„Ólafur í baði stal senunni“

Ljósmynd/blaka.is

Það er ekki öllum gefið að gæða matinn lífi en það gerði Lilja Katrín Gunnarsdóttir, matarbloggari og leikkona með meiru, en hún heldur úti hinni stórskemmtilegu síðu blaka.is. Dóttir Lilju, Anna Alexía fagnaði tveggja ára afmæli sínu á dögunum og þá kom ekkert annað til greina en að bjóða upp á fullskapað Frozen-þema.

Ljósmynd/blaka.is

„Yngsta barnið á heimilinu, ofursnillingurinn Anna Alexía, varð tveggja ára í síðustu viku og auðvitað var blásið til mikillar veislu. Frozen-afmæli par exelans!

Hún Anna nefnilega elskar Frozen og þá sérstaklega snjókallinn Ólaf. Henni er nett sama um nöfnu sína Önnu prinsessu en er að fatta Elsu drottningu meira og meira. Byrjuð að syngja aðeins með Let It Go og svona.

Það var mjög gaman að vera með svona þema í barnaafmæli en ég hef, ótrúlegt en satt, aldrei prófað það áður. Ég þurfti alveg að hemja mig að eyða ekki mörgum þúsundköllum í alls konar óþarfa drasl, enda er netið endalaus uppspretta af fallegu Frozen-dóti.

Ljósmynd/blaka.is

Ég vildi líka einbeita mér að því að Frozen-réttirnir yrðu gómsætir, ekki bara fallegir fyrir augað. Mér finnst það hafa tekist nokkuð vel, þó að ég segi sjálf frá. Og gaman að segja frá því að rétturinn sem tók minnstan tíma í undirbúningi sló mest í gegn. Það sannar bara að kökur og kruðerí þarf ekki alltaf að vera mega flókið til að slá í gegn. Stundum er bara algjör snilld að henda fullt af stöffi saman í skál af mikilli ástríðu og með bros á vör! Rétturinn sem ég tala um heitir North Mountain hér fyrir neðan, sem er að sjálfsögðu vísun í Frozen og fjallið þar sem Elsa reisir ískastalann sinn.

Bollakökurnar hef ég bakað áður og þið finnið uppskrift að þeim hér. Afmæliskökuna hef ég líka gert áður en uppskrift að botnunum finnið þið hér og að kreminu hér. Annað er nýtt og dásamlegt – alveg eins og afmælisbarnið! Ég mæli sérstaklega með fyrrnefndu North Mountain en einnig snjóboltunum sem er einstaklega einfalt að gera en þeir slógu rækilega í gegn í gleðinni. Ólafur í baði stal samt senunni og fannst krökkunum fáránlega gaman að hrista skálina!“

Ljósmynd/blaka.is

Frozen-afmæli fyrir tveggja ára snilling

Hráefni
  • peli rjómi
  • 450 g mjúkur rjómaostur
  • 1 1/2 bolli flórsykur
  • tsk. vanilludropar
  • blár matarlitur
  • 15-20 hvítar kexkökur með kremi
  • 8 kókosbollur
  • slatti af bláberjum
  • slatti af Djúpum
Snjóboltar
  • 40 sykurpúðar í hefðbundinni stærð (1 poki)
  • 55 g smjör
  • tsk. vanilludropar
  • 6 1/2 bolli Rice Krispies
  • 1/2 bolli litlir sykurpúðar
  • kökuskraut
Ólafur í baði
  • pakkar blátt Jello (ég fann það í Kosti)
  • 3 hefðbundnir sykurpúðar
  • 2 litlir sykurpúðar
  • 2-3 saltstangir
Frostbitar
  • Sykurpúðar
  • hvítt súkkulaði, brætt
  • sleikipinnaprik
  • blátt glimmerskraut
Leiðbeiningar
North Mountain
  1. Takið til þokkalega stóra skál og setjið hana til hliðar.
  2. Stífþeytið rjómann í annarri skál og setjið til hliðar.
  3. Blandið rjómaosti, flórsykri og vanilludropum vel saman í enn annarri skál. Blandið matarlitnum saman við (ef þið eruð með Frozen-þema). Blandið síðan rjómanum varlega saman við með sleif eða sleikju.
  4. Myljið helminginn af kexkökunum í botninn á skálinni. Ég muldi þær frekar gróft en það er auðvitað matsatriði.
  5. Hellið helmingnum af rjómaostablöndunni ofan á kexkökurnar.
  6. Raðið kókosbollunum ofan á rjómaostablönduna og myljið restinni af kexkökunum ofan á bollurnar. Hellið síðan restinni af rjómaostablöndunni ofan á.
  7. Skreytið herlegheitin með bláberjum og Djúpum og kælið í ísskáp í 1-2 klukkutíma.
  8. Drissið síðan smá flórsykri ofan á fjallið áður en það er borið fram.
Snjóboltar
  1. Skellið hefðbundnu sykurpúðunum og smjörinu í þokkalega stóran pott og leyfið þessu að bráðna saman yfir meðalhita. Þetta tekur nokkrar mínútur og passið að hræra reglulega í blöndunni.
  2. Þegar þetta er bráðnað saman er vanilludropum hrært út í.
  3. Síðan er potturinn tekinn af hellunni og Rice Krispies, litlum sykurpúðum og kökuskrauti að eigin vild bætt út og hrært vel. Leyfið blöndunni síðan að kólna í 3-5 mínútur.
  4. Bleytið hendurnar aðeins og búið til bolta úr blöndunni. Raðið þeim á smjörpappír og leyfið þeim að storkna.
  5. Ástæðan fyrir því að það er gott að vera með rakar hendur í þessu er að blandan er klístruð og festist við hendurnar ef þær eru ekki rakar. Það er gott að bleyta hendurnar reglulega, eða eftir hverja 3 snjóbolta.
Ólafur í baði
  1. Búið til Jello eftir leiðbeiningum á pakka í meðalstórri skál. Leyfið því að kólna inn í ísskáp í 1 1/2-2 tíma.
  2. Takið hlaupið úr ísskápnum og raðið sykurpúðum og saltstöngum ofan á það til að búa til Ólaf.
  3. Setjið hlaupið aftur inn í ísskáp í um það bil 2 tíma og fylgist með viðbrögðum veislugesta þegar þetta er sett á borðið!
Frostbitar
  1. Bræðið hvíta súkkulaðið. Dýfið endunum á prikunum í súkkulaðið og þrýstið þeim inn í miðju sykurpúðanna. Leyfið þessu að storkna í nokkrar mínútur.
  2. Dýfið síðan sykurpúðunum ofan í hvíta súkkulaðið, skreytið með glimmerinu og leyfið að storkna aftur. Hér er gott að vera með frauðplastbút til að stinga prikunum ofan í.
Ljósmynd/blaka.is
Ljósmynd/blaka.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka