Mintuostakökukonfekt

Súkkulaðikonfekt fyllt með minturjómaostakremi.
Súkkulaðikonfekt fyllt með minturjómaostakremi. Eggert Jóhannesson

Nafnið á þessari dásemd er kannski langt en það tekur ekki langan tíma að útbúa þessa bragðmiklu mola. Það er tóm sæla að eiga þá í frystinum þegar gesti ber að garði og slá aðeins um sig með heimagerðu konfekti. Hvort sem er með kaffinu eða hvítvínsglasi – þá klikkar þessi ekki. Sláið svo endilega um ykkur og instagrammið þessi bjútí! @maturámbl.is

Innihald – gefur um 20-25 mola

200 g suðusúkkulaði
150 g þéttur og góður rjómaostur við stofuhita
1 tsk. piparmintudropar
2 msk. hunang

Hrærið rjómaostinum, hunanginu og piparmintudropum vel saman. Setjið fyllinguna í sprautupoka og inn í kæli. Það er auðveldara að vinna með fyllinguna þegar hún er köld.

Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði.

Setjið súkkulaði í botn konfektmótanna með skeið. Gott er að reyna að fá örlítið súkkulaði upp á hliðarnar í mótinu með því að velta mótinu til. Kælið mótin og látið súkkulaðið storkna.

Þegar súkkulaðið hefur storknað er fyllingunni sprautað í mótið. Varist að setja of mikið. Ef fyllingin nær of mikið út í hliðarnar verður erfitt að „loka“ molanum. Kælið aftur í stutta stund.

Fyllið mótið með súkkulaði og kælið aftur.

Borðið, gefið, sláið um ykkur og instagrammið þessi bjútí! @maturámbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka