Hollara marsípan-konfekt

Heilnæmt jólakonfekt sem bragð er af.
Heilnæmt jólakonfekt sem bragð er af. http://lifdutilfulls.is/

Júlía Magnúsdóttir heilsumarkþjálfi kennir vinsæl námskeið í gerð jólakonfekts og góðgætis. Hér er ein af hennar auðveldu og vinsælu uppskriftum. Nánar má sjá um námskeiðin hér en næsta námskeið verður á Akureyri.

„Þetta dásemdarkonfekt er fullkomið til þess að njóta með vinkonum og skapa minningar á góðum kvöldstundum! Í marsípanmolana nota ég nóg af lífrænum vanilludropum og sætugjafa frá hlynsírópi en einnig má skipta því út fyrir hráan kókospálmanektar (raw coconutnectar).“

Ef afhýddar möndlur eru ekki til má afhýða þær sjálf/ur.
Ef afhýddar möndlur eru ekki til má afhýða þær sjálf/ur. lifdutilfulls.is

Marsipan:

2 bollar lífrænar möndlur án hýðis, malaðar (500 ml)

4 msk. hlynsíróp eða hrár kókospálmanektar

1 msk. lífrænir vanilludropar

Súkkulaðikrem:

4 msk. kakó

1/4 bolli kókosolía

4 dropar stevia

Til þess að falleg hvít áferð náist er mikilvægt að nota afhýddar möndlur. Ef þær fást ekki keyptar er auðvelt að leggja möndlur með hýði í bleyti í 8 klst eða yfir nóttu, skola svo af þeim, kreista hýðið af og þerra örlítið.  Byrjið á að mala afhýddu möndlurnar í blandara eða kaffikvörn í fínt mjöl. Bætið sætugjafa og vanilludropum saman við þar til þétt marsípandeig myndast. Notið fingur til að mynda kúlur.

Útbúið súkkulaði með því að hræra öllu saman í blandara eða potti. Mikilvægt er að kókosolían sé í fljótandi formi hvort sem kókosolíukrukkan er lögð í heitt vatnsbað eða brædd í potti. Einnig má kaupa dökkt súkkulaði t.d. sætað með steviu og bræða í potti.

Dýfið marsípankúlunum í súkkulaðið (ég nota skeið og fingur) og rúllið strax upp úr pistasíuhnetum eða kókosmjöli. Setjið á disk og geymið í kæli í hálftíma áður en þær eru borðaðar.

Girnilegar jólakúlur sem gleðja og seðja.
Girnilegar jólakúlur sem gleðja og seðja. lifdutilfulls.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka