Elín Katrín Guðnadóttir fæddist í Stykkishólmi 15. mars 1945. Hún lést á LSH við Hringbraut 17. janúar síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Búðakirkju í Staðarsveit 26. janúar.

Hún Elín Katrín tengdamóðir mín var svo ung í anda og alltaf hress og kát. Alltaf jákvæð. Hafði þó sterkar skoðanir á hlutunum, sérstaklega þegar pólitík bar á góma. Hún hafði yndi af blómarækt, rósir voru í miklu uppáhaldi. Hún safnaði líka gömlum munum af mikilli ástríðu. Blóma- og antíkverslanir voru oft heimsóttar þegar komið var í bæinn. Hún viðaði að sér hlutum sem aðrir hefðu keyrt á haugana. Gerði þá síðan upp svo unun var á að horfa. Eldhúsinnréttingin í Háarifinu er t.d. að stórum hluta úr gamalli innréttingu sem átti að henda fyrir tæpum áratug. Við rifjum það oft upp þegar Ella og Bembi keyrðu með hana vestur á kerru, ásamt stórum gömlum skáp sem líka átti að farga. Hann er stofustáss í dag. Eða þegar stóra öspin var felld í garðinum hér í Mosó. Ella fékk vægt áfall í símanum þegar ég sagði henni frá því, enda tréð mjög fallegt og í miklu uppáhaldi hjá henni. Í dag eru nokkrir afleggjarar af þessu tré búnir að skjóta sterkum rótum á Rifi. Það er margs að minnast, nú þegar kveðjustundin er runnin upp alltof fljótt. Í anda Ellu er þó ekki við hæfi að velta sér of lengi upp úr hlutunum. Það sem við, sem næst henni stöndum, verðum þó ævarandi þakklát fyrir, er samveran um jólin sem má segja að hafi verið hennar stærsta gjöf til okkar allra. Í ljósi þess hversu veik hún var síðustu dagana fyrir jól var það nánast kraftaverk hvað hún var hress um hátíðarnar. Svo kom kallið og við syrgjum góða konu.

Elsku Bembi, Rúna og Helgi. Ykkar er missirinn mestur og sorgin sárust. Megi allar góðir vættir hjálpa ykkur að feta lífsins braut án Ellu okkar. Hún nafna hennar litla lagði hönd á hjartastað í morgun og sagði: Amma Ella verður alltaf hjá mér, hérna í hjartanu og þá get ég talað við hana þegar ég vil! Blessuð sé minning Elínar Katrínar. Hafi hún þökk fyrir allt og allt.

Guðmunda.