Kristbjörg Lukka Jónsdóttir fæddist í Hólalandshjáleigu í Borgarfirði eystra 8. mars 1925. Hún lést í Neskaupstað 26. desember síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Egilsstaðakirkju 6. janúar.
Elsku besta amma mín.
Mig langar til að minnast þín í nokkrum línum.
Á jóladagskvöld þegar þú bauðst mér góða nótt hefði ekki hvarflað að mér að það væri í síðasta sinn sem þú myndir gera það.
Þú ætlaðir að vera hjá okkur fram í miðjan janúar og ég hélt því að ég ætti eftir að bjóða þér góða nótt í mörg skipti og eyða mörgum góðum stundum með þér en þá slokknaði ljósið þitt.
Ó, Jesús, séu orðin þín
andláts síðasta huggun mín.
Sál minni verður þá sælan vís
með sjálfum þér í paradís.
(Hallgrímur Pétursson.)Elsku besta amma mín.
Þegar ég lít til baka koma upp í huga mér allar góðu minningarnar um þig og allar góðu stundirnar sem við áttum saman.
Þú varst ávallt með spil í hendi og kenndir mér nánast alltaf nýtt spil eða nýjan kapal þegar ég kom til þín í Faxatröðina. Þegar við gistum hjá þér var vani að spjalla fram á nótt og stundum fékk maður að vaka lengur, svo voru Doddabókin og doppótti svefnpokinn sótt og farið í bólið.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
(Vald. Briem.)
Elsku besta amma mín.
Það eru svo margar góðar stundir sem við áttum saman sem eru mér efst í huga á þessum erfiða tíma. Allar stundirnar á Faxatröðinni, þegar ég var að koma austur í heimsókn, okkar síðustu jól saman, allt spjallið okkar og svo ótal margt sem ég geymi með sjálfri mér og varðveiti vel í hjarta mínu.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson.)
Elsku besta amma mín.
Ég vil kveðja þig með þessum línum og mun ljós þitt lýsa mér um alla framtíð, þín er sárt saknað.
Þín ömmustelpa,
Ásdís Fjóla.