisins sl. sumar inn í eyjar. Þar lék Ella Kata á als oddi, sagði gamansögur og reytti af sér brandara.

Ella Kata tók veikindum sínum af miklu æðruleysi og þótt hún sjálf væri fársjúk síðustu vikur var henni umhugað um hvernig aðrir hefðu það.

Við þökkum Ellu Kötu samfylgdina og samstarfið, hennar verður sárt saknað.

Elsku Bembi, Helgi Már, Rúna Lísa og aðrir aðstandendur, megi Guð vaka yfir ykkur og veita ykkur styrk á erfiðum tímum.

Samstarfsfólk

Sjávariðjunni Rifi hf.

Elsku Ella Kata.

Ég vil kveðja þig með fáeinum orðum og þakka þér fyrir allar samverustundirnar. Þú varst svo mikið hjá okkur hjónum í Stykkishólmi, til að hjálpa mér að passa börn, fara í sendiferðir og bara vera hjá mér, því vegna vinnu eiginmanns míns var ég oft ein með vaxandi barnahóp. Þú varst ekki gömul þegar þú komst fyrst, tæplega 10 ára, og svo af og til fram að unglingsárunum. Okkur þótti gott að hafa þig svona stálpaða stelpu og þú varst sannur gleðigjafi, alltaf í góðu skapi og alltaf til í smáprakkaraskap. Ég man þegar ég sendi þig og Þuríði vinkonu þína með nesti í beitiskúrinn til bónda míns, þá var nú hugmyndaflugið í lagi og voru karlarnir í skúrnum lengi hlæjandi á eftir og höfðu á orði að þessar litlu hnátur yrðu einhvern tímann miklar valkyrjur.

Ég þakka þér allar heimsóknirnar þegar þið Hörður bjugguð í Grundarfirði og þú keyrðir leigubíl. Ég veit að líf þitt var ekki alltaf dans á rósum, en þú gast alltaf fundið eitthvað til að hlæja að, þú varst manneskja sem gast fengið mann til að líta á lífið frá öðru sjónarhorni en venja er.

Við urðum góðar vinkonur og áttum sameiginlegt aðhlátursefni sem aldrei var leiðigjarnt. Eftir lát þitt náði ég í myndirnar sem ég tók í síðustu heimsókn minni til þín í Rif. Þar situr þú í fallega blómaskálanum þínum, með blómstrandi rósir allt í kringum þig, og þannig mun ég ætíð minnast þín.

Ég bið Guð á himnum að blessa Bjarna eiginmann þinn og börn. Vertu sæl frænka mín.

Elín Sigurðardóttir, Stykkishólmi.

Nú samvist þinni ég sviptur er;

- ég sé þig aldrei meir!

Ástvinirnir, sem ann ég hér,

svo allir fara þeir.

Ég felli tár, en hví ég græt?

Því heimskingi ég er!

Þín minning hún er sæl og sæt,

og sömu leið ég fer.

Já, sömu leið! En hvert fer þú?

Þig hylja sé ég gröf;

þar mun ég eitt sinn eiga bú,

um ævi svifinn höf.

En er þín sála sigri kætt

Og sæla búin þér?

Ég veit það ekki - sofðu sætt!

- En sömu leið ég fer.

(Kristján Jónsson fjallaskáld.)

Góða ferð, elsku vinkona mín. Megi guð og góðir englar vernda þig og taka vel á móti þér í nýjum heimi.

Elsku Bembi, Rúna Lísa, Helgi og Bjarki, innilegar samúðarkveðjur frá okkur.

Guðbjörg Þórdís

og John Cassidy.

Elsku Ella Kata.

Við þökkum þér allar skemmtilegu stundirnar á liðnum árum.

Þótt ég sé látinn, harmið mig

ekki með tárum, hugsið ekki um

dauðann með harmi eða ótta. Ég er

svo nærri, að hvert eitt tár ykkar

snertir mig og kvelur, þótt látinn

mig haldið. En þegar þið hlæið og

syngið með glöðum hug, lyftist sál

mín upp í mót til ljóssins. Verið glöð

og þakklát fyrir allt sem lífið gefur

og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði

ykkar yfir lífinu.

(Kahlil Gibran.)

Drottinn minn

gefi dauðum ró,

hinum líkn, er lifa.

(Úr Sólarljóðum.)

Elsku Bembi, börn og fjölskylda, megi Guð veita ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Ykkar vinir,

Sigrún og Sigfús.

Elsku Ella Kata.

Við þökkum þér fyrir allt.

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert

bresta. Á grænum grundum lætur hann mig

hvílast, leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð

frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég

langa ævi.

(23. Davíðssálmur.)

Kæri Bembi og aðrir ástvinir, megi Guð styrkja ykkur í sorginni.

Hafdís Berg og fjölskylda.