BBQ-sósan sem mun breyta lífi þínu

Til er sú sósa sem þykir svo góð að skammtar af henni eru seldir á fúlgur fjár og heyrst hefur af mönnum keyra landshluta á milli til að verða sér út um smá slettu af henni. Sósa þessi kemur frá matreiðslumanninum Völundi Snæ Völundarsyni og er afbrigði af sósu sem gekk manna á milli í Chicago seint á síðustu öld.

Það tekur töluverðan tíma að sjóða sósuna en útkoman er vel þess virði. Margar sögur tengjast þessari goðsagnarkenndu sósu og einhverju sinni á Bahama-eyjum varð allt vitlaust og býflugur reyndu að brjóta sér leið inn í eldhúsið þar sem verið var að sjóða sósuna, svo indæll var ilmurinn. Það hefur þó ekki gerst hér á landi og því öruggt að sjóða hana í íslenskri sveit.

Marokkógrillsósa

  • 2 kanilstangir
  • 1 stjörnu-anís, heill
  • 1 tsk. heil kardimommufræ
  • 1 tsk. heilir negulnaglar
  • 1 msk. blandaður heill pipar
  • 1 tsk. múskat
  • 1 tsk. malað kóríander
  • 1 bolli hrísgrjónaedik
  • 1 hvítlauksgeiri, flysjaður og grófhakkaður
  • 1 msk. flysjað og rifið ferskt engifer
  • 1 ½ tsk. hvítlauks-chilisósa
  • 2 ½ bolli hunang
  • ½ bolli sojasósa
  • 1 bolli tómatsósa
  • ½ bolli söxuð fersk flatblaðasteinselja
  • ¼ bolli ferskur límónusafi

Aðferð:

  1. Hitaðu pönnu að miðlungshita.
  2. Settu kanil, stjörnu-anís, kardimommur, negul, pipar, múskat og kóríander á pönnuna og hitaðu vel í eina mínútu til að rista kryddin.
  3. Bættu ediki, hvítlauk, fersku engiferi, hvítlauks-chilisósu, hunangi, sojasósu, tómatsósu, steinselju og límónustafa saman við og láttu suðuna koma upp.
  4. Lækkaðu hitann niður í miðlungshita og láttu malla í 20-30 mínútur þar til soðið hefur niður um 2/3. Sósan á þá að hafa karamellukennda áferð.
  5. Síaðu gegnum fínt sigti í ílát. Ef þú notar ekki alla sósuna geymist hún í allt að viku í ísskáp.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: