Matarást fyrirsætu og fótboltastjörnu

Jennifer Berg er töfrakona í eldhúsinu.
Jennifer Berg er töfrakona í eldhúsinu. Jennifer Berg/mbl

Jennifer Berg er mögulega einn flottasti matarbloggari sem á fjörur okkar hefur rekið. Réttirnir eru allir hver öðrum girnilegri og myndatakan og framsetningin mjög til fyrirmyndar. Matarást Jennifer er greinilega mikil og þegar við höfðum samband við hana og lögðum fyrir hana verkefni Comfort food eða Huggunarfæða þá fór af stað mikill spuni. Svo mikill reyndar að undirrituð átti bágt með sig, svo girnilegt var úrvalið. Að lokum ákvað Jennifer að bjóða lesendum Morgunblaðsins upp á humar lokur með hrásalati og flögum. Þemað Comfort food er einmitt ríkjandi í sérblaði Matarvefsins sem fylgir Morgunblaðinu á morgun.

Hundurinn Knútur tekur á móti blaðamanni þegar ég mæti í heimsókn á heimili hennar á eftirmiðdegi nú í febrúar. Jennifer heilsar mér brosandi og spyr hvort ég sé hrædd við hunda. Ég fullvissa hana um að svo sé ekki og Knútur fær gott klapp. Mér er boðið inn og þar er kærasti Jennifer, fótboltakappinn Skúli Jón Friðgeirsson. Hann er upptekinn við að elda sér egg og ég dáist í huganum að því hvað þau eru heimilisvanin og indæl.

Ég viðurkenni að ég er forvitin. Ég hef séð Jennifer bregða fyrir í tímaritum enda starfar hún sem fyrirsæta og þegar ég áttaði mig á því að hún eldar af ástríðu, tekur myndirnar sjálf, er hluti af Trendnet og heldur úti gríðarlega öflugu bloggi sem nýtur mikilla vinsælda í heimalandi hennar Svíþjóð varð ekki aftur snúið.

Jennifer deilir uppskrift af humarlokum og heimagerðum kartöfluflögum hér að …
Jennifer deilir uppskrift af humarlokum og heimagerðum kartöfluflögum hér að neðan. Jennifer Berg/mbl.is

Féll fyrir íslenskum fótboltakappa

Jennifer er sænsk og taílensk og ólst upp í bænum Borás. Þar lágu leiðir hennar og Skúla saman þegar hann var í atvinnumennsku þar en aðspurð hvort það hafi verið ást við fyrstu sýn segja þau að svo hafi ekki verið. Þau hafi kynnst fyrst og síðan hafi eitt leitt af öðru. Það var síðan fyrir tveimur árum að þau fluttu til Íslands sem Jennifer segir að sé frábært, fyrir utan kuldann. Ég bendi henni á að síðasta sumar hafi nú verið frábært en hún horfir á mig eins og ég sé ekki með réttu ráði. Hún er samt of kurteis til að segja það upphátt.

Hún hefur þó ekki fest rætur hér því hún er stanslaust á ferð og flugi vegna starfa sinna og mun síst draga úr því á næstunni þar sem hún skrifaði nýverið undir samning við stóra umboðsskrifstofu í Bandaríkjunum.

„Ég er bara að bíða eftir því að fá græna kortið. Um leið og það er komið í gegn get ég farið að vinna þar,“ segir Jennifer og er að vonum ánægð. Nú þegar hafi fyrirspurnir borist vegna hennar og því ekki annað í kortunum en að það eigi eftir að ganga vel. „Sem þýðir að ég verð að fara að drífa mig í ræktina, segir hún hlæjandi og ég spyr hvort hún þurfi að hafa mikið fyrir því að halda sér í réttri stærð og á ég þar við uppgefin mál hjá umboðsskrifstofunni. „Ég er ekki horrengla,“ svarar Jennifer að bragði. „Ég elska að borða góðan mat og verð að vera dugleg í ræktinni. Ég viðurkenni að ég er minnst hrifin af heilsufæði. Uppáhaldið mitt er nautakjöt. Rétt eldað og temmilega blóðugt,“ svarar hún og Skúli kinkar kolli. Það er greinilegt að þau deila mikilli matarást. Hún segist jafnframt ánægð með matarsenuna hér á landi og þau séu dugleg að fara út að borða. „Við ætlum á Grillið um helgina. Við höfum aldrei farið þangað áður,“ segir hún brosandi en bætir við að þau séu dugleg að prófa nýja staði sem eru opnaðir en eigi vissulega sína uppáhaldsstaði sem þau haldi tryggð við.

