Súkkulaðikaka með saltkaramellukremi

Þær verða ekki mikið girnilegri en þessi súkkulaði og saltkaramelluboma.
Þær verða ekki mikið girnilegri en þessi súkkulaði og saltkaramelluboma. Eggert Jóhannesson

Dagbjört er 3 barna móðir í Norðlingaholti, kennari í 20 ár sem söðlaði um í sumar og tók við starfi rekstrarstjóra í kökusjoppunni 17 Sortir á Grandanum. Helstu áhugamál eru að prjóna, elda góðan mat og baka. „Að baka og elda veitir ákveðna hugarró og ekki skemmir að afraksturinn gleður aðra," segir Dagbjört sem deilir hér með okkur einni af sinni uppáhalds hnallþórum.  „Ég ætla að deila með ykkur súkkulaðibombu með saltkaramellu. Þessa er tilvalið að bjóða uppá í saumaklúbbnum eða í afmæli. Hún er dásamlega góð ein og sér og einnig má bera hana fram með rjóma.“

Þú bjóst í Danmörku – er einhver uppskrift eða matarkyns sem þú saknar þaðan? „Ekta danskur "forkost" er eitthvað sem ég sakna stundum. Ein af jólahefðununum mínum er dönsk, vinkona mín og ég hittumst alltaf einn eftirmiðdag rétt fyrir jól með börnum og mökum, bökum ekta danskar eplaskífur og hitum jólaglögg (æbleskiver og julegløgg).“
 
Af hverju þarf að huga að loftþrýsting við bakstur?
„Það á eingöngu við um makkarónubakstur en þær á helst ekki að baka þegar lægð liggur yfir landinu. Ég fór á námskeið hjá Auði Ögn í makkarónubakstri og þarf var komið inná þetta að eggjahvíturnar eigi það til að haga sér ekki sem skildi í þessum veðurskilyrðum. Hvort sem það er mýta eða ekki, við tökum allavega ekki sénsinn.“
 
Hvað finnst þér skemmtilegast að baka?
„Það er eiginlega sama hvað er, mér finnst gaman að baka allt, nema kannski smákökur, það hefur ekki alveg verið mín deild einhverra hluta vegna.“ 

Hvað verður í tísku í jólabakstrinum í ár?
„Smákökurnar eru alltaf sígildar, pipalakkrísinn er voða "inn" núna svo ég held að það verði nokkuð um uppskriftir með piparlakkrís. Einfaldar uppskriftir sem er auðvelt að baka og jafnvel tilbúið kökudeig verður vinsælt.“

Súkkulaðikaka

2 bollar hveiti

2 bollar sykur

2/3 bollar kakó

2 tsk. matarsódi

1 tsk. lyftiduft

1 tsk. salt

2 egg

1 bolli súrmjólk

1 bolli svart kaffi, heitt

½ bolli olía

1 msk. vanilludropar

Hitið ofninn í 180 °C.

Þeytið saman egg og sykur.

Sigtið restina af þurrefnunum saman í skál og blandið með sleif. Bætið þurrefnunum, súrmjólkinni, kaffinu og olíunni út í eggjahræruna, blandið vel saman. Setjið í tvö form (þrjú minni) og bakið í 25-30 mín.

Saltkaramellusósa

1 bolli sykur

6 msk. smjör

½ bolli rjómi

1-2 tsk. sjávarsalt

Bræðið sykurinn í potti við miðlungshita. Hitið þar til sykurinn hefur alveg bráðnað og tekið örlítið brúnan lit. Hrærið smjörinu saman við sykurinn og blandið vel. Bætið rjómanum og saltinu saman við og hrærið vel. Látið malla smástund í pottinum þar til karamellan þykknar örlítið, passið samt að blandan þykkni ekki of mikið. Takið af hitanum, setjið í krukku eða skál og látið kólna vel.

Saltkaramellukrem

1½ bolli lint smjör

5 bollar flórsykur

2 tsk. vanilla

2-3 msk. rjómi

½ bolli saltkaramellusósa

Þeytið smjörið þar til það er létt og ljóst, bætið flórsykrinum, vanillunni, rjómanum og saltkaramellusósunni út í smjörið og þeytið vel saman.

Setjið krem á milli botna og smyrjið kökuna með kremi, hellið restinni af saltkaramellusósunni yfir kökuna.

Kakan er best við stofuhita.

Dagbjört Þorsteinsdóttir ástríðubakari og rekstrarstjóri kökusjoppunnar 17 Sortir.
Dagbjört Þorsteinsdóttir ástríðubakari og rekstrarstjóri kökusjoppunnar 17 Sortir. Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert