Japönsk matseld vefst fyrir mörgum sem sjá fyrir sér ógnarflóknar samsetningar á ofur-smart réttum. Hins vegar er japönsk matargerð í grunninn mjög einföld og hafa verið skrifaðar margar sniðugar bækur um það en ein af okkar uppáhalds er bókin Japanskar konur hraustar og grannar sem kom út hér á landi fyrir nokkrum árum. Hún fjallar um japanska heimilsmat og hvernig japanskar konur færu að því að vera svona hraustar og grannar.
Það sem var sérlega áhugavert eru allar sósurnar sem við kaupum oftar en ekki tilbúnar út í búð en er sáraeinfalt að gera. Uppistaðan í sósugerðinni er meðal annars Mírin sem er japansk hrísgrjónavín og fæst víða í austurlenskum deildum matvöruverslanna. Mírin inniheldur lægra magn alkóhóls en hærra sykurmagn en Sake sem dæmi. Ef þú getur ekki fundið Mírin þá geturðu notað í staðinn 2 tsk hrísgrjónaedik með 1 tsk sykri út í.
Hér er heimalöguð útgáfa af sígildum japönskum rétti. Það er svo auðvelt að laga ferska teriyaki sósu að við efumst um að þú munir nokkurn tíman kaupa hana tilbúna út í búð aftur.
Teriyaki fiskur
Fyrir fjóra
4 stk. 100 gr. flök (hvert um sig um 1½ sm. að þykkt) af laxi eða lúðu.
1 msk canola olía eða hrísgrjónaklíðs olía
Kryddlögur
2 msk. sakí
4 tsk. saltskert soya sósa
Teriyaki sósa
¼ bolli mírin
2 msk saltskert soya sósa
1 tsk. hrásykur
- Kryddlögurinn er búinn til með þvi að blanda saman sakí og soya sósu á grunnan disk. Leggið fiskibitana á diskinn (látið roðið snúa upp ef þið notið fisk með roði eins og t.d. lax) og látið liggja í 10 mínútur.
- Lagið teriyaki sósuna með því að blanda saman mírin, soya sósunni og sykrinum í litla skál. Blandið vel saman þar til sykurinn er uppleystur.
- Hitið olíuna á stórri pönnu á miðlungshita. Þerrið fiskibitana með eldhúspappír til að þurrka burt allan umfram kryddlög. Setjið fiskinn á pönnuna (látið roðið snúa niður ef þið notið fisk með roði) og steikið í fimm mínútur. Snúið bitunum við og steikið í eina mínútu til viðbótar.
- Setjið fiskinn á stóran disk (hann mun halda áfram að eldast í teriyaki sósunni) og fjarlægið roðið.
- Þurkið alla olíu af pönnunni með eldhúspappír og stillið aftur á miðlungshita. Setjið teriyaki sósuna á pönnuna, látið sjóða og lækkið hitann og láið malla í eina mínútu. Bætið fiskinum saman við. Hallið pönnunni lítillega til að ná umfram sósunni í teskeið og hellið yfir fiskinn. Eldið í eina mínútu eða þar til fiskurinn er orðin gegnsteiktur.
- Setjið fiskibitana á diska og hellið heitri teriyaki sósunni yfir.