Bara nafnið á þessari dásemd ætti að fá meðalhjartað til þess að slá örar. Uppskriftin er fremur einföld og bráðholl og ekki spillir fyrir að brauðið er 100% vegan. Reyndar er boðið upp á hefðbundnari útgáfu þannig að þið stjórnið þessu sjálf. En mitt í öllu súkkulaðiátinu er þetta sem vin í eyðimörkinni. Dásamlega bragðgott og algjörlega ómótstæðilegt.
Uppskriftin er fengin frá blogginu Nadias Healty Kitchen sem er í miklu uppáhaldi. Þar er að finna urmul hollustuuppskrifta en höfundur þess hefur notað fæðuna til að vinna bug á hinum ýmsu kvillum með hollu og góðu mataræði.
Ljósmynd/Nadia´s Healty Kitchen
Syndsamlegt avókadó- og bananabrauð
- 120 g spelthveiti
- 55 g hafrar
- 1 tsk. lyftiduft
- 1 tsk. matarsódi
- 1 tsk. kanilduft
- 1/2 tsk. salt
- 4 msk. stevía (eða sykur að eigin vali)
- 4 msk./30 g kókossykur (eða sykur að eigin vali)
- 2 stórir og vel þroskaðir bananar
- 1 vel þroskað avókadó
- 1 chia-egg (sem er búið til með því að blanda saman 1 msk. af chia-fræjum og 3 msk. af vatni) – eða þú getur bara notað venjulegt egg.
- 2 msk. olía (canola, kókos eða hvað sem þú vilt)
- 1/2 tsk. vanillu paste (eða 1 tsk. vanilludropar)
Aðferð
- Hitið ofninn upp í 180 gráður (160 gráður ef þið notið blásturinn)
- Skerið avókadóið í tvennt, takið steininn og skafið kjötið út og setjið í blandara ásamt banönunum. Blandið þar til mjúkt og fallegt.
- Bætið við chia-egginu - eða venjulega egginu, vanillunni og olíunni.
- Í stóra skál skuluð þið setja saman öll þurrefnunin og blanda vel.
- Hellið blautu hráefnunum saman við þau þurru og blandið blíðlega saman.
- Setjið blönduna í brauðform og bakið í 40-50 mínútur.
Næringarinnihald í hverri sneið:
- Hitaeiningar: 166
- Prótein: 3,2 g
- Kolvetni: 24 g (6,9 úr sykri)
- Fita: 7,7 g
- Trefjar: 4,6 g
Ljósmynd/Nadia´s Healty Kitchen