Kvöldmatur um miðjan dag

Matarástin kviknaði þegar hún flutti að heiman og fór að gera tilraunir með að elda sjálf. Það hafi undið upp á sig og hún viti fátt skemmtilegra en að bjóða vinum í mat. Skúli er greinilega sammála en kvartar þó undan oft óvenjulegum matmálstímum á heimilinu. „Hún vill alltaf mynda matinn yfir daginn til að lýsingin sé sem náttúrulegust. Það þýðir að kvöldmaturinn er oft tilbúinn um miðjan daginn sem er alls ekki nógu gott,“ bætir Skúli við og þau hlæja bæði að þessu. Það er nefnilega mikill metnaður lagður í myndatökur á bloggi Jennifer og hún veit greinlega alveg upp á hár hvað hún er að gera. Fæstir átta sig nefnilega á því að það er alls ekki allra að taka góðar matarmyndir en fallegar myndir eru lykilatriði í að koma matnum til skila. Og það er einmitt það sem Jennifer er afburðaflink í. Bloggið hennar staðfestir það og ég spyr hvort það sé ekki bók í vændum. Hún yppir öxlum og segir að það væri vissulega gaman. Það sé aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.

Reiprennandi á barnum

Hvað framtíðina varðar segir Skúli að þau séu óviss. Störf Jennifer valdi því að þau séu á ferð og flugi og sjálfur sé hann samningslaus í haust. Þau virðast temmilega afslöppuð yfir þessu og eru greinilega til í að skoða allt.

Ég get samt ekki staðist freistinguna og spyr hvernig gangi að læra íslenskuna. Jennifer roðnar og segist skilja nánast allt en hún sé feimnari við að tala. „Nema þegar ég fer á barinn. Þá allt í einu tala ég frábæra íslensku og allir eru svakalega hissa,“ segir hún en sín á milli tala þau Skúli saman á sænsku. Og hundurinn Knútur? Hann er tvítyngdur og greinilega hæstánægður með lífið. 

Að lokum deilir Jennifer með okkur djúsí uppskirft af humarlokum með kartöfluflögum og salati.

Hrásalatið fer ofan á humarlokurnar sem eru bornar fram með …
Hrásalatið fer ofan á humarlokurnar sem eru bornar fram með djúsí heimagerðum flögum. Jennifer Berg/mbl.is

Humar­lok­ur með hrásal­ati og kartöfluflögum

Fyr­ir sex

600 g hum­ar
smjör til steik­ing­ar
4 hvít­lauks­geir­ar, kramd­ir
6 bri­oche-brauð eða pylsu­brauð. Skorið eft­ir endi­löngu til að fá slétt yf­ir­borð beggja meg­in.

Hrásal­at:
250 ml maj­ónes
2 msk. fersk­ur sítr­ónusafi, smakkið til.
3 sell­e­rístilk­ar, skorn­ir í bita
2 súr­ar gúrk­ur, frek­ar stór­ar, skorn­ar í bita
½ hvít­ur lauk­ur, skor­inn niður
¼ hvít­káls­haus, skor­inn niður
börk­ur af ½ sítr­ónu
salt eft­ir smekk
graslauk­ur, saxaður niður

Kart­öflu­f­lög­ur:
10 kart­öfl­ur
3 l af köldu vatni
½ dl hvítt edik
1 l steik­ingarol­ía
salt og paprika, kryddið eft­ir smekk

Aðferð:
1. Byrjið á hrásal­at­inu: Blandið sam­an í stóra skál káli, sell­e­ríi, súr­um gúrk­um, lauk, sítr­ónu­berki, maj­ónesi, sítr­ónusafa og salti. Geymið í kæli.

2. Kart­öflu­f­lög­ur: Afhýðið kart­öfl­urn­ar. Ég mæli með því að þið notið mandó­lín til að ná sneiðunum mjög þunn­um. Setjið vatn í stóra skál og blandið ed­ik­inu sam­an við. Hafið sneiðarn­ar í vatn­inu í a.m.k. 30 mín­út­ur.

3. Hitið ol­í­una upp í 185 gráður í stór­um og djúp­um potti. Olí­an ætti að fylla um 1/​3 af pott­in­um. Hellið vatn­inu af kart­öflu­f­lög­un­um og steikið í pott­in­um í litl­um skömmt­um. Steikið uns flög­urn­ar eru orðnar gyllt­ar, takið þær þá upp úr og leggið á eld­húspapp­ír. Steikið all­ar flög­urn­ar með þess­um hætti. Setjið þær í stóra skál og kryddið með salti og paprikukryddi.

4. Steikið humar­inn upp úr miklu smjöri og hvít­lauk í pönnu á meðal hita. Steikið aðeins í nokkr­ar mín­út­ur þar sem humar­inn eld­ast hratt. Setjið humar­inn á disk.

5. Hitið stóra pott­járn­spönnu á miðlungs­hita. Penslið brauðið að utan með smjöri og steikið á pönn­unni uns brauðin hafa tekið á sig fal­lega gyllta áferð.

Sam­setn­ing:
Setjið smá­veg­is hrásal­at í hvert brauð. Setjið humar­inn ofan á og bætið ör­litlu hrásal­ati ofan á aft­ur. Skreytið með graslauk og berið fram með kart­öflu­f­lög­un­um.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